Fréttir Greiningar

Skuldatillögur ríkisstjórnarinnar jákvæðar fyrir heimilin

03.12.2013 12:42

nullAðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar á húsnæðisskuldum munu væntanlega auka nokkuð við hagvöxt á komandi árum vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem þær hafa á hreina eignastöðu heimilanna og ráðstöfunartekjur og þar með einkaneyslu og fjárfestingu heimilanna. Þær  er þó einnig líklegar til að hafa hliðarverkanir í för með sér og valda nokkru meiri og þrálátari verðbólgu en ella næstu ár og hærri vöxtum. Þær gætu þá einnig veikt krónuna m.a. vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem þær hafa á viðskiptajöfnuð. Gætu aðgerðirnar einnig orðið til þess að auka við útgáfu ríkisbréfa á næstu árum. Óvíst er með áhrif þeirra á lánshæfismat ríkissjóðs. Fyrirkomulag aðgerðanna, þar sem áhrifum þeirra er að hluta dreift á fjögurra ára tímabil, er hins vegar til þess fallið að draga úr hliðarverkunum þeirra á næstunni.

Tvískiptar aðgerðir

Samkvæmt aðgerðaáætluninni sem kynnt var síðastliðinn laugardag er áætlað að skuldir heimila muni lækka vegna þeirra um 150 ma.kr. fram til ársloka 2017. Af þeirri tölu eru áhrif af beinni skuldalækkun metin á 80 ma.kr. Áhrif af nýtingu greiðsla sem annars rynnu í séreignarsparnað til að greiða niður skuldir eru metin á 70 ma.kr. á tímabilinu. Óvissa er raunar í matinu á báðum þessum tölum og skýrist því endanlegt umfang þeirra ekki fyrr en þær eru komnar til framkvæmda.

Gætu aukið útgáfu ríkisbréfa

Öfugt við það sem gefið hafði verið til kynna fyrr á árinu verður fyrrnefnda skuldalækkunin fjármögnuð beint af ríkissjóði og kemur fram í rekstri A-hluta hans á komandi árum. Er áætlað að kostnaður ríkissjóðs vegna þessa hluta aðgerðanna nemi 20 mö.kr. á ári og að á móti komi tekjur af verulega hækkuðum skatti á fjármálafyrirtæki frá því sem áður hafði verið áætlað. U.þ.b. ¾ hlutar þess skatts eiga að koma frá innlánsstofnunum í slitameðferð. Ekki er þó óumdeilt að sú skattheimta standist lög, hvað gömlu bankana varðar. Ef skattheimtunni verður hnekkt fyrir dómstólum mun ríkið þurfa að afla þess fjár, líklega rétt innan við 30 ma.kr. á ári, með öðrum hætti og er líklegt að aukna ríkisbréfaútgáfu þurfi til þess að fjármagna ríkissjóð næstu árin ef sú verður raunin. Rétt er þó að halda til haga að vel getur verið að skattheimtan standist, og einnig að ríkisbréfaútgáfa á næsta ári verður væntanlega sú minnsta frá hruni. 

Hóflegri skuldaniðurfærsla en búist var við

Beina skuldaniðurfærslan virðist verða töluvert hóflegri en margir bjuggust við í kjölfar niðurstöðu Alþingiskosninga í maí sl. Að sama skapi verða eftirspurnaráhrif vegna aukinna ráðstöfunartekna og eignaáhrifa af auknu eigin fé í húsnæði minni . Áætlað er að skuldir heimila hafi verið 108% af vergri landsframleiðslu (VLF), eða u.þ.b. 1.870 ma.kr., um mitt þetta ár. Skuldaniðurfærslan jafngildir því u.þ.b. 4,3% lækkun á skuldum heimilanna eða um sem nemur 4,6% af VLF. Til samanburðar hafa skuldir heimila lækkað úr ríflega 130% af VLF frá árinu 2009 niður í fyrrnefnd 108%, og í krónum talið hefur niðurfærsla skulda heimila þegar numið 244 mö.kr. frá hruni samkvæmt tölum Seðlabankans. Þar vegur þyngst endurútreikningur gengistryggðra lána, en fyrri beinar aðgerðir stjórnvalda hafa leitt til 56 ma.kr. lækkunar á skuldunum.

Eykur hagvöxt, einkaneyslu og fjárfestingu heimilanna

nullSamhliða aðgerðapakkanum var kynnt mat ráðgjafarfyrirtækisins Analytica á þjóðhagslegum áhrifum hans. Áhrif á hagvöxt eru metin til 0,8% hækkunar á næstu 5 árum. Er reiknað með því að það sé aðallega vegna aukins vaxtar einkaneyslu og fjárfestinga heimilanna. Eru áhrif á einkaneyslu þar metin samanlagt til 1% hækkunar og áhrif á fjárfestingu í íbúðarhúsnæði til 21,8-29,8% hækkunar. . Auknum vexti innlendrar eftirspurnar vegna aðgerðanna fylgir hins vegar aukinn innflutningur og hafa þær þannig neikvæð  áhrif á vöru og þjónustujöfnuð um samanlagt 2,9 – 3,2% af VLF á þessu tímabili. Gætu aðgerðirnar því sett nokkru meiri veikingarþrýsting á gengi krónu en ella næstu árin.

Eykur verðbólgu og kallar á hærri vexti

Áhrifin á krónuna, ásamt þeirri aukningu í innlendri eftirspurn sem gert er ráð fyrir, gera matið á verðbólguáhrifum aðgerðanna nokkuð óraunsætt að okkar mati, en verðbólguáhrif í framangreindu mati eru hverfandi. Við teljum hins vegar að verðbólguáhrifin verði nokkur, en að þau muni dreifast á komandi 4 ár í líkum takti og áhrifin á einkaneyslu og hagvöxt. Verðbólga verður því nokkuð þrálátari fyrir vikið en ella með tilheyrandi áhrifum á m.a. vaxtastigið í landinu. Hins vegar virðist ljóst að áhyggjur margra á markaði fyrr í haust um að skuldaaðgerðirnar myndu magna umtalsvert upp verðbólgu allra næsta kastið voru verulega orðum auknar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall