Fréttir Greiningar

Kaupmáttur launa vex enn allmyndarlega

22.03.2018 14:11


Hækkunartaktur launa hefur verið svipaður frá miðju síðasta ári. Aðeins hefur dregið úr aukningu kaupmáttar launa frá þeim tíma, en kaupmáttarvöxturinn er þó enn býsna myndarlegur í sögulegu og alþjóðlegu tilliti. Vaxandi kaupmáttur mun því áfram styðja við vöxt einkaneyslu, þótt einkaneyslan muni væntanlega vaxa öllu hægar á þessu ári en í fyrra.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitala í febrúar um 0,4%. Hækkunin á sér ýmsar skýringar í samningsbundnum hækkunum bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Fá merki eru hins vegar um verulegt launaskrið þrátt fyrir lítið atvinnuleysi og allhraða fjölgun starfa á íslenskum vinnumarkaði. Nýbirtar tölur Hagstofunnar af vinnumarkaði hljóða upp á 2,4% atvinnuleysi í febrúar, sem er svipað hlutfall og verið hefur að jafnaði undanfarið ár.

Er þetta ólíkt þróuninni í síðustu uppsveiflu fyrir áratug síðan þegar launaskrið var verulegt. Líklega má skýra ólíka þróun nú m.a. með því að samningsbundnar launahækkanir hafa verið nokkuð ríflegar síðustu ár auk þess sem mannaflsþörfin hefur verið hvað mest í greinum sem eiga tiltölulega auðvelt með að bæta við sig innfluttu vinnuafli á borð við byggingariðnað og ferðaþjónustu.

Aukinn kaupmáttur styður áfram við vöxt einkaneyslu

Kaupmáttur launa skrapp lítillega saman í febrúar frá mánuðinum á undan, enda hækkaði vísitala neysluverðs um 0,6% í febrúarmánuði. 12 mánaða taktur kaupmáttarins var hins vegar óbreyttur, og á þann kvarða hefur kaupmáttur aukist um 4,8% frá sama tíma í fyrra. Þessi taktur hefur verið svipaður undanfarna fjórðunga að jafnaði. Hámarki náði kaupmáttaraukningin hins vegar á fyrri hluta ársins 2016 þegar hún fór yfir 10% að jafnaði, og hefur kaupmáttarvöxtur ekki áður verið jafn hraður frá aldamótum hérlendis. Skýrist það bæði af ríflegum kjarasamningsbundnum hækkunum og lítilli verðbólgu á tímabilinu.

Sterk fylgni hefur verið milli kaupmáttarþróunar og einkaneyslu undanfarin ár. Raunar hefur einkaneysla á mann vaxið hægar heldur en kaupmáttur launa lengst af frá upphafi áratugarins, og er það til marks um að heimilin hafi ekki eytt um efni fram heldur þvert á móti lagt fyrir einhvern hluta vaxandi ráðstöfunartekna. Einkaneysla í heild jókst hins vegar nokkru hraðar en sem nam kaupmáttarvextinum á síðasta ári, og höfum við velt því upp hvort heimilin væru farin að ganga hraðar um gleðinnar dyr en efni stæðu til. Nýlegar tölur Hagstofunnar leiddu hins vegar í ljós að þegar leiðrétt er fyrir fólksfjölgun kemur í ljós að einkaneysla á mann jókst um 5,1%. Er það í ágætu samræmi við kaupmáttarþróun, þar sem kaupmáttur launa jókst að jafnaði um 5,0% í fyrra. Íslensk heimili virðast því nokkurn veginn hafa sniðið sér stakk eftir vexti hvað einkaneyslu varðar, en fyrir áratug síðan var mikill munur milli kaupmáttarþróunar og vaxtar einkaneyslu og var það bil brúað með aukinni skuldsetningu heimila.

Við gerum ráð fyrir að áfram verði ágætt samræmi milli kaupmáttarþróunar og einkaneyslu, að teknu tilliti til fólksfjölgunar. Þar sem útlit er fyrir bæði hægari kaupmáttarvöxt og minni fólksfjölgun í ár en raunin var í fyrra teljum við að einkaneysla muni að sama skapi vaxa hægar í ár, eða um tæp 5%. Það er eftir sem áður allmyndarlegur einkaneysluvöxtur, og mun hann standa undir stórum hluta hagvaxtar í ár að mati okkar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall