Fréttir Greiningar

Dregur úr þjónustuafgangi á öðrum ársfjórðungi

01.09.2017 12:28

Nýjar tölur Hagstofunnar um þjónustuviðskipti og aðrar nýlegar hagtölur tengdar ferðaþjónustu gefa til kynna að hægt hafi á vexti ferðaþjónustunnar upp á síðkastið. Viðskiptaafgangur verður líklega mun minni í ár en í fyrra og á það sinn þátt í ólíkri gengisþróun krónu í ár miðað við árið 2016.

Afgangur af þjónustujöfnuði var 60 ma.kr. á öðrum fjórðungi ársins.  Er það 5 mö.kr. minni afgangur en á sama tíma í fyrra, sem skýrist bæði af stórauknum innflutningi ferðatengdrar þjónustu og samdrætti í útfluttri þjónustu að ferðaþjónustu frátalinni. Í krónum talið jókst innflutt þjónusta vegna ferðalaga, sem endurspeglar neyslu Íslendinga á ferðalögum erlendis, um 19% á 2F frá sama tíma í fyrra, og að teknu tilliti til styrkingar krónu á tímabilinu var raunaukningin töluvert meiri. Aftur á móti mælist talsverður samdráttur á milli ára í liðum á borð við útflutta tölvutengda þjónustu, gjöld fyrir notkun hugverka og aðra viðskiptaþjónustu. Þessar tölur endurspegla líklega áhrif af háu raungengi, sem bæði kemur niður á samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja og eykur einnig á ferðagleði landsmanna erlendis.

Útflutt þjónusta vegna ferðalaga jókst um ríflega 9% í krónum talið á 2F frá sama tíma í fyrra. Það er aðeins þriðjungur af þeim vexti sem mældist í þessum lið á 1F, og er til marks um hversu dregið hefur úr árstíðarsveiflu í ferðaþjónustu hér á landi þar sem vöxtur utan háannatíma hefur verið mun hraðari en vöxtur á sumarmánuðum.

Hægir á tekjuvexti í ferðaþjónustu

 Á fyrri helmingi ársins var afgangur af þjónustuviðskiptum 101 ma.kr., og er það aukning um 8 ma.kr. frá sama tímabili í fyrra. Þennan vöxt má fyrst og fremst þakka stórauknum útflutningi ferðatengdrar þjónustu á fyrsta fjórðungi ársins sem fjallað er um hér að ofan.

Þær staðtölur og vísbendingar sem borist hafa frá ferðaþjónustunni undanfarna mánuði bera flestar að þeim brunni að farið sé að draga úr þeim hraða vexti sem einkennt hefur geirann síðustu misserin. Auk framangreindra talna bárust í gær tölur frá Hagstofunni um gistinætur og gestakomur til og með júlí sl. Eins og myndin hér að ofan sýnir hefur dregið jafnt og þétt úr fjölgun gistinátta á heilsárshótelum upp á síðkastið eftir hraðan vöxt fjórðungana á undan. Hér ber raunar að hafa í huga að tölurnar ná aðeins yfir hluta þeirrar gistingar sem erlendum ferðamönnum stendur til boða. Engu að síður teljum við þær gefa nokkuð glögga mynd af þróun innan geirans, enda ríma þær ágætlega við þjónustujafnaðartölurnar hér að framan. Nánari umfjöllun um gistináttatölurnar má finna á vef Íslandsbanka.

Horfur á minni viðskiptaafgangi í ár

Nú liggja fyrir tölur fyrir tvo af þremur helstu undirliðum viðskiptajafnaðar á fyrri helmingi yfirstandandi árs. Á greiðslujafnaðargrunni nam halli á vöruskiptum tæpum 46 mö.kr. á 2F 2017. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var því u.þ.b. 15 ma.kr. á tímabilinu, sem er 10 mö.kr. minni afgangur en á sama tímabili í fyrra. Á fyrri helmingi ársins var afgangurinn ríflega 20 ma.kr. samanborið við rúmlega 27 ma.kr. afgang á sama tíma í fyrra. Nokkuð hefur því dregið úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum milli ára og á það liklega einhvern þátt í ólíkri þróun krónu á tímabilunum tveimur.

Í lok dags birtir Seðlabankinn yfirlit yfir greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins á 2F 2017. Verður fróðlegt að sjá hvernig viðskiptajöfnuður Íslands gagnvart umheiminum er að þróast miðað við þær tölur. Í hagspá okkar frá júlí sl. spáðum við því að viðskiptaafgangur muni nema tæplega 5% af vergri landsframleiðslu (VLF) á yfirstandandi ári, sem jafngildir u.þ.b. 125 mö.kr. Tölurnar nú eru í grófum dráttum í samræmi við þá spá, en þó gæti afgangurinn orðið eitthvað minni þegar upp er staðið.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall