Hvað eru sértryggð skuldabréf?

Af hverju sértryggð skuldabréf

Fjármögnun á íbúðalánum hefur færst frá Íbúðalánasjóði til lífeyrissjóða og viðskiptabankanna þriggja á sl. árum. Íbúðalánasjóður gaf síðast út skuldabréf árið 2012 og á síðustu árum hefur íslenska ríkið frekar lagt áherslu á útgáfu óverðtryggðra bréfa og haft að markmiði að lækka verðtryggðar skuldir. Útgáfa á verðtryggðum bréfum útgefnum af ríki eða með ríkisábyrgð er því afar takmörkuð. Ef ekkert kemur í staðinn verða fjárfestingakostir fjárfesta sem vilja örugg verðtryggð bréf fremur takmarkaðir. Árið 2011 hófu viðskiptabankarnir að fjármagna íbúðalán með útgáfu sértryggðra skuldabréfa skv. lögum nr. 11/2008, um sértryggð skuldabréf.  Komi til þess að útgefandi geti ekki greitt tilbaka skuldabréfið stendur tryggingasafn útgefanda að baki til tryggingar, en sértryggðu skuldabréfin njóta sérstaks fullnusturéttar og eru rétthærri en almennar kröfur. Þau teljast því með öruggari skuldabréfum á markaði en eru þó með álag á ríkisbréf. Sértryggði markaðurinn hefur byggst upp frá árinu 2011 og er í dagjafn stór að nafnvirði og óverðtryggð ríkisskuldabréf.

 

Af hverju sértryggðir sjóðir

Fyrir einstaklinga eru sértryggðir sjóðir áhugaverður kostur sérstaklega þegar horft er til þess að hver eining í sértryggðum skuldabréfum er 20 m. kr. að nafnverði. Það gerir einstaklingum erfiðara um vik að fjárfesta beint í skuldabréfunum eða ná fram æskilegri dreifingu milli útgefanda og flokka. Sjóðirnir bjóða upp á virka stýringu og dreifingu á mismunandi tímalengdir sem gerir þá að hagkvæmum kosti fyrir fjárfesta inn á sértryggða skuldabréfamarkaðinn.

 

Helstu kostir sértryggðra skuldabréfa umfram önnur fyrirtækjaskuldabréf

  • Viðskiptavaktir, 60 – 240m.kr. á hvorri hlið.
  • Krafa á útgefanda og fullnusturéttur í sérstöku undirliggjandi tryggingasafni.
  • Sérstök löggjöf.
  • Ríkuleg upplýsingagjöf.
  • Sjálfstæður skoðunarmaður staðfestur af Fjármálaeftirlitinu.
  • Álag á ríkisbréf.
Fyrirvari vegna fræðsluefnis
Tekið skal fram að umfjöllun þessi er aðeins birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum eða þjónustu. Íslandssjóðir hf. ber enga ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu þessari. Íslandssjóðir hf. ábyrgist ekki nákvæmni, áreiðanleika né réttmæti upplýsinga sem upprunnar eru frá þriðja aðila.