Valmynd

Framkvæmdastjóri Íslandssjóða hf. óskar eftir að láta af störfum

Haraldur Örn Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandssjóða hefur sagt starfi sínu lausu hjá félaginu eftir fjögurra ára árangursríkt starf. Haraldur Örn er hæstaréttarlögmaður og hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra í júní 2012. Á þeim tíma hefur hann stýrt félaginu með farsælum hætti, unnið ötullega að uppbyggingu þess í kjölfar ölduróts og umbreytinga sem fjármálamarkaðurinn hefur gengið í gegnum á síðustu árum.

„Haraldur Örn tók við Íslandssjóðum í kjölfar mikilla umbrotatíma á fjármálamörkuðum og hefur leitt félagið í gegnum umfangsmikið umbreytingaferli sem hann hefur stýrt með miklum sóma. Samstarfið við Harald hefur verið bæði árangursríkt og ánægjulegt og óskar stjórn félagsins honum velfarnaðar í framtíðinni," segir Tanya Zharov, stjórnarformaður Íslandssjóða sem jafnframt þakkar Haraldi Erni fyrir vel unnin og árangursrík störf í þágu félagsins.

Haraldur Örn þakkar samstarfsfólki og stjórn fyrir einstaklega gott og ánægjulegt samstarf á undanförnum árum. „Uppbygging félagsins hefur gengið framúrskarandi vel á erfiðum tímum og geta starfsmenn félagsins verið stoltir af þeim góða árangri," segir Haraldur Örn og bætir við að hann komi til með að vera stjórn félagsins innan handar þar til að nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn.