Fréttir Greiningar

Væntingar neytenda glæðast

20.12.2013 09:39

nullVæntingavísitala Gallup (VVG) hækkar um rúm 10 stig á milli nóvember og desember, og mælist hún nú 78,6 stig. Hækkun vísitölunnar milli mánaða er í takti við það sem við bjuggumst við, enda er hér um að ræða fyrstu mælingu frá því að stjórnarflokkarnir kynntu Leiðréttinguna svokölluðu. Þó er óhætt að segja að hækkunin sé ívið minni en við áttum von á, en lesa má út úr undirvísitölum VVG að tekjulægri hópar hafi átt von á að fá meira út úr aðgerðum stjórnvalda en raunin varð. Engu að síður er þetta jákvæð þróun, og er VVG nú í fyrsta sinn síðan í ágúst síðastliðnum hærri en hún var í sama mánuði fyrir ári. Þetta má sjá í VVG fyrir desembermánuð sem birt var í gær.

Væntingar til 6 mánaða yfir 100 stigin að nýju

Allar undirvísitölur hækka á milli mælinga í nóvember og desember. Mest hækka væntingar neytenda til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði. Hækkar sú undirvísitala um rúm 15 stig, en hún er nú 109 stig. Er það í fyrsta sinn síðan í júlí síðastliðnum sem þessi undirvísitala fer yfir 100 stig, en í því felst að flestir svarendur telja nú að ástandið í atvinnu- og efnahagsmálum verði betra að hálfu ári liðnu. Þá hækkar vísitalan fyrir mat á núverandi minnst, eða um tæp 3 stig, og mælist nú um 33 stig. Þá hækkar undirvísitalan fyrir mat á atvinnuástandinu um tæp 12 stig og mælist nú 85 stig en undirvísitalan fyrir mat á efnahagslífinu hækkar um tæp 7 stig og mælist rúm 62 stig.

Svartsýni eykst hjá tekjulægstu

nullSkipting svara eftir tekjuhópum er nokkuð athyglisverð nú, en munur á svörum eftir tekjuhópum var einnig áberandi strax eftir kosningar og áður en ný stjórn var mynduð. Rauk VVG þá upp í 105 stig hjá þeim tekjulægstu, þ.e. hjá þeim sem hafa tekjur undir 250 þús. krónum á mánuði og var á svipuðu róli og hjá þeim tekjuhæstu, þ.e. svarendum með tekjur a.m.k. 550 þús. krónur á mánuði. Nú fyrst eftir að kosningaloforðið er útfært snarlækkar VVG hjá þeim tekjulægstu, þ.e. um 13 stig, en hækkar aftur á móti hjá þeim tekjuhæstu, um 18 stig. Mælist VVG hjá fyrrnefnda hópnum 40 stig en 98 stig hjá þeim síðarnefnda. Má jafnvel túlka þetta sem svo að viðbrögð neytenda séu í takti við gagnrýni þeirra sem sagt hafa að aðgerðir stjórnvalda gagnist þeim tekjuhærri betur en hinum sem hafa lágar tekjur.

Lítil breyting á fyrirhuguðum stórkaupum

nullÁrsfjórðungsleg mæling stórkaupavísitölu var birt með VVG að þessu sinni. Það sem vekur athygli þar er hversu lítil breyting er á vísitölunni nú í kjölfar þess að aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar. Vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup stendur í stað frá síðustu mælingu hennar í september síðastliðnum. Vísitala fyrir fyrirhuguð bifreiðakaup hækkar lítillega eftir nokkra lækkun síðast og sama má segja um vísitölu fyrir fyrirhugaðar utanlandsferðir. Á hinn bóginn lækkar vísitala fyrir fyrirhuguð húsnæðiskaup næstu sex mánuði. Er því ekki hægt að sjá að neytendur hyggi í auknum mæli á íbúðakaup næsta kastið þótt von sé á aukningu ráðstöfunartekna um mitt næsta ár og nokkurri aukningu veðrýmis á íbúðarhúsnæði þeirra yfir næstu fjögur ár vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall