Friðrik Sophusson, stjórnarformaður

Ávarp stjórnarformanns

Viðburðarríkt og farsælt ár er nú að baki hjá Íslandsbanka. Reksturinn hefur gengið vel og ýmsar umbætur og nýjungar í bankaþjónustunni hafa litið dagsins ljós. Á sama tíma hefur umhverfi bankans haldist áfram að þróast á jákvæðan hátt. Þar ber helst að nefna áframhaldandi styrkingu þjóðarbúsins, afnám fjármagnshafta og stöðugleika á erlendum mörkuðum sem hefur leitt til betri fjármögnunarkjara fyrir bankann. Undir lok árs var kosið til Alþingis og undir forystu nýrrar ríkisstjórnar voru ný fjárlög samþykkt sem heimila sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Vonandi verður unnið að því að gangsetja söluferlið sem fyrst með metnaðarfullum, gagnsæjum og fumlausum hætti.

Jafnvægi í íslensku efnahagslífi

Eftir öran hagvöxt á liðnum árum ber þróun landsframleiðslu það með sér að toppi hagsveiflunnar sé náð á Íslandi. Hagvöxtur á árinu 2017 var 4,1% sem er ríflega helmingur hagvaxtar ársins á undan. Innflutningur hefur undanfarið vaxið mun hraðar en útflutningur og er þáttur einkaneyslu í hagvexti þyngri en áður.

Vöxtur í ferðaþjónustu frá upphafi þessa áratugar á tvímælalaust stærstan þátt í mikilli aukningu útflutningstekna og myndarlegum afgangi af utanríkisviðskiptum síðustu ára. Efnahagslífið á Íslandi hefur blómstrað á undanförnum árum, atvinnuleysi verið lítið og verðbólga í samræmi við markmið Seðlabankans. Þrátt fyrir að spár geri ráð fyrir hóflegri hagvexti á næstu árum, þegar hægir á fjölgun ferðamanna og dregur úr vexti einkaneyslu og fjárfestingum, eru taldar góðar líkur á að hagkerfið muni ná ágætu jafnvægi eftir vaxtarskeiðið. Skiptir þá máli að við nýtum þá fjárfestingu sem þegar hefur átt sér stað við uppbyggingu atvinnulífsins. Einnig gefur hægari vöxtur einkageirans færi fyrir hið opinbera á að bæta í uppbyggingu innviða án þess að stöðugleika sé ógnað. Stoðir hagkerfisins hafa styrkst þökk sé minnkandi skuldsetningu heimila, fyrirtækja og hins opinbera frá upphafi áratugarins. Þá eru erlendar eignir þjóðarbúsins nú orðnar meiri en sem nemur skuldum þess. Sú þróun mun skila landsmönnum meiri hagsæld en ella þegar fram í sækir.

Fjölmörg tækifæri eru til sóknar í undirstöðuatvinnugreinum landsins. Íslandsbanki hefur þjónað sjávarútvegi alveg frá því fyrirrennari bankans var stofnaður árið 1875 og hófst togaraútgerð stuttu síðar og tengdist beint stofnun bankans. Þjónusta við sjávarútveginn er því mikilvægur hluti af sögu bankans og það er ánægjulegt að sjá hvernig íslensk fyrirtæki vinna að því að auka útflutningsverðmæti í þessari mikilvægu atvinnugrein. Íslandsbanki mun áfram leitast við að halda öflugum tengslum við sjávarútveginn líkt og við aðrar atvinnugreinar sem hann vinnur með, en sérstök áhersla hefur verið lögð á að styðja nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Batnandi staða ríkissjóðs

Lánshæfismat Íslandsbanka var hækkað á árinu af alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjunum S&P Global Ratings og Fitch Ratings en hið fyrrnefnda hækkaði bankann í BBB+/A-2 á meðan hið síðarnefnda hækkaði hann í BBB/F3. Hækkanirnar voru byggðar á batnandi rekstrarumhverfi íslenska bankakerfisins og í kjölfarið hafa lánskjör bankans á erlendum mörkuðum orðið hagstæðari. Lánshæfismat íslenska ríkisins var einnig hækkað af S&P og Fitch og er sú hækkun tilkomin vegna batnandi stöðu þjóðarbúsins og skuldalækkunar hins opinbera. Það er mjög ánægjuleg þróun þar sem góður árangur hefur náðst við að lækka skuldir ríkisins. Skuldir ríkisins námu 1.500 milljörðum króna á árinu 2012 en hafa lækkað um nærri 600 milljarða króna á síðustu fimm árum. Útlit er fyrir frekari lækkun þeirra á komandi árum ef nýjustu áætlanir ganga eftir. Þessi þróun lækkar vaxtakostnað sem er þó enn allt of hár og vegur þungt í útgjöldum ríkissjóðs.

Sérstakir bankaskattar veikja samkeppnisstöðuna

Sanngjörn skattlagning er grunnforsenda þess að fyrirtæki dafni vel. Það er sanngjarnt og eðlilegt að allir greiði sína skatta en við höfum reglulega vakið athygli á því að skattar og gjöld á íslenskar fjármálastofnanir eru með því hæsta sem þekkist á heimsvísu. Ef við berum okkur saman við nágrannalönd er skattbyrði fjármálastofnana hér fjórfalt þyngri en hjá nágrönnum okkar.
Á árinu 2017 greiddi bankinn 9,5 milljarða króna í skatta og þar af nam sérstakur bankaskattur 4,5 milljörðum króna. Fjársýsluskattur er lagður ofan á launakostnað íslenskra banka og sérstakur skattur er lagður á hagnað umfram 1 milljarð króna. Ofan á þetta leggst bankaskatturinn sem er núna rétt undir 0,4% af heildarskuldum banka umfram 50 milljarða króna. Þessi upptalning er viðbót við hefðbundinn tekjuskatt, launaskatt og aðra almenna skatta.

Það veldur vonbrigðum að stjórnvöld skulu ekki þegar hafa afnumið bankaskattinn eins og lagt var upp með þegar hann var tímabundið settur í lög. Á árinu 2018 er gert ráð fyrir að bankaskattur skili 9,2 milljörðum króna í tekjur til ríkisins. Þetta veikir samkeppnisstöðu íslenskra banka sem er bagalegt nú þegar samkeppni hefur aldrei verið meiri frá íslenskum sem erlendum fjártæknifyrirtækjum og skattlausum aðilum er stunda skuggabankastarfsemi.

Það er von okkar að stjórnvöld átti sig á þeim miklu hagsmunum sem eru í húfi fyrir ríkið sem eiganda Íslandsbanka þegar kemur að sölu hans. Bankaskattur dregur úr arðsemi bankans, lækkar verðmæti hans og vekur síður áhuga skynsamra og eftirsóknarverðra langtímafjárfesta.

Hagstæðari fjármagnsskipan

Hagstæðari fjármagnsskipan
Eiginfjárstaða íslensku bankanna hefur verið tíðrædd og eru hugmyndir uppi um að lækka eigið fé þeirra. Eiginfjárstaða Íslandsbanka er vissulega góð og vel hefur tekist til við að byggja bankann upp með heilbrigðu lánasafni. Á árinu 2017 gaf bankinn út, fyrstur íslenskra fjármálastofnana frá árinu 2008, víkjandi skuldabréf á erlendum markaði og var þar með stigið stórt skref í átt að hagstæðari fjármagnsskipan hans. Það eru því tækifæri til staðar til að lækka eigið fé bankans en gæta þarf varkárni til að veikja ekki efnahag bankans. Íslandsbanki greiddi á síðasta ári út 10 milljarða króna í arð en árið 2016 greiddi bankinn 37 milljarða króna í arð til eiganda.

Góðir stjórnarhættir og jafnréttismál

Íslandsbanki hefur fengið viðurkenningu sem „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“ fjögur ár í röð en stjórnendur fylgja regluverki sem tryggir að bankanum sé stjórnað með ábyrgum hætti. Það er því hvatning að fá þessa viðurkenningu til að halda áfram á þeirri vegferð.

Jafnréttismál voru ofarlega á baugi í bankanum á árinu líkt og í samfélaginu öllu. Fjölbreytileiki starfsfólks er algjör forsenda fyrir öflugum fyrirtækjarekstri og það er enginn vafi á því að jafnari kynjahlutföll eru öllum til bóta.

Íslandsbanki hefur um árabil verið framarlega í jafnréttismálum hér á landi. Bankinn hefur meðal annars hlotið Hvatningarverðlaun jafnréttismála og er með gullmerki jafnlaunaúttektar PwC. Jafnrétti er hjartans mál stjórnenda og endurspeglast það í menningu fyrirtækisins en jafnrétti er eitt af lykilverkefnum samfélagsábyrgðar bankans.

Ég vil að lokum þakka starfsfólki Íslandsbanka fyrir samstarfið á árinu 2017 sem var tímabil uppbyggingar en það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla krafti sem býr í öflugum mannauði bankans.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall