Valmynd

Grænn skuldabréfasjóður Íslandssjóða

Íslandssjóðir, elsta eignastýringarfyrirtæki landsins og dótturfélag Íslandsbanka, hefur stofnað sjóðinn IS Græn skuldabréf sem fjárfestir í skuldabréfum sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á umhverfi okkar og samfélag, til dæmis með fjármögnun verkefna sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Nasdaq Iceland hefur sett á stofn lista fyrir sjálfbær skuldabréf  og munu IS Græn skuldabréf taka virkan þátt í að byggja upp þennan nýja markað.

Sjóðurinn er nú þegar vel fjármagnaður og er góður valkostur fyrir sparifjáreigendur sem leggja áherslu á umhverfis- og samfélagsmál án þess að slaka á kröfum um góða langtíma ávöxtun.

Erlendis hefur markaðurinn með græn skuldabréf vaxið ört á undanförnum árum m.a. á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.

Stjórn Íslandssjóða hefur undirritað meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) ásamt því að félagið er einn af stofnaðilum IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti hefur frá árinu 2013 veitt Íslandssjóðum viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða:

,,Við hjá Íslandssjóðum sjáum mikil tækifæri í að bjóða fjárfestum sjóð með skýra stefnu í umhverfis- og samfélagsmálum. Við sjáum sóknarfæri í því að hafa jákvæð áhrif og byggja m.a. á ímynd landsins um hreina náttúru og heilbrigt samfélag. Við viljum bjóða upp á skýran valkost. Sjóð sem býður upp á faglega stýringu og samkeppnishæfa ávöxtun en gefur fjárfestum jafnframt tækifæri til að láta gott af sér leiða.“

Magnús Harðarson, aðstoðarforstjóri Nasdaq Iceland:

„Við óskum Íslandssjóðum innilega til hamingju með áfangann. Systurmarkaðir okkar í  Nasdaq hafa lengi boðið upp á vörur fyrir sjálfbærar fjárfestingar og því er það sérlegt ánægjuefni fyrir okkur að nú sé að skapast grundvöllur fyrir þær hér á landi. Við fögnum því frumkvæði Íslandssjóða. Við sjáum þróun í þá átt að útgáfa sjálfbærra skuldabréfa aukist á næstu misserum, sem skapar nýja möguleika fyrir fyrirtæki og fjárfesta sem kjósa að fjárfesta samkvæmt sjálfbærum gildum.“

Allar nánari upplýsingar veitir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða hf., í síma 844 2950.