Frétt

Endurskipulagning Íslandsbanka í samræmi við reglur EES

ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur komist að þeirri niðurstöðu að þær ráðstafanirnar sem gripið var til við stofnun Íslandsbanka haustið 2008 séu samrýmanlegar ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Íslandsbanki er fyrstur af viðskiptabönkunum þremur til að fá samþykki ESA fyrir stofnun og starfsemi bankans. Samþykkið er fengið í ljósi þess að bankinn hefur sýnt fram á rekstrarhæfi til langs tíma; að kostnaður við endurskipulagningu skiptist hæfilega milli eigenda bankans, bankans sjálfs og ríkisins og að ríkisaðstoðin takmarkist við það sem nauðsynlegt er; og að fullnægjandi ráðstafanir séu gerðar til að draga úr röskun á samkeppni.

Í niðurstöðunni kemur fram að Íslandsbanki hafi tekist á við brotalamir forvera síns og búi nú við sterkt eiginfjárhlutfall. Þá hafi bankinn náð árangri varðandi endurskipulagningu lána skuldsettra viðskiptavina sinna. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs höfðu um 18.200 einstaklingar og um 3.000 fyrirtæki fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum frá stofnun bankans sem nemur um 370 milljörðum króna. 

ESA tekur einnig tillit til þess að margar umbætur hafa verið gerðar á löggjöf um fjármálastarfsemi frá haustinu 2008. Þessar breytingar hafi, að mati ESA, styrkt regluverk um fjármálastarfsemi á Íslandi og þar með aukið á öryggi í rekstri fjármálafyrirtækja. Þá telur ESA að kröfu um nægjanlegt framlag eigenda og fjárfesta sé mætt og bót sé ráðin á freistnivanda þar sem fyrrum eigendur Glitnis hafi glatað hlutafjáreign sinni og lánadrottnar bankans hafi einnig þurft að sæta miklu tapi. 

Íslandsbanki skuldbindur sig til að halda áfram sölu á eignarhlutum í fyrirtækjum enda er slíkt í takt við stefnu bankans. Þá mun Íslandsbanki veita upplýsingar á vefsíðu sinni um hvernig skipta megi um viðskiptabanka og auðvelda þannig slíkt ferli fyrir þá viðskiptavini sem þess óska. Ennfremur er Íslandsbanka, í tiltekin tíma, óheimilt að kaupa aðrar fjármálastofnanir nema með samþykki ESA. 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:
"Það er mikilvægt að þessi áfangi sé nú í höfn og Íslandsbanki þar með fyrsti viðskiptabankinn hér á landi til að fá samþykki ESA fyrir þeim aðgerðum sem gripið var til haustið 2008. Mikil áhersla hefur verið lögð á að styrkja innviði bankans frá stofnun hans og hefur eitt af lykilverkefnum bankans snúið að úrbótum í þeim efnum. Þessi niðurstaða staðfestir að rekstur bankans er á réttri leið og að miklum árangri hefur verið náð í endurskipulagningu bankans á síðustu tæpum fjórum árum."

Til baka

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall