Fréttir Greiningar

Spáum 0,2% lækkun neysluverðs í júlí

14.07.2014 08:14

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% í júlí. Gangi spá okkar eftir eykst verðbólga lítillega, eða úr 2,2% í 2,3%.
 
Verðbólguhorfur eru ágætar það sem eftir lifir árs. Líkt og áður gerum við ráð fyrir að verðbólgan muni aukast á næsta ári samhliða auknum umsvifum í hagkerfinu. Þó teljum við að verðbólga verði mun minni næstu ár en hún hefur að jafnaði verið undanfarin ár. Hagstofan birtir VNV fyrir júlí kl. 09:00 þann 23. júlí næstkomandi.

Sumarútsölur í algleymingi, en margt að hækka

Útsöluáhrif vega þungt í lækkun VNV í júlí, enda sumarútsölur í algleymingi. Gerum við ráð fyrir svipuðum útsöluáhrifum og síðustu ár, en þar af vegur verðlækkun á fötum og skóm til 0,5% lækkunar VNV í mánuðinum.
 
Á hinn bóginn bendir margt til þess að ýmsir liðir VNV muni hækka nokkuð í júlí. Stærsti einstaki áhrifavaldurinn til hækkunar á VNV er ferða- og flutningaliðurinn (0,10 % í VNV). Þá hækkun má fyrst og fremst rekja til hækkunar eldsneytisverðs (0,06% í VNV) og flugfargjalda (0,05% í VNV) frá síðustu mælingu Hagstofunnar. Jafnframt gerum við ráð fyrir dágóðri hækkun á húsnæðislið VNV (0,09% í VNV) þar sem gjaldskráhækkun Orkuveitur Reykjavíkur á rafmagni og hita vegur hvað þyngst (0,04% í VNV). Greining okkar á gögnum af íbúðamarkaði bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu markaðsverð húsnæðis, hafi hækkað um 0,2% á milli júní og júlí (0,03% í VNV). Samkvæmt verðmælingu okkar mælist hækkun á íbúðaverði í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu, en aftur á móti lækkun á íbúðaverði á landsbyggðinni og á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu.

Talsverðar verðbreytingar komu til framkvæmda hjá fjarskiptafyrirtækjum nú í júlíbyrjun, og teljum við að símaþjónusta vegi til 0,05% hækkunar VNV. Loks gerum við ráð fyrir nokkuri verðhækkun á þjónustu hótela og veitingastaða, sem að okkar mati mun vega til 0,04% hækkunar VNV. Aðrir liðir vega mun minna að okkar mati.

Verðbólga svipuð út árið

Næstu tveir mánuðir munu einkennast af áhrifum útsöluloka, auk þess sem árstíðabundinna hækkana á ýmsum þjónustuliðum kann að gæta. Verðlækkun vegna sumarútsala er vitaskuld skammgóður vermir og koma útsöluáhrifin að fullu til baka á þessum tíma. Þá er jafnan nokkur verðhækkun á þjónustuliðum sem tengjast menningu, afþreytingu og íþróttaiðkun á haustin  þegar slík starfsemi hefur nýtt starfsár.
 
Við spáum 0,4% hækkun VNV bæði í ágúst og september, en svo 0,1% hækkun í október. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga mælast 2,4% í ágúst og september en 2,5% í október. Við gerum í kjölfarið ráð fyrir að verðbólga hjaðni aðeins og mælist 2,2% í árslok.

Á næsta ári teljum við að verðbólga aukist heldur. Framleiðsluspenna myndast væntanlega í hagkerfinu, og endurspeglast það í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkun fasteignaverðs. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 3,0% á árinu 2015 og 3,1% hækkun árið 2016. Langtímaspá okkar byggir á þeim forsendum að íbúðaverð hækki um 5% – 7% á ári hverju út spátímann, laun taki að hækka hraðar frá og með næsta ári samhliða því að framleiðsluspennan eykst í efnahagslífinu, og að gengi krónu haldist óbreytt í námunda við núverandi gildi.

Verðbólguspá fyrir júlí



Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall