Fréttir Greiningar

Veruleg aukning kaupmáttar

19.12.2014 11:46

Kaupmáttur launa tók talsverðan kipp upp á við í nóvember sl., eða sem nemur um 0,7%, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Þessa myndarlegu hækkun má rekja til þess að vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,5% í mánuðinum, sem er mesta lækkun VNV í nóvembermánuði frá sjöunda áratug síðustu aldar. Launavísitalan hækkaði um 0,2% í nóvember frá fyrri mánuði, sem er í takti við þróunina í nóvember síðustu ár. 

Ein mesta hækkun á þessari öld

Tólf mánaða taktur launavísitölunnar nú í nóvember nemur 6,6%, en vísitölu neysluverðs 1,0%. Er tólf mánaða hækkunartaktur vísitölu kaupmáttar þar með 5,5% á tímabilinu, en  hann hefur aðeins einu sinni áður mælst hraðari á þessari öld, sem var í júní á hinu mikla neysluári 2007. 

Ofangreind þróun rímar ágætlega við tölur um kortaveltu sem benda til þess að vöxtur einkaneyslu verði allhraður nú á 4. ársfjórðungi, og jafnvel sá mesti í rúm þrjú ár. Samræmist þróun kaupmáttar jafnframt ágætlega spá okkar um einkaneyslu á árinu þar sem við gerum ráð fyrir nokkuð myndarlegum vexti, en í fyrra var vöxtur einkaneyslu nokkuð undir vexti kaupmáttar launa. Eins og við fjölluðum um í Morgunkorni okkar síðastliðinn mánudag þá spáum við nokkuð myndarlegum vexti í einkaneyslu í ár, eða sem nemur um 4,5%. Það er mun meiri vöxtur en mældist á fyrstu 9 mánuðum ársins skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þær tölur benda til þess að einkaneyslan hafi vaxið um 2,8% að raungildi á milli ára, en við teljum að vöxtur hennar sé í raun meiri á þessu tímabili, og að Hagstofan komi til með að endurskoða þessar tölur upp á við. 

Mun meiri hækkun á launum opinbera starfsmanna

Í síðustu viku birti Hagstofan launavísitölu fyrir 3. ársfjórðung þar sem m.a. má sjá þróun launa á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum. Mun meiri hækkun varð á launum opinbera starfsmanna á fjórðungnum en launum starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Þannig hækkaði launavísitala fyrir opinbera starfsmenn um 3,4% á milli 2. og 3. fjórðungs á sama tíma og launavísitalan fyrir starfsmenn á almennum vinnumarkaði hækkaði um 0,6%. Hvað fyrrnefnda hópinn varðar var mun meiri hækkun á launum hjá starfsmönnum sveitarfélaga en hjá ríkisstarfsmönnum, eða um 5% á móti 2%.

Á 2. árfjórðungi hafði launavísitalan hækkað um 5,8% hjá starfsmönnum á almennum vinnumarkaði frá sama tíma í fyrra, en um 4,6% hjá opinberum starfsmönnum. Nú á 3. ársfjórðungi er þessi hækkunartaktur kominn upp 7,6% hjá opinberum starfsmönnum en upp í 5,9% hjá starfsmönnum á almennum vinnumarkaði. Þar af hefur launavísitalan hækkað um 6,8% hjá ríkisstarfsmönnum en um 8,4% hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Hér gætir áhrifa kjarasamninga 

Í frétt Hagstofunnar segir að í  vísitölu launa á 3. ársfjórðungi gæti áhrifa kjarasamnings ríkis við háskóla- og framhaldsskólakennara annars vegar og sveitarfélaga við grunnskóla- og leikskólakennara hins vegar sem undirritaðir voru á fyrri hluta árs 2014. Þá gætir áhrifa kjarasamninga fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga við nokkur stéttarfélög opinberra starfsmanna sem undirritaðir voru á 2. ársfjórðungi 2014.

Líklegt til þess að hafa veruleg áhrif á næstu viðræður

Þessi munur sem þarna birtist í launaþróun á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera mun líklega hafa áhrif á kröfugerð margra aðildarfélaga ASÍ í næstu kjarasamningum. Nú þegar hafa ýmsir lykilmenn úr þeim herbúðum tjáð sig um þetta misræmi í fjölmiðlum. Viðræður um launalið hefjast nú í janúar og á að ljúka fyrir lok febrúar. Með hliðsjón af verðbólguþróun hafa allir launþegahópar fengið ríflega kaupmáttaraukningu sem hefur jákvæð áhrif á viðræður og verður efalítið bent á að hálfu Samtaka atvinnulífsins. Hins vegar er spurning hvort fulltrúar launþega í viðræðunum horfa fremur í samanburð við ábata annarra stétta en aukinn kaupmátt sinna umbjóðenda.


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall