Fréttir Greiningar

Í 25. sæti yfir samkeppnishæfustu ferðamannastaði heims

12.04.2017 07:45

Ísland er í 25. sæti af 136 löndum í ár yfir samkeppnishæfustu lönd heims m.t.t. ferðaþjónustu. Eru þetta niðurstöður World Economic Forum (WEF) í skýrslu sem birt var fyrr í þessum mánuði. Lækkar landið um 7 sæti á listanum frá 2015 þegar stofnunin birti síðast niðurstöður viðlíka könnunar. Líkt og á árinu 2015 eru Spánn, Frakkland og Þýskaland í þrem efstu sætum listans. 

 

Margir styrkleikar

Styrkleikar landsins hvað ferðamannaþjónustu varðar eru t.d. mannauður og vinnumarkaðurinn, hvað landið er opið og vel tengt flugumferð. Er landið t.d. í öðru sæti listans yfir fjölda brottfara flugvéla í hlutfalli af íbúafjölda. Einnig eru öryggi og hreinlæti meðal kosta landsins og er Ísland í þriðja sæti hvað öryggi varðar. Innviðir ferðaþjónustunnar eru góðir og landið lendir þar í 13. sæti en t.d. er landið í 2. sæti varðandi fjölda hótelherbergja á íbúa. Það kemur ekki á óvart að náttúran sé styrkleiki landsins sem ferðamannastaðar en þar lendir landið í 4. sæti. Einnig er landið í fjórða sæti hvað varðar hversu virk markaðssetning hefur verið í því að fá ferðamenn til landsins. Á móti dregur skortur á menningarlegri afþreyingu nokkuð úr samkeppnishæfni landsins í ferðaþjónustu samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar. 

Ísland fimmta dýrasta landið

Hátt verðlag dregur úr samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar hér á landi en þar lendir landið í sæti 132. sæti sem er fimmta neðsta sætið. Einnig skýrir það að hluta af hverju landið er að lækka hvað samkeppnishæfni varðar frá 2015 en landið var í 128. sæti árið 2015. Af löndum sem eru fyrir neðan Ísland á listanum eru t.d. Bretland og Sviss. Er Ísland orðið dýrast norðurlandanna heim að sækja en á listanum 2015 voru bæði Noregur og Danmörk dýrari en Ísland. 

Vanþróuð ríki eru efst á þessum lista yfir verðlag og þau þróaðri raða sér neðar. Er það í raun eðlilegt og þannig kostur fyrir íbúa landsins að vera ekki ofar á listanum. Þannig eru þau samkeppnishæfustu hvað verðlag varðar t.d. Íran, Egyptaland, Malasía, Alsír og Indónesía. Landsframleiðsla á mann var t.d. tæplega 5 sinnum hærri hér á landi en í Egyptalandi á árinu 2015 leiðrétt fyrir ólíkum kaupmætti í löndunum tveim.

Dregur úr vexti í fjölda ferðamanna

Heildarfjöldi erlendra ferðamanna hér á landi var tæplega 1,3 milljónir árið 2015, 1,8 milljón í fyrra og stefnir í að vera samkvæmt okkar spá um 2,3 milljónir í ár.  Vöxturinn var 40% í fyrra en við reiknum með að það dragi úr honum í ár og að hann verði engu að síður 30%. Vöxturinn er því enn hraður enda samkeppnishæfni landsins m.t.t. ferðaþjónustu sterk þrátt fyrir að hún sé að versna samkvæmt ofangreindum niðurstöðum könnunar WEF. 

Hins vegar verður að hafa í huga að hluti skýringar þess að landið færist niður listann er að landið er dýrara heim að sækja nú en það var 2015. Ástæðan er m.a. gengishækkun krónunnar og miklar innlendar launahækkanir. Sú þróun ætti, að öðru óbreyttu, að draga úr vexti ferðaþjónustunnar og munu þau áhrif koma fram með töf líkt og fjallað er m.a. um í nýlegri skýrslu okkar um ferðaþjónustuna

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall