Fréttir Greiningar

Útboð hjá Lánamálum á föstudag

18.09.2013 11:13

nullÁ föstudag kl. 11:00 fer fram útboð á ríkisbréfaflokknum RIKB22 hjá Lánamálum ríkisins. Þetta er í takti við útgáfuáætlun Lánamála fyrir yfirstandandi ársfjórðung, þar sem áætlað er að gefa út bréf í flokknum fyrir allt að 15,0 ma.kr. á fjórðungnum. Að vanda eru útboðsskilmálarnir með hefðbundnum hætti þannig að lægsta samþykkta verð (hæsta ávöxtunarkrafa) ræður söluverði útboðsins.

Þetta er fimmta og síðasta útboð Lánamála á þriðja ársfjórðungi. Flokkurinn RIKB22 hefur einu sinni verið í boði á fjórðungnum, sem var þann 19. júlí sl. Í því útboði voru seld bréf í flokknum fyrir 3.760 m.kr. að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 6,34%. Þar að auki nýttu aðalmiðlarar sé kauprétt í útboðinu fyrir 361 m.kr., og nam því selt magn í flokknum 4.121 m.kr. að nafnvirði. Er flokkurinn nú um 51,7 ma.kr. að stærð.

Kröfuhækkun á markaði

nullSamkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála var það dreifður hópur innlendra fjárfesta sem keypti bréf í útboðinu á RIKB22 í júlí. Ætla má að verðbréfa- og fjárfestingasjóðir hafi þar verið fyrirferðarmestir þar sem eign þeirra í RIKB22 jókst mest af einstökum fjárfestahópum. Í lok ágúst síðastliðnum áttu þeir 22% útistandandi bréfa í RIKB22, og eru þeir næststærsti eigendahópur þessa flokks á eftir lífeyrissjóðum sem eiga rúmlega helming bréfanna.

Krafan á RIKB22 er nokkuð hærri nú en hún var í aðdraganda útboðsins í júlí. Það er í takti við þróunina á skuldabréfamarkaði sem lýsir sér í talsverðri kröfuhækkun á óverðtryggða hluta markaðarins. Stendur krafa RIKB22 nú þegar þetta er ritað (kl. 10:00) í 6,59% en hún hafði verið 6,34% fyrir útboðið í júlí.

Aukin útgáfa og nýr flokkur?

nullLánamál áætla að gefa út bréf fyrir 15-29 ma.kr. að söluvirði á þriðja ársfjórðungi. Það sem af er fjórðungnum hafa verið gefin út ríkisbréf fyrir 22 ma.kr. Stendur því eftir um 7 ma.kr. ríkisbréfaútgáfa til septemberloka miðað við efri mörk útgáfuáætlunar, og raunar er sama upphæð eftir af útgáfu til áramóta samkvæmt ársáætlun.

Við eigum von á að útgáfuáætlun ársins verði endurskoðuð í septemberlok til meiri útgáfu ríkisbréfa, en á móti verði þau 40 ma.kr. mörk sem áætlað er að útistandandi víxlar verði um næstu áramót lækkuð. Teljum við líklegt að aukning ríkisbréfaútgáfu geti numið 10-20 mö.kr., og að útgáfa á 4. ársfjórðungi verði í takti við það. Jafnframt teljum við góðar líkur á að Lánamál hefji útgáfu á nýjum flokki ríkisbréfa fyrir áramót. Í ársáætlun Lánamála kom fram að fyrirhugað var að gefa út nýjan flokk ríkisbréfa með gjalddaga árið 2020 á árinu, sem á næstu árum yrði byggður upp sem 5 ára markflokkur og síðar sem 2ja ára markflokkur. Sá flokkur hefur hins vegar ekki enn litið dagsins ljós, en gæti skotið upp kollinum á síðasta fjórðungi ársins.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall