Fréttir Greiningar

Viðráðanleg erlend staða þjóðarbúsins

03.12.2014 10:56

Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað jafnt og þétt á undanförnum misserum, og virðist nú vel innan viðráðanlegra marka. Fari svo að erlendir kröfuhafar slitabúa gömlu bankanna gefi eftir hluta innlendra eigna með einhverju móti gæti erlenda staðan að slitunum loknum verið hagfelldari en hún hefur verið síðustu áratugina.

Hrein erlend staða fer batnandi

Slitabú gömlu bankanna eru fyrirferðarmikil í  nýbirtum tölum Seðlabankans yfir erlenda stöðu þjóðarbúsins líkt og fyrri daginn, enda námu efnahagsreikningar þeirra margfaldri þjóðarframleiðslu við bankahrunið. Gagnslítið er hins vegar að horfa í tölur um erlenda stöðu að þeim meðtöldum, enda eru skuldir þeirra taldar á upprunalegu virði í bókum Seðlabankans en fyrir liggur að þær verða færðar niður að mestu leyti þegar til slita kemur. Seðlabankinn birtir því einnig mat á undirliggjandi erlendri stöðu þjóðarbúsins þ.e. stöðunni að gefnum áhrifum af slitum gömlu bankanna og annarra slitabúa.

Að fyrirtækjum í slitameðferð frátöldum var hrein erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 110 ma. kr. (6% af VLF) í septemberlok 2014. Seðlabankinn áætlar að reiknað uppgjör gömlu bankanna hafi neikvæð áhrif upp á 818 ma. kr. (42% af VLF) á hreina erlenda stöðu við útlönd. Önnur fyrirtæki í slitameðferð munu að mati Seðlabankans hafa jákvæð áhrif upp á 63 ma. kr. (3% af VLF) á stöðuna. Mat bankans er því að undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins sé neikvæð um 885 ma. kr., eða 46% af VLF. Má m.ö.o. segja sem svo að eftir leiðréttingar Seðlabankans á tölunum sé myndin sú að hrein skuld þjóðarbúsins við útlönd sé rétt innan við hálfa landsframleiðslu. Rétt er að taka fram að hér er ekki gert ráð fyrir neinum niðurfærslum á þeim eignum gömlu bankanna sem koma í hlut erlendra kröfuhafa, hvort sem er með niðurfærslum eða skattheimtu.

Hreina erlenda staðan hefur farið jafnt og þétt batnandi undanfarið. Á þriðja ársfjórðungi batnaði hún um 31 ma. kr., sem jafngildir 1,5% af VLF. Þar vóg 64 ma. kr. aukning gjaldeyrisforða þyngst, en á móti kom hækkun á bókfærðu virði innlendra eigna slitabúa. Má hér einnig nefna að í sérriti sem Seðlabankinn gaf út um undirliggjandi erlenda stöðu þjóðarbúsins í mars 2013 var þessi stærð metin neikvæð um 60% af VLF. Hefur staðan samkvæmt því batnað um 15% af VLF, eða sem nemur u.þ.b. 130 mö. kr., á tæpum tveimur árum. Hafa skal þó í huga að nokkur óvissa ríkir um þetta mat.

Staðan sú hagfelldasta í áratugi?

Óhætt er að segja að undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins virðist viðráðanleg miðað við ofangreindar tölur. Hún er t.d. langt innan við þau 60% af VLF sem oft er notað sem þumalputtaregla fyrir hámark þessa hlutfalls svo viðráðanlegt geti talist. Þá er eftir að taka tillit til þeirrar niðurfærslu á erlendum skuldum sem kann að felast í eftirgjöf einhvers hluta þeirra innlendu eigna slitabúa gömlu bankanna sem koma í hlut erlendra kröfuhafa.

Í þessu sambandi er rétt að halda til haga að mat Seðlabankans í síðasta Fjármálastöðugleika var að neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð við útlönd af slitum gömlu bankanna væru ríflega 500 ma. kr. Fyrir liggur að stjórnvöld munu ekki veita nauðasamningum gömlu bankanna brautargengi nema þeir verði hlutlausir gagnvart greiðslujöfnuði. Má því álykta að stjórnvöld miði áætlun um losun gjaldeyrishafta við það skilyrði, hver sem útfærsla hennar verður. Að því gefnu að þetta ójafnvægi verði vegið upp af niðurfærslu innlendra eigna í nauðasamningum, skattheimtu eða öðrum leiðum verður hrein erlend staða við útlönd eftir slit gömlu bankanna í námunda við -20% af VLF. Hlýtur það að teljast nokkuð hagfelld erlend staða í sögulegu ljósi. Má t.d. nefna að um síðustu aldamót var þetta hlutfall -42% af VLF.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall