Þjóðhagsspá 2016 - vor

Þjóðhagsspá er gefin út tvisvar á ári af Greiningu Íslandsbanka en þar er farið yfir helstu hagtölur þjóðarbúsins og þær settar í samhengi við stöðu heimila, fyrirtækja og fjármálamarkaðarins.

Það hagvaxtarskeið sem nú stendur hvað hæst hefur talsverða sérstöðu miðað við fyrri uppsveiflutímabil. Þannig verður þetta lengsta tímabil samfellds hagvaxtar á mann í yfir 70 ár gangi spá okkar eftir. Einnig verður þetta lengsta tímabil þar sem er afgangur af utanríkisviðskiptum á sama tíma, og eitt lengsta tímabil verðstöðugleika.

Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxturinn í ár verði 5,4%, sem er mesti hagvöxtur sem mælst hefur í heilan áratug hér á landi. Spáir hún einnig nokkuð hröðum hagvexti á næsta ári, eða 4,0%, sem er þá þriðja árið í röð þar sem hagvöxtur er yfir langtímahagvexti og framleiðsluspenna að byggjast upp innan hagkerfisins. Hápunktur þenslunnar mun verða á næsta ári. Á árinu 2018 spáum við að hægja muni á hagvextinum og að hann verði 2,6%, þá bæði vegna hægari vaxtar í innlendri eftirspurn og útflutningi.

Upptaka frá fundi

 

Á útgáfufundi Greiningar Íslandsbanka í Hörpu var ný þjóðhagsspá kynnt. Í kjölfarið var staða og horfur í íslensku efnahagslífi til umræðu í panel.

Opnun á fundi: Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Markaða Íslandsbanka

Hvert stefnir hagkerfið? Efnahagshorfur 2016-2018. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka

Hvað með krónuna? Utanríkisviðskipti, haftalosun og gengisspá 2016-2018. Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka

Umræður: Agnar Tómas Möller, CIO og sjóðsstjóri hjá Gamma. Helga Óskarsdóttir, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum. Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá

Umræðum stýrði Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka

 Áhugaverðar staðreyndir úr Þjóðhagsspánni

Stutt kynningarmyndband um útgáfu Þjóðhagsspá Íslandsbanka

Helstu niðurstöður:

  • Það hagvaxtarskeið sem nú stendur hvað hæst hefur talsverða sérstöðu miðað við fyrri uppsveiflutímabil. Þannig verður þetta lengsta tímabil samfellds hagvaxtar á mann í yfir 70 ár gangi spá okkar eftir. Einnig verður þetta lengsta tímabil þar sem er afgangur af utanríkisviðskiptum á sama tíma, og eitt lengsta tímabil verðstöðugleika.
  • Við spáum því að hagvöxturinn í ár verði 5,4%. Er þetta mesti hagvöxtur sem mælst hefur í heilan áratug hér á landi.
  • Við spáum einnig nokkuð hröðum hagvexti á næsta ári, eða 4,0%, sem er þá þriðja árið í röð þar sem hagvöxtur er yfir langtímahagvexti og framleiðsluspenna að byggjast upp innan hagkerfisins.
  • Hápunktur þenslunnar mun verða á næsta ári. Á árinu 2018 spáum við að hægja muni á hagvextinum og að hann verði 2,6%, þá bæði vegna hægari vaxtar í innlendri eftirspurn og útflutningi.
  • Hagvöxtur mun ekki verða meiri í neinu öðru iðnvæddu ríki í ár og á næsta ári ef spá okkar og nýjasta hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í apríl sl. ganga eftir. Hafa hagvaxtarhorfur heldur versnað í viðskiptalöndunum undanfarið á sama tíma og þær hafa vænkast hér.
  • Við reiknum með að mikil hækkun launa á árinu samhliða hóflegri verðbólgu muni knýja kaupmátt launa áfram í ár, og spáum við því að vöxtur kaupmáttar launa muni nema 9,1% í ár.
  • Á næstu tveimur árum gerum við ráð fyrir minni launahækkunum og aukinni verðbólgu. Samhliða því mun hægja á vexti kaupmáttar sem við spáum að verði 4,4% á næsta ári og 2,0% á árinu 2018.
  • Við spáum því að áfram dragi úr atvinnuleysi og að það fari úr 4,0% árið 2015 niður í 3,2% í ár, 2,8% á næsta ári og 2,6% árið 2018.
  • Við spáum miklum vexti einkaneyslu í ár, eða sem nemur um 7,8% að raungildi. Á næstu tveimur árum gerum við ráð fyrir hægari vexti en þó þannig að hann verði áfram fremur myndarlegur, eða 5,2% árið 2017 og 3,4% 2018.
  • Við teljum að árleg fjárfesting nemi ríflega 20% af VLF á spátímanum og góður gangur verði í fjárfestingu öll árin. Vöxturinn verður þó langmestur á þessu ári en það dregur úr honum eftir því sem líður á spátímabilið. Við spáum 13,6% vexti fjárfestingar í ár, 6,1% vexti á næsta ári og 0,4% vexti árið 2018.
  • Atvinnuvegafjárfesting vegur þyngst í vexti fjármunamyndunar framan af spátímanum. Er vöxtur hennar að miklu leyti drifinn af fjárfestingu í útflutningsgreinum á borð við ferðaþjónustu og framleiðslu kísilafurða, auk fjárfestingar í öflun og dreifingu raforku. Alls áætlum við að atvinnuvegafjárfesting aukist um 17,4% á yfirstandandi ári og um 4,6% á næsta ári en minnki aftur á móti um 1,8% árið 2018.
  • Opinber fjárfesting hefur verið með minnsta móti síðustu ár. Opinberar áætlanir hljóða upp á áframhaldandi aðhald en við teljum að vöxtur opinberrar fjárfestingar verði samt nokkur í ljósi uppsafnaðrar þarfar fyrir endurnýjun og frekari uppbyggingu innviða. Við spáum 2,8% vexti í fjárfestingu hins opinbera í ár, 6,3% vexti árið 2017 og 4,1% vexti árið 2018.
  • Við gerum ráð fyrir nokkrum vexti íbúðafjárfestingar, sem knúinn verður áfram af almennri íbúðafjárfestingu ásamt fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda í byggingu leiguíbúða. Spáum við því að fjárfesting í íbúðarhúsnæði muni vaxa um 5,7% í ár, 14,3% á næsta ári og um 8,4% á árinu 2018.
  • Við spáum því að verð íbúðarhúsnæðis hækki um 8,1% að nafnvirði í ár, 8,4% á næsta ári og 6,4% á árinu 2018. Hraður vöxtur í kaupmætti ráðstöfunartekna, bætt eiginfjárstaða heimilanna, fremur lítið framboð nýbygginga, fjölgun ferðamanna og aukinn innflutningur á vinnuafli mun þrýsta verði upp.
  • Þróun utanríkisviðskipta hefur verið afar hagfelld undanfarið og hefur afgangur af utanríkisviðskiptum verið verulegur undanfarin þrjú ár. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi viðskiptaafgangi út spátímann.
  • Gríðarhraður vöxtur ferðaþjónustu er stærsta ástæðan fyrir verulegum viðskiptaafgangi. Þessi vöxtur hefur skilað sér í vaxandi afgangi af þjónustujöfnuði og gerum við ráð fyrir að hann verði 240-250 ma.kr. í ár. Raunvöxtur þjónustuútflutnings nemur 14,2% í ár að okkar mati. Við spáum 7,0% vexti þjónustuútflutnings á næsta ári og 4,0% vexti árið 2018.
  • Vöruútflutningur sækir í sig veðrið á spátímanum vegna frekari aukningar aflaheimilda í sjávarútvegi og útflutningi kísilafurða undir lok spátímans. Í heild gerum við ráð fyrir 0,8% aukningu vöruútflutnings á yfirstandandi ári og ríflega 3% aukningu á ári næstu tvö ár.Útlit er fyrir að innflutningur aukist hraðar en útflutningur í ár, enda fylgir innflutningsvöxtur jafnan vexti innlendrar eftirspurnar að verulegu leyti. Við gerum ráð fyrir að innflutningur aukist um 11,2% í ár. Næstu árin dregur svo úr aukningu innflutnings í takti við hægari vöxt innlendrar eftirspurnar. Áætlum við að innflutningur vaxi um 6,5% á næsta ári og um 3,2% árið 2018. Að jafnaði verður vöxtur innflutnings heldur hraðari en vöxtur útflutnings á seinni hluta spátímans.
  • Horfur eru á að áfram verði talsverður viðskiptaafgangur þrátt fyrir vaxandi eftirspurn og hækkun raungengis. Þessir þættir munu þó slá á viðskiptaafganginn eftir því sem líður á spátímann. Við gerum ráð fyrir að viðskiptajöfnuður verði hagstæður sem nemur 4,7% af VLF á yfirstandandi ári, 1,9% af VLF á næsta ári og 1,2% af VLF árið 2018.
  • Við gerum ráð fyrir að enn um sinn verði verðbólga undir markmiði Seðlabankans. Þar gerir gæfumuninn að við spáum frekari styrkingu krónunnar fram yfir mitt næsta ár. Á móti kemur að innlendur kostnaðarþrýstingur verður áfram verulegur og íbúðaverð hækkar áfram að raunvirði.
  • Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 1,8% á yfirstandandi ári. Árið 2017 spáum við 2,1% verðbólgu að meðaltali og árið 2018 gerum við ráð fyrir að verðbólga mælist að jafnaði 3,4%. Sá viðsnúningur sem við spáum í gengi krónunnar á seinni hluta spátímans, þar sem gengisveiking tekur við af styrkingu, leggst þá á eitt með innlendum þáttum að þrýsta verðbólgu upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans.
  • Fram að afléttingu hafta er líklegt að gengi krónunnar þróist með viðlíka hætti og það hefur gert undanfarið. Hægfara styrking og lítið flökt er því líkleg þróun næsta kastið. Við losun hafta er óvissan hins vegar meiri og ljóst að sterkir kraftar munu toga í gengi krónunnar bæði í átt til styrkingar og veikingar.
  • Við teljum líkur á því að raungengi krónunnar hækki á næstunni samhliða því að framleiðsluspenna eykst í hagkerfinu, líkt og spáð er fram á næsta ár. Er líklegt að þessi hækkun raungengisins komi a.m.k. að hluta til með hærra nafngengi krónunnar.
  • Að sama skapi er líklegt þegar aftur fer að hægja á hagvextinum og draga úr framleiðsluspennunni að raungengi krónunnar komi til með að lækka. Verður það eflaust, líkt og endranær, alfarið fyrir tilstilli lækkunar á nafngengi krónunnar.
  • Við teljum líklegt að nafngengi krónunnar muni styrkjast nokkuð fram á næsta ár en taka þá að lækka að nýju. Spáum við 6% hækkun gengis krónunnar yfir árið í ár, 4% yfir næsta ár og síðan 5% gengislækkun á árinu 2018.
  • Vegna lítillar verðbólgu í okkar spá haldast raunstýrivextir Seðlabankans háir áfram. Þannig verður umtalsvert aðhald í peningastjórnuninni á stærstum hluta spátímabilsins þrátt fyrir að ekki verði um frekari hækkun virkra nafnstýrivaxta að ræða. Meðal annars í ljósi þessa spáum við óbreyttum virkum stýrivöxtum bæði í ár og á næsta ári.
  • Undir lok spátímabilsins, þ.e. 2018, reiknum við með því að aukin verðbólga muni draga umtalsvert úr aðhaldsstigi peningamála. Mun peningastefnunefndin ekki bregðast við þessari auknu verðbólgu með öðrum hætti en með því að láta nafnstýrivexti bankans vera óbreytta á þessum tíma.

Skýrsla um Þjóðhagsspá 2016-2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall