Fréttir Greiningar

Verðbólgutakturinn tvöfaldast í mars

27.03.2015 11:18

Hröð hækkun íbúðaverðs, aukinn ferðakostnaður og útsölulok eru helstu áhrifaþættir í umtalsverðri hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í mars. Vísitalan hækkaði um ríflega 1,0% á milli mánaða, og hefur hún ekki hækkað meira í einum mánuði síðan í febrúar árið 2013. Nýbirt mæling Hagstofunnar á VNV var yfir spám markaðsaðila, sem lágu á bilinu 0,6% - 0,9% hækkun milli mánaða, en við höfðum spáð 0,9% hækkun. Þessi hækkun þýðir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar eykst úr 0,8% í 1,6%, og fer verðbólga þar með á ný yfir neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Horfur eru á að verðbólga verði áfram á líku róli næstu mánuði, en líklega eykst verðbólgan svo jafnt og þétt á seinni helmingi ársins og fer yfir verðbólgumarkmiðið fyrir árslok.

Hækkun íbúðaverðs veigamikill verðbólguvaldur

Reiknuð húsaleiga var sá einstaki undirliður sem vóg þyngst í hækkun VNV að þessu sinni. Þessi liður, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, hækkaði um 1,6% á milli mánaða (0,24% í VNV). Verulega hefur bætt í hækkunartaktinn á markaðsverði íbúðarhúsnæðis m.v. mælingu Hagstofunnar upp á síðkastið. Nemur hækkunin 4,2% undanfarna þrjá mánuði, sem er nærri jafn mikil hækkun og var samanlagt níu mánuðina þar á undan. Húsnæðisliðurinn skýrir raunar stærstan hluta verðbólgunnar undanfarna 12 mánuði, enda mælist 0,1% verðhjöðnun á því tímabili ef miðað er við VNV án húsnæðis. 

Nærtækt virðist að tengja hækkunina undanfarið a.m.k. að hluta við „leiðréttinguna“ svokölluðu, enda komu áhrif hennar á greiðslubyrði og veðrými lántakenda að langmestu leyti fram á þessu tímabili. Undanfarna 12 mánuði hefur hækkunin reyndar verið tvöfalt meiri á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (tæp 12%), en á sérbýli á höfuðborgarsvæði sem og íbúðaverði á landsbyggð, sem hefur hækkað um tæp 6% á sama tíma.

Ferðakostnaður  eykst

Ferða- og flutningaliður VNV hækkaði verulega að þessu sinni, og má rekja hækkunina að langstærstum hluta til 5,8% hækkunar á eldsneyti (0,20% áhrif í VNV) og 8,8% hækkunar á flugfargjöldum til útlanda (0,11% í VNV). Er hækkun eldsneytis raunar sú mesta í fjögur ár, en eldsneyti er þó enn talsvert ódýrara en það var um mitt síðasta ár. Verðathugun okkar hafði bent til verulegrar hækkunar á báðum þessum liðum í mars, en þeir hafa báðir tilhneigingu til að sveiflast töluvert á milli mánaða. Flugfargjöld innanlands lækkuðu hins vegar um 20%, sem vóg á móti hækkun ferðaliðarins á heildina litið.

Töluverð áhrif útsöluloka

Áhrif útsöluloka voru öllu meiri að þessu sinni en við höfðum vænst. Verð á fötum og skóm hækkaði um 9,1% í mars (0,39% í VNV), og voru föt og skór raunar sá yfirliður sem hækkaði mest að þessu sinni milli mánaða. Verð á fötum og skóm er þó enn heldur lægra en var í upphafi árs eftir óvenju sterk útsöluáhrif í janúarmánuði. Einnig hækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 0,4% að þessu sinni (0,02% í VNV).

Horfur á vaxandi verðbólgu þegar frá líður

Horfur eru á hóflegri hækkun VNV allra næstu mánuði að okkar mati, og verður 12 mánaða verðbólgutakturinn áfram í kring um núverandi verðbólgustig. Hlé hefur orðið á hækkun eldsneytisverðs undanfarið, og nokkuð virðist enn í land með niðurstöðu í kjarasamningum sem þýðir að innlendur kostnaðarþrýstingur er fremur lítill næsta kastið. Auk þess má búast við því að gengi krónu breytist lítið á næstunni. Einn stærsti óvissuliðurinn til skemmri tíma litið er hins vegar verðþróun á íbúðarhúsnæði, og verður fróðlegt að sjá hvort framhald verður á þeirri hröðu hækkun sem einkennt hefur síðustu mánuði. Bráðabirgðaspá okkar nú gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,2% í apríl, 0,2% í maí og 0,3% í júní. Verðbólga verður skv. spánni 1,6% í júní 2015.

Tækifæri til stöðugleika runnið úr greipum?

Hins vegar teljum við líklegt að verulega bæti í verðbólgutaktinn á seinni helmingi ársins, og þar gæti niðurstaða kjarasamninga vegið þungt. Nýlegar fréttir af kröfugerðum stórra launþegasamtaka og boðun verkfallsaðgerða er sannarlega ekki til að auka bjartsýni um hóflega niðurstöðu í þeim efnum. Virðist sem dýrmætt tækifæri til að koma á stöðugleika í samspili verðlags og launa hafi runnið úr greipum eftir því sem leið á síðasta ár, ekki síst vegna kjarasamninga stórra hópa opinberra starfsmanna sem hleyptu illu blóði í launþega á almennum markaði. Við gerum ráð fyrir því að verðbólga fari á ný yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á seinni hluta ársins og verði í kjölfarið yfir markmiðinu á komandi misserum, en þó undir 4% efri þolmörkum þess.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall