Frétt

Afkoma Íslandsbanka 2012

Yfirlit yfir helstu niðurstöður:

  • Afkoma bankans eftir skatta var jákvæð um 23,4 milljarða árið 2012 samanborið við 1,9 milljarða árið 2011 en þar gætti áhrifa vegna virðisrýrnunar á viðskiptavild í kjölfar yfirtöku Byrs sem olli einskiptiskostnaði uppá 17,9 milljarða króna.
  • Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi var 7,2 milljarðar samanborið við 9,5 milljarða tap á fjórða ársfjórðungi 2011.
  • Hagnaður ársins eftir skatta af reglulegri starfsemi var 15,7 milljarðar, samanborið við 13,9 milljarða árið 2011. 
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 17,2%, samanborið við 1,5% árið 2011. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 11,6%, samanborið við 11,0% árið 2011.
  • Skattar og gjöld greidd ríkisstofnunum voru 9,3 milljarðar á árinu, samanborið við 2,0 milljarða á árið 2011.
  • Heildareignir við árslok námu 823 milljörðum, samanborið við 796 milljarða í árslok 2011.
  • Vaxtamunur var 3,9% á árinu, samanborið við 4,5% árið 2011.
  • Frá stofnun bankans hafa um 20.900 einstaklingar og um 3.660 fyrirtæki fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum sem nema um 463 milljörðum króna.  
  • Nettó tekjufærsla vegna endurmats lánasafnsins var 6,5 milljarðar árið 2012, samanborið við 1,3 milljarða gjaldfærslu á sama tímabili fyrir árið 2011.
  • Heildarinnlán við árslok námu 509 milljörðum, samanborið við 526 milljarða í árslok 2011.
  • Eigið fé nam 148 milljörðum í árslok, sem er hækkun um 19,4% frá árslokum 2011. 
  • Fjárhagsstaða Íslandsbanka er traust. Eiginfjárhlutfall var 25,5% í árslok 2012 samanborið við 22,6% í árslok 2011. 
  • Nánari upplýsingar um afkomu bankans má finna í ítarlegri afkomutilkynningu hér að neðan.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Þá er fyrsta rekstrarári sameinaðs banka lokið. Þess mun ávallt verða minnst í sögu bankans sem ársins þegar samruna Íslandsbanka og Byrs lauk. Sameiningin jók markaðshlutdeild bankans verulega og lagði drög að tekju- og samlegðarárhrifum til framtíðar. Uppgjörið ber þess glögglega merki að  grunnrekstur bankans heldur áfram að styrkjast, en yfir 75% af rekstrartekjum bankans koma frá vaxta- og þóknanatekjum.

Við náðum mikilvægum áföngum í enduruppbyggingu íslensks fjármálamarkaðar á árinu. Íslandsbanki var leiðandi í þeirri vinnu bæði með áframhaldandi útgáfu sértryggðra skuldabréfa og umsjón með skráningu hlutabréfa Eimskipa og Vodafone í kauphöll. Enn fremur markaði skuldabréfaútboð bankans fyrir hönd Eikar fasteignafélags ákveðin tímamót í fyrirtækjafjármögnun. Útboðið var það stærsta sem einkaaðili hefur ráðist í frá því á árinu 2008. Framundan eru fleiri stór verkefni á þessu sviði sem munu varða veginn til frekari endurreisnar fjármálamarkaðarins.

Við höfum náð miklum árangri við fjárhagslega endurskipulagningu. Stórum málum lauk á árinu og brátt sér fyrir endann á endurútreikningi ólöglegra gengistryggðra lána. Íslandsbanki féll frá þremur dómsmálum á árinu til að flýta endurútreikningi og endurreiknar nú 15.000 lán. Hlutfall lána í endurskipulagningu hefur því lækkað umtalsvert eða úr 22.6% í 13.7%. Jákvæðir úrskurðir ESA varðandi þær aðgerðir sem gripið var til 2008 hafa einnig dregið úr óvissu í rekstri bankans. Þessi atriði ásamt meira lífi á fjármálamarkaði gefur til að kynna að það séu að verða þáttaskil í rekstri bankans og starfsumhverfi okkar.”

Síðar í dag munu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri, kynna afkomu bankans á opnum fjárfestafundi og svara fyrirspurnum. Fundurinn hefst kl. 16.00 og fer fram á íslensku. Nauðsynlegt að gestir skrái sig á afkomukynninguna með tölvupósti til:ir@islandsbanki.is

Hægt verður að nálgast fundargögn frá kynningunni á www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl.

Nánari upplýsingar

Til baka

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall