Fréttir Greiningar

Vísbendingar um vöxt íbúðafjárfestingar á seinni helmingi ársins

23.11.2016 11:02

Myndarlegur vöxtur í íbúðafjárfestingu undanfarið hefur endurspeglast í stórauknum innflutningi og sölu á byggingarefni. Benda nýjustu tölur til þess að vöxtur íbúðafjárfestingar muni reynast verulegur á seinni helmingi yfirstandandi árs.

Hagstofa Íslands tekur saman tölur um innflutning ýmissa vörutegunda, þar á meðal byggingarefnis. Þá gefur Hagstofan einnig mánaðarlega út yfirlit yfir efnahagslegar skammtímatölur, þar sem m.a. er birt magnvísitala fyrir sementssölu. Söguleg athugun leiðir í ljós að þeir innflutningsliðir sem einkum haldast í hendur við þróun íbúðafjárfestingar eru innflutt steypustyrktarjárn og innfluttir miðstöðvarofnar. Þá er einnig talsverð fylgni til lengri tíma litið milli sementssölu og íbúðafjárfestingar. Á alla framangreinda mælikvarða varð verulegur samdráttur undir lok síðasta áratugar, og allir hafa þeir að jafnaði sýnt talsverðan vöxt undanfarið þótt árið 2015 skeri sig nokkuð úr en þá varð lítilsháttar samdráttur í íbúðafjárfestingunni.

Sveiflur í innflutningi byggingarefnis

Á fyrri hluta þessa árs var verulegur vöxtur í jafnt innflutningi á ofangreindu byggingarefni, sölu sements sem og íbúðafjárfestingunni. Jókst innflutningur á steypustyrktarjárni um nær 61% milli ára, sementssalan um 22%, innflutningur miðstöðvarofna um 12% og fjárfesting í íbúðarhúsnæði um ríflega 17%. 

Nýjustu tölur fyrir fyrri hagvísana þrjá sýna raunar samdrátt milli ára í innflutningi steypustyrktarjárns (-19%) og miðstöðvarofna (-45%) á 3. ársfjórðungi, en hins vegar tæplega 19% vöxt í sementssölu á sama tímabili. Þar ber hins vegar að hafa í huga að verulegar sveiflur geta verið í innflutningi byggingarefnis milli fjórðunga, og horft til fyrstu níu mánaða ársins hefur innflutningur steypustyrktarjárns t.d. aukist um 27% frá sama tímabili í fyrra en innflutningur miðstöðvarofna dregist saman um tæp 8%. Meiri samtímafylgni er svo eðli málsins samkvæmt milli sementssölu og fjárfestingar í byggingum, þar á meðal íbúðarhúsnæðis.

Íbúðafjárfesting í takti við spá okkar

Vöxtur innflutnings á steypustyrktarjárni og sölu sements undanfarið gefur til kynna að vöxtur íbúðafjárfestingar, sem og annarrar fjárfestingar í steypu, muni mælast myndarlegur í bráðabirgðatölum fyrir 3. ársfjórðung sem Hagstofan birtir þann 7. desember næstkomandi. Í þjóðhagsspá okkar í september síðastliðnum spáðum við tæplega 18% vexti íbúðafjárfestingar í ár. Nýjustu tölur benda til þess að sú spá verði líklega nokkuð nærri lagi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall