Fréttir Greiningar

Spáum 0,5% hækkun neysluverðs í apríl

14.04.2014 09:27

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,5% í apríl. Ef spáin gengur eftir eykst verðbólga úr 2,2% í 2,5%. Verðbólguhorfur fyrir yfirstandandi ár eru lítið breyttar, en horfur fyrir næsta ár hafa lítillega batnað, þótt við gerum líkt og áður ráð fyrir aukinni verðbólgu á komandi misserum. Verðbólga verður þó að mati okkar minni næstu árin en hún hefur að jafnaði verið undanfarin ár. Hagstofan birtir VNV fyrir apríl kl. 09:00 þann 29. apríl næstkomandi.

Íbúðaverð, eldsneyti og flug hækkar

nullÞað eru fyrst og fremst þrír liðir sem skýra hvers vegna við væntum meiri hækkunar VNV í apríl en í bráðabirgðaspá okkar, sem hljóðaði upp á 0,3% hækkun. Vísbendingar eru um að markaðsverð íbúðarhúsnæðis hafi haldið áfram að hækka undanfarið, og er hækkunartakturinn öllu hraðari en við gerðum áður ráð fyrir. Teljum við nú að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar markaðsverð að mestu, hækki um 0,75% í apríl (0,10% í VNV). Að viðbættri hækkun á viðhaldskostnaði vegna samningsbundinnar launahækkunar iðnaðarmanna vegur húsnæðisliður VNV til 0,17% hækkunar.

Þessu til viðbótar hefur eldsneytisverð hækkað um 2,5% að jafnaði frá marsmánuði samkvæmt mælingu okkar (0,13% í VNV). Einnig bendir verðkönnun okkar til þess að flugfargjöld til útlanda hafi hækkað talsvert þriðja mánuðinn í röð (0,09% í VNV). Samanlagt vega því þessir þrír liðir til 0,4% hækkunar. Aðrir liðir hafa samanlagt áhrif til 0,1% hækkunar í apríl.

Verðbólga svipuð út árið

nullVerðbólguhorfur fyrir komandi mánuði eru svipaðar og áður, nema hvað við teljum að hækkun vegna sveiflukenndra liða í apríl muni ganga til baka að hluta í maí. Þannig gerum við t.d. ráð fyrir minni hækkun á flugfargjöldum í maímánuði en við gerðum áður ráð fyrir. Jafnframt reiknum við með að krónutöluhækkanir hins opinbera á áfengi og tóbaki og eldsneyti um síðustu áramót gangi að hluta til baka í maí. Við lækkum því bráðabirgðaspá fyrir maí úr 0,2% í 0,1% hækkun. Eins og áður gerum við ráð fyrir 0,3% hækkun í júní. Loks teljum við að VNV lækki um 0,4% í júlí, og er lækkunin til komin vegna útsöluáhrifa líkt og jafnan í júlímánuði.

Miðað við ofangreinda spá mun verðbólga mælast 2,4% í júnímánuði. Það sem eftir lifir árs verður verðbólga áfram á svipuðum slóðum, og gerum við ráð fyrir 2,5% verðbólgu í árslok. Verðbólguhorfur fyrir næsta ár hafa svo heldur batnað frá síðustu spá okkar, og gerum við nú ráð fyrir 3,4% verðbólgu yfir árið 2015 í stað 3,7% verðbólgu áður. Eftir sem áður spáum við hins vegar 3,9% verðbólgu yfir árið 2016. Útlit er því fyrir að meðalverðbólga næstu 3ja ára verði í grennd við 3,6%. Til samanburðar má nefna að verðbólguálag til sex ára á skuldabréfamarkaði (m.v. verðtryggð og óverðtryggð ríkisbréf) er nú 3,6%.

Langtímaspá okkar byggir á þeim forsendum að íbúðaverð hækki um 5% – 6% á ári hverju, laun taki að hækka hraðar frá og með næsta ári samhliða því að slakinn hverfur úr efnahagslífinu og krónan veikist að jafnaði um 2% - 3% á ári.

Verðbólguspá fyrir apríl

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall