Fréttir Greiningar

Heimilin lyfta bensínfætinum

20.08.2018 14:18

Skýrar vísbendingar eru nú um að heimilin séu farin að létta á bensíngjöfinni hvað einkaneysluvöxt varðar eftir myndarlega inngjöf síðustu misserin. Útlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu í ár verði  sá hægasti frá árinu 2014.

Greiðslukortavelta heimila jókst um 5,3% að raungildi í júní samkvæmt tölum Seðlabankans og útreikningum okkar. Vöxturinn var alfarið tengdur veltu utan landsteinanna, sem jókst um tæp 29% að raungildi á meðan kortavelta innanlands dróst saman um hálfa prósentu á sama kvarða. Vöxtur veltu erlendis skýrist bæði af aukinni ferðagleði Íslendinga, en ekki síður af áframhaldandi miklum vexti í hlutdeild erlendra netverslana í neysluinnkaupum landsmanna. 

Þótt raunvöxtur kortaveltu í júní hafi verið nokkru sprækari en næstu tvo mánuði á undan bendir hann eindregið til þess að heimilin séu farin að stíga léttar í bensínfótinn þegar kemur að því að bæta við neysluútgjöld sín. Við það má bæta að nýskráningum bifreiða fækkaði um nærri 15% á fyrstu sjö mánuðum ársins m.v. sama tímabil í fyrra. Þótt að hluta megi skrifa þessa fækkun á minni umsvif bílaleiga í innkaupum endurspeglar hún líka viðsnúning í þessum stærsta neysluútgjaldalið heimila sem alla jafna er ekki greiddur nema að hluta til með greiðslukortum.

 

Aðrir nýlegir hagvísar sem hafa allsterk tengsl við þróun einkaneyslu segja svipaða sögu og kortatölurnar. Væntingavísitala Gallup hefur lækkað jafnt og þétt síðustu ársfjórðunga og var meðalgildi hennar á 2. fjórðungi ársins það lægsta í þrjú ár. Þá hefur dregið úr vexti kaupmáttar launa undanfarið og var kaupmáttarvöxturinn á 2F hinn hægasti frá seinni hluta ársins 2014.  
 
Í þjóðhagsspá okkar í maí sl. gerðum við ráð fyrir 4,6% vexti einkaneyslu í ár. Gangi spáin eftir verður um hóflegasta einkaneysluvöxt að ræða frá árinu 2014. Þetta er engu að síður allmyndarlegur vöxtur í alþjóðlegu samhengi og mun einkaneysluvöxturinn að mati okkar eiga drjúgan þátt í þeim 2,6% hagvexti sem við gerum ráð fyrir í ár samkvæmt maíspánni.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall