Þjóðhagsspá 2016 - haust

Þjóðhagsspá er gefin út tvisvar á ári af Greiningu Íslandsbanka en þar er farið yfir helstu hagtölur þjóðarbúsins og þær settar í samhengi við stöðu heimila, fyrirtækja og fjármálamarkaðarins.

Greining Íslandsbanka spáir kröftugum hagvexti í ár eða 4.9% og á næsta ári er spáð 5,1% hagvexti. Er þetta meiri hagvöxtur en mælst hefur hér á landi um árabil. Í kjölfarið er reiknað með hægari hagvexti árið 2018 eða 3,0%. Landsframleiðsla á mann hefur aukist töluvert og mælist nú mikil í alþjóðlegum samanburði. Jafnframt hafa þættir í afkomu heimila þróast með hagfelldum hætti og stutt við vöxt einkaneyslu. Má þá helst nefna kaupmátt launa, störfum hefur fjölgað og atvinnuleysi hjaðnað. Spáir Greining Íslandsbanka því að þessi hagfelda þróun haldi áfram.

Upptaka frá fundi

 Áhugaverðar staðreyndir úr Þjóðhagsspánni

Helstu niðurstöður:

  • Við spáum nokkuð kröftugum hagvexti hér á landi í ár og á næsta ári, eða sem nemur 4,9% og 5,1%. Er þetta meiri hagvöxtur en mælst hefur hér á landi frá árinu 2007. Við reiknum í kjölfarið með nokkuð hægari hagvexti á árinu 2018, eða 3,0%.
  • Hagvaxtarhorfur á spátímabilinu hafa á heildina litið batnað frekar frá síðustu spá okkar sem birt var í byrjun júní sl. Reiknum við með 1,1 prósentustigi meiri hagvexti á næsta ári og 0,4 prósentustigum meiri á árinu 2018 en í fyrri spá, en á móti hefur hagvaxtarspá okkar fyrir þetta ár verið endurskoðuð til lækkunar um 0,5 prósentustig.
  • Landsframleiðsla á mann hefur aukist talsvert hér á undanförnum árum og er hún nú nokkuð mikil í alþjóðlegum samanburði. Var hún í fyrra, leiðrétt fyrir kaupmætti, 24% yfir meðaltali ESB ríkjanna, sem er jafn hátt og hún fór hæst fyrir efnahagsáfallið 2008. Reikna má með því að Ísland fari enn hærra í þessum samanburði í ár og á næsta ári vegna mikils hagvaxtar hér á landi í alþjóðlegum samanburði.
  • Veigamiklir þættir í afkomu heimila hafa þróast með hagfelldum hætti undanfarið og stutt við mikinn vöxt einkaneyslu. Ber hér fyrst að nefna kaupmátt launa, sem hefur sjaldan aukist jafn mikið og um þessar mundir, og er aukningin langt umfram þá kaupmáttaraukningu sem varð í síðustu uppsveiflu. Einnig hefur störfum fjölgað nokkuð hratt og atvinnuleysi hjaðnað. Við spáum því að einkaneyslan vaxi um 8,1% í ár að raungildi. Rætist spá okkar verður það mesti vöxtur einkaneyslu síðan árið 2005.
  • Við teljum að hægja muni á einkaneysluvexti næstu tvö ár, sem eðlilegt er í kjölfarið, og að hann muni nema 5,5% á næsta ári og 3,4% árið 2018, sem má þó teljast talsverður einkaneysluvöxtur. Þessu til grundvallar liggur m.a. spá okkar um vöxt kaupmáttar launa, sem við reiknum með að aukist um 10,0% í ár, 5,2% á næsta ári og 2,3% á árinu 2018.
  • Atvinnuleysi hefur minnkað samfara vaxandi umsvifum í hagkerfinu. Er auknum hluta af vinnuaflsþörf hagvaxtarins nú mætt með innflutningi á vinnuafli, sem skýrir nokkuð hraða fólksfjölgun um þessar mundir. Við teljum að áfram dragi úr atvinnuleysi og að það fari niður í 3,1% í ár úr 4,0% í fyrra, verði svo 2,7% á næsta ári og 2,5% árið þar á eftir. Er atvinnuleysi á spátímanum undir jafnvægisatvinnuleysi og talsverð spenna á vinnumarkaðinum.
  • Verulega hefur bætt í fjármunamyndun í hagkerfinu undanfarin misseri, og er hún nú komin í takt við það sem eðlilegt má teljast í þróuðu hagkerfi. Við gerum ráð fyrir að fjármunamyndun aukist um 21,3% á yfirstandandi ári frá fyrra ári. Árið 2017 spáum við 7,2% vexti fjárfestingar, og árið 2018 verður vöxturinn 0,6% að okkar mati.
  • Ört vaxandi atvinnuvegafjárfesting á hvað mestan þátt í aukinni fjármunamyndun undanfarið. Stór hluti þessa vaxtar tengist ferðaþjónustu beint eða óbeint. Við gerum ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting aukist um 25,6% í ár frá síðasta ári. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 5,9% vexti slíkrar fjárfestingar, en 1,6% samdrætti árið 2018. Samdrátturinn 2018 skýrist einkum af öllu minni fjárfestingu í skipum og flugvélum, sem og tækjum til mannvirkjagerðar, en árið á undan.
  • Við spáum því að verð íbúðarhúsnæðis hækki um 8,5% í ár, 9,7% á næsta ári og um 6,6% á árinu 2018. Vaxandi kaupmáttur ráðstöfunartekna ásamt lýðfræðilegum þáttum, örum vexti í ferðaþjónustu og takmörkuðu framboði nýbygginga mun þrýsta verði upp. Mun raunverð íbúðarhúsnæðis hækka um 6,9% í ár, 8,0% á næsta ári og um 3,4% á árinu 2018.
  • Við reiknum með því að fjárfesting í íbúðarhúsnæði aukist um 17,7% í ár, 16,0% á næsta ári og um 8,5% á árinu 2018. Nokkuð hröð fólksfjölgun um þessar mundir, m.a. vegna talsverðs innflutnings á vinnuafli, kallar á auknar fjárfestingar á þessu sviði. Til viðbótar er hluti af íbúðarhúsnæði nýttur til að mæta gistiþörf erlendra ferðamanna sem hingað hafa komið, en þar hefur verið mikill vöxtur undanfarið og líkur eru á að sá vöxtur haldi áfram.
  • Frá árinu 2013 hefur viðskiptaafgangur verið umtalsverður, og hefur hann átt drjúgan þátt í að bæta erlenda stöðu þjóðarbúsins og efla gjaldeyrisforða Seðlabankans. Meginástæða þessa myndarlega viðskiptaafgangs er geysihraður vöxtur ferðaþjónustunnar á tímabilinu, en hún skilaði 35% allra útflutningstekna á fyrri helmingi yfirstandandi árs.
  • Við teljum að þjónustuútflutningur muni vaxa fimmfalt hraðar en vöruútflutningur á tímabilinu. Mestur verður vöxtur þjónustuútflutnings í ár, en þá spáum við 14,4% vexti. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 12% vexti þjónustuútflutnings, og árið 2018 áætlum við að vöxturinn verði 7%.
  • Útflutningur sjávarafurða mun taka við sér á spátímanum. Við spáum ríflega 4% aukningu í útflutningi sjávarafurða á næsta ári, og rúmlega 3% aukningu árið 2018. Hins vegar verður lítill vöxtur í útflutningi afurða orkufreks iðnaðar á spátímanum, enda hafa tafir og óvissa einkennt uppbyggingu í þeim geira.

Skýrsla um Þjóðhagsspá 2016-2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall