Fréttir Greiningar

Myndarlegur vöxtur í kortunum í október

16.11.2015 11:10

Útlit er fyrir að einkaneysla vaxi hraðar á seinni helmingi ársins en raunin var á þeim fyrri. Þá hefur mikill vöxtur ferðamennsku hérlendis utan háannatíma leitt til þess að gjaldeyrisútflæði vegna ferðamanna fylgir ekki lengur skammdeginu eins og reglan til skamms tíma. Þetta má ráða af nýlega birtum kortaveltutölum frá Seðlabanka Íslands.
 
Alls jókst kortavelta einstaklinga um 6,3% að raunvirði á milli ára í október sl. Þar af jókst kortavelta Íslendinga á erlendri grundu um 21,4% að raunvirði en kortavelta innanlands um 4,1% (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis). Þessi aukning er í takti við þróunina á síðari árshelmingi, en eins og áður segir eru vísbendingar um talsvert meiri einkaneysluvöxt á seinni árshelmingi en þeim fyrri. Á fyrri árshelmingi jókst kortavelta einstaklinga um 4,8% að raunvirði (m.v. VNV án húsnæðis) á milli ára á sama tíma og einkaneysla jókst um 4,4% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Það sem af er seinni árshelmingi hefur kortavelta einstaklinga aukist um 6,4% að raunvirði og má því búast við talsvert meiri einkaneysluvexti á seinni árshelmingi en þeim fyrri. Þá þróun má eflaust að einhverju leyti rekja til þess að kjarasamningaviðræður og verkfallsaðgerðir, og óvissa þeim tengd, kunni að hafa aftrað nokkuð vexti í eftirspurn heimilanna á fyrri árshelmingi. Niðurstaða þeirra viðræðna, þar sem stórir launþegahópar fengu býsna myndarlega launahækkun, gefi svo aftur á móti innspýtingu í eftirspurn á seinni árshelmingi.

Kortaveltujöfnuður  í fyrsta sinn jákvæður í október

Kortavelta útlendinga hér á landi nam ríflega 10,4 mö. kr. í október sl. borið saman við 7,2 ma. kr. á sama tíma í fyrra. Jafngildir þetta aukningu upp á 45% í krónum talið á milli ára, og er það í línu við fjölgun ferðamanna á tímabilinu m.v. brottfarartölur Ferðamálastofu Íslands frá KEF. Alls nam kortavelta Íslendinga í útlöndum (vegna ferðalaga og netviðskipta) um 10,1 mö. kr. í október sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga erlendis) þar með jákvæður um tæpa 0,4 ma. kr. í mánuðinum. Er hér um að ræða hagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í októbermánuði, enda hafði jöfnuðurinn ávallt verið neikvæður í október hér á árum áður.

Mun afnám tolla hafa áhrif?

Út frá fjölda brottfara útlendinga samanborið við Íslendinga frá KEF í október sl. hefði eflaust mátt búast við enn hagstæðari kortaveltujöfnuði en raunin varð. Þannig voru brottfarir útlendinga um KEF 98,8 þús. talsins í mánuðinum en Íslendinga 44,5 þús. Af þessu má augljóslega sjá að hver Íslendingur eyðir mun meira í útlöndum en hver útlendingur gerir hér á landi. T.a.m. nam meðalkortavelta Íslendinga í útlöndum m.v. brottfaratölur þeirra í október sl. 226 þús. á mann á sama tíma og meðaleyðsla útlendinga hér á landi nam 106 þús. á mann. Hér spila þó fleiri þættir inn í. Hraður vöxtur kortaveltu erlendis skýrist þannig að hluta af auknum vinsældum erlendra netverslana á borð við Ali Express. Kom t.a.m. fram í Fréttablaðinu fyrr á árinu að póstverslun frá Kína hefði aukist um 137% árið 2014 frá árinu áður. Einnig ber að hafa í huga að kortavelta þeirra Íslendinga sem búsettir eru erlendis, t.a.m. námsmanna, er meðtalin í erlendu kortaveltunni. Þó er nokkuð ljóst að Íslendingar eru að jafnaði mun verslunarglaðari á ferðalögum en útlendingar sem hingað koma. Verður því áhugavert að sjá hvort að afnám tolla á fatnað og skó um næstu áramót komi til með breyta eitthvað þeirri venju og þá hvort að Íslendingar fari í kjölfarið í minni mæli í hreinar verslunarferðir á erlenda grundu.


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall