Fréttir Greiningar

Enn hjaðnar verðbólgan

26.08.2016 11:36

Verðbólga hjaðnaði þriðja mánuðinn í röð í ágúst, og er nú komin undir neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,34% í ágúst. Verðbólga undanfarinna 12 mánaða mælist nú 0,9%, en var 1,1% í júlí síðastliðnum. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,13% í ágúst og m.v. þá vísitölu mælist 0,9% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Hækkunin í ágúst var umfram spár, sem lágu á bilinu 0,1% til 0,2% hækkun. Þar spáðum við 0,2% hækkun, og liggur munurinn á spá okkar og niðurstöðunni að stærstum hluta í húsnæðislið hennar.

Útsölulok og húsnæðisliður helstu hækkunarvaldar

Áhrif útsöluloka eru ávallt veruleg í vísitölumælingu ágústmánaðar og svo var einnig að þessu sinni. Raunar voru áhrifin sterkari en við áttum von á, og gætu áhrif útsöluloka orðið að sama skapi minni í september. Mestu áhrifin komu fram í fata- og skólið VNV, sem hækkaði um 6,6% (0,25% áhrif í VNV). Þá hækkaði húsgagnaliður VNV verulega umfram það sem við reiknuðum með, eða um 5,2% (0,07% í VNV). Þessi mikla hækkun kemur okkur mjög á óvart þar sem engra útsöluáhrifa varð vart í júlí og gengisþróun krónu ætti að öðru óbreyttu að leiða til verðlækkunar á húsgögnum. Þessi hækkun gæti þó reynst skammvinn.  

Húsnæðisliður VNV vó einnig talsvert til hækkunar hennar nú. Liðurinn hækkaði í heild um tæplega 1,0% (0,28% í VNV). Þar vó langþyngst að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs,  hækkaði um 1,5% (0,23% í VNV). Svo mikið hefur þessi liður ekki hækkað síðan í mars 2015, og hefur hófleg hækkun hans síðustu mánuði reyndar verið nokkuð á skjön við vísbendingar af markaði um allsnarpa hækkun. Þá hækkaði matur og drykkur í verði um 0,4% (0,06% í VNV), og verð á þjónustu hótela og veitingahúsa hækkaði um tæp 0,6% (0,03% í VNV). Loks hækkuðu hreinlætis- og snyrtivörur um 5,7% (0,05% í VNV) eftir snarpa lækkun í júlí, að mestu vegna 8,7% hækkunar á tannkremi, sjampói og snyrtivörum.

Faraldsfóturinn léttari í buddunni

Á móti ofangreindum liðum vógu hins vegar margir liðir til lækkunar VNV í ágústmánuði. Sér í lagi lækkuðu ýmsir liðir tengdir ferðum og flutningum myndarlega, enda lækkaði sá yfirliður um 2,3% (-0,37% í VNV) að þessu sinni. Hér má nefna að eldsneytisverð lækkaði um 4,1% (-0,15% í VNV), bifreiðar lækkuðu í verði um 2,1% (-0,13% í VNV) og flugfargjöld lækkuðu um 4,9% (-0,08% í VNV). Þá lækkaði verð á póst-, síma- og netþjónustu um 2,6% (-0,07% í VNV), en sá liður hefur nú lækkað linnulaust í heilt ár og nemur lækkun hans í heild 18,2% á því tímabili.

Áfram lítil verðbólga næsta kastið

Horfur eru á litlum breytingum á VNV næsta kastið, enda gætir víða áhrifa af verulegri styrkingu krónu undanfarið. Við teljum til dæmis að verð á húsbúnaði, raftækjum og fatnaði verði almennt lægra í haust en var fyrr á árinu, og bifreiðaverð fer nú einnig lækkandi svo nokkuð sé nefnt. Nefna má hér að IKEA tilkynnti nýlega um ríflega 3% meðallækkun á húsbúnaði sem tekur gildi í september, og þeim bílaumboðum fjölgar stöðugt þessa dagana sem uppfæra verðlista sína til lækkunar. Raunar gæti bráðabirgðaspá okkar fyrir september reynst of há, þar sem von er á meiri lækkun í nokkrum liðum eftir niðurstöðuna í dag en við gerðum ráð fyrir  í spánni.

Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir óbreyttri VNV í september, 0,1% hækkun í október en 0,1% lækkun í nóvember. Miðað við þá spá mun verðbólga mælast 1,6% í nóvember næstkomandi. Í kjölfarið mun verðbólga svo aukast jafnt og þétt, en hún gæti þó legið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans alllengi enn. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall