Fréttir Greiningar

Stöðugri króna á seinni hluta ársins

29.12.2017 11:25

Þrátt fyrir afnám hafta á flestar fjármagnshreyfingar milli landa og fátíð inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hefur gengi krónu verið tiltölulega stöðugt frá miðju ári. Gengi krónu er þar að auki nánast það sama í árslok og það var í byrjun árs. Er það bæði til marks um vel heppnað haftaafnám og einnig vísbending um að allgott jafnvægi sé þessa dagana í gjaldeyrisflæði til og frá landinu, þar sem útflæði um fjármagnsjöfnuð ásamt gjaldeyriskaupum Seðlabankans fyrr á árinu hefur vegið upp innflæði vegna viðskiptaafgangs.

Skipta má árinu í þrjá hluta hvað varðar umhverfi gjaldeyrismarkaðar. Frá áramótum og fram undir miðjan marsmánuð var umhverfið með svipuðum hætti og verið hafði árin á undan, þar sem umfangsmikil gjaldeyrishöft voru við lýði og Seðlabankinn var tiltölulega virkur þátttakandi á millibankamarkaði. Eftir haftalosun um miðjan mars tók við tímabil fram til maíloka þar sem flestar tegundir fjármagnsflutninga voru frjálsar en Seðlabankinn var enn nokkuð virkur gjaldeyriskaupandi á markaði. Frá júníbyrjun hefur bankinn hins vegar haft lítil afskipti af markaðinum, og þá fyrst og fremst í því skyni að stöðva spíralmyndun þar sem veruleg gengisbreyting hefur farið saman við litlar raunverulegar gjaldeyrishreyfingar. 

Eins og sjá má á myndinni fyrir ofan hefur hlutverk Seðlabankans á markaði breyst mikið á árinu. Árið 2016 átti bankinn hlutdeild að 55% allra viðskipta á millibankamarkaði með gjaldeyri. Á fyrri helmingi þessa árs var þetta hlutfall tæplega 30%, en frá miðju ári hefur bankinn aðeins átt hluta að tæplega 2% viðskipta á markaði. 

Segja má að haftalaus gjaldeyrismarkaður hafi þroskast hratt á árinu. Fyrstu vikurnar eftir haftaafnám jukust skammtímasveiflur verulega, og aftur bætti í þær á sumarmánuðum samfara talsverðri og óvæntri veikingu krónu. Frá miðjum ágústmánuði hefur hins vegar dregið verulega úr flökti að nýju, og undanfarna mánuði hafa sveiflurnar að mati okkar verið í hóflegri kantinum miðað við það sem ætla mætti í ljósi stóraukins frelsis á gjaldeyrismarkaði og minni afskipta Seðlabankans.

Nýtt umhverfi, sama gengið?

Athyglisvert er að bera heildarþróun ársins hvað varðar gengi krónu saman við árin á undan. Síðustu ár var gjaldeyrismarkaður undir styrkri handleiðslu Seðlabankans, þar sem saman fóru ströng gjaldeyrishöft og mikil inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði. Þau inngrip höfðu bæði þann tilgang að draga úr gengisbreytingum og ekki síður að stækka hreinan gjaldeyrisforða bankans. Eins og sjá má af myndinni hér fyrir neðan var gengi krónu nánast fast frá öðrum fjórðungi ársins 2014 fram til sumarsins 2015. Frá júlí 2015 fram til ársloka 2016 styrktist krónan hins vegar verulega þrátt fyrir inngrip Seðlabankans. 

Sé horft á árið 2017 í heild er gengi krónu aftur á móti nánast hið sama nú í lok árs og það var fyrir ári síðan, þótt nokkrar sveiflur hafi verið á milli mánaða. Rétt er að rifja upp að ekki eru mörg misseri síðan almennt var talið mjög líklegt að haftaafléttingu myndi fylgja veruleg veiking krónu. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að haftaafléttingin hefur orðið til þess að styrkja og dýpka gjaldeyrismarkað, og gjaldeyrisflæði til og frá landinu hefur í stórum dráttum verið í jafnvægi.

Þar hafa vegist á tveir þættir: Annars vegar hefur hreint innflæði gjaldeyris vegna utanríkisviðskipta verið umtalsvert í ljósi þess að viðskiptaafgangur í ár stefnir í u.þ.b. 120 – 130 ma.kr. að mati okkar. Hins vegar virðist sem hreint útflæði um fjármagnsjöfnuð vegna fjárfestinga út úr landinu umfram fjárfestingar hingað til lands og lánahreyfinga, ásamt gjaldeyriskaupum Seðlabankans á fyrri helmingi ársins, hafi verið af áþekkri stærðargráðu og viðskiptaafgangurinn á árinu. Rétt er þó að halda til haga að enn eru til staðar höft í formi bindiskyldu á fjármagn erlendis frá sem ávaxtað er í krónum á íslenskum vöxtum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall