Skattlagning sjóða í slitaferli

Um skattlagningu hagnaðar af hlutdeildarskírteinum gilda lög um tekjuskatt nr. 90/2003, lög um fjármagnstekjuskatt nr. 94/1996 ásamt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Þar kemur fram að við innlausn eða sölu skuli gera skil á skatti af gengishækkun hlutdeildarskírteina.

Samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra frá 28. október 2008, skal ekki litið á útgreiðslur vegna slitasjóða sem innlausn í skilningi skattalaga. Þess í stað skal útreikningur og afdráttur fjármagnstekjuskatts slíkra sjóða vera undantekning frá meginreglunni um að halda beri eftir staðgreiðslu af vaxtatekjum sem falla kynnu til við útborgun, þ.e. skipti á hlutdeild í sjóði yfir í innlánsreikning á því tímamarki þegar færslan fer fram.

Ríkisskattstjóri hefur í bréfi sínu gefið þau fyrirmæli, að fjármagnstekjuskattur skuli ekki reiknaður og dreginn af fyrr en útgreiðsla úr sjóði í slitameðferð fari fram úr upphaflegu heildarkaupverði hvers sjóðfélaga. Ástæða þessa er að ekki er vitað hversu langan tíma muni taka að greiða út úr slitasjóðunum auk þess sem veruleg óvissa er um hverjar endanlegar tekjur verða. Niðurstaðan er því sú að skattur verður ekki dreginn af útgreiðslu úr slitasjóði fyrr en samtala útgreiðslu fer fram úr samtölu upphaflegs kaupverðs. Eftir það eru allar greiðslur úr slitasjóði skattlagðar uns slitum á viðkomandi sjóði er lokið.