Fréttir Greiningar

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkar milli mánaða

18.09.2013 11:35

nullÍbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,1% í ágúst frá fyrri mánuði samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Er þetta fyrsti lækkunarmánuðurinn síðan í janúar sl. en þess má geta að húsnæðisverð lækkaði líka í ágúst í fyrra, þá um 0,3%.

Talsvert flökt getur verið í verðmælingum á íbúðaverði á milli mánaða og til að fá betri sýn á hvert markaðurinn er að fara er hyggilegt að skoða þróunina yfir lengra tímabil en einn mánuð. Síðustu þrjá mánuði hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu þannig hækkað um 2,3%, um 4,4% yfir síðustu sex mánuði og um 6,8% ef litið sé til síðustu tólf mánaða. 

Fylgir kaupmáttarþróuninni

Hefur tólf mánaða hækkunin íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu verið sviðuð undanfarna mánuði eftir að úr hækkunartaktinum dró í upphafi árs. Var tólf mánaða hækkunartakturinn þannig kominn í 4,6% í mars sl. Fylgir íbúðaverðþróunin þarna því sem má sjá í veltutölum markaðarins. Velta síðustu þriggja mánaða er 23,6% meiri en á sama tímabili í fyrra, en sá vöxtur fór niður í 16,8% rétt fyrir mitt ár. Er þetta sama þróun og mátti greina í öðru er tengist útgjaldaþróun heimilanna á tímabilinu, en það hægði t.d. á vexti einkaneyslu á þessum tíma. Að baki liggur að öllum líkindum hægari vöxtur kaupmáttar ráðstöfunartekna.   

Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist nokkuð frá því að hann var lægstur eftir hrunið og er það ein af meginskýringum þess að húsnæðisverð hefur hækkað á tímabilinu. Nemur hækkun á kaupmætti launa yfir síðustu tólf mánuði 1,6%, og frá því að kaupmáttur launa stóð lægstur eftir hrunið hefur hann hækkað um 9,5%, sem er svipað og raunverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hefur gert á tímabilinu. Við þetta bætist að atvinnuástand hefur batnað. Hefur bæði dregið úr atvinnuleysi og heildarvinnuaflsnotkun aukist með m.a. fjölgun starfa og hefur það haft sitt að segja við að auka ráðstöfunartekjur heimilanna.

Svipuð þróun og á landinu öllu

nullÍbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu er nú 21,4% hærra en það var þegar það stóð lægst eftir hrunið, þ.e. í upphafi árs 2011. Að raunvirði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 6,8% á tímabilinu. Er þetta samskonar þróun og hefur verið á landinu öllu á tímabilinu.  Er raunverð íbúða nú svipað því að og það var haustið 2004, þ.e. þegar bankarnir hófu lánveitingar til íbúðakaupa. Raunverð íbúða er hins vegar enn tæplega 29% lægra en það var þegar það stóð hvað hæst í aðdraganda hrunsins.
 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall