Fréttir Greiningar

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í október

16.10.2013 13:01

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% í október frá mánuðinum á undan. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga standa í stað í 3,9%. Verðbólguhorfur virðast almennt hafa batnað lítillega undanfarið, en sem fyrr eru stórir óvissuþættir um þróunina þegar frá líður. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir október kl.9:00 þann 25. október næstkomandi.

Minni hækkun í október en vænst var

Spá okkar fyrir októbermánuð er 0,2 prósentum lægri en fyrri bráðabirgðaspá. Breytingin skrifast á þrjá liði sem allir vega nokkuð þungt og virðast vera að þróast með öðrum hætti en við bjuggumst við. Þar má fyrst nefna að athugun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð á íbúðarhúsnæði, muni standa í stað eða jafnvel lækka lítillega í októbermælingu VNV, en við höfðum áður gert ráð fyrir nokkurri hækkun. Þá hefur eldsneytisverð lækkað um 1,5% (-0,09% í VNV) frá septembermælingu vísitölunnar. Í þriðja lagi gerðum við ráð fyrir verulegri hækkun flugfargjalda til útlanda í bráðabirgðaspá, en könnun okkar bendir til þess að það verði ekki raunin.

Matur og drykkur er sá liður sem mest vegur til hækkunar (0,11% í VNV) í spá okkar. Að verulegu leyti skrifast það á ríflega 3% hækkun á mjólk og mjólkurvörum sem tók gildi um síðustu mánaðamót. Auk þess er útlit fyrir hækkun á kjöti, fiski og ávöxtum. Þá teljum við að tómstundir og menning muni vega til 0,06% hækkunar VNV, og er þar að mestu um árstíðabundin áhrif að ræða. Verðhækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði vegur  svo til 0,04% hækkunar VNV í spá okkar. Aðrir þættir hafa minni áhrif.

Útlitið ögn skárra fyrir komandi misseri

nullÚtlitið fyrir verðbólguþróun komandi mánaða og fjórðunga hefur heldur skánað frá síðustu spá. Við gerum ráð fyrir 0,2% hækkun í nóvember og 0,3% hækkun í desembermánuði. Nóvemberspáin er tíðindalítil, líkt og oft er í þessum mánuði, en í desember má nefna flugfargjöld (0,12% í VNV), matvöru (0,06%) og húsnæðislið (0,06%) á meðal helstu hækkunarvalda. Í báðum mánuðunum mun gengislækkun krónu hafa einhver áhrif, en þó ber að hafa í huga að gengislækkunin er mun hægari það sem af er hausti en raunin var í fyrra, og teljum við líklegast að svo verði áfram.

Alls hækkar VNV um 0,8% á síðasta fjórðungi ársins í spá okkar. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 4,1% í árslok. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að verðbólga hjaðni lítillega og mælist að jafnaði 3,7% á árinu 2014. Forsendur fyrir þeirri spá eru að laun hækki áfram í svipuðum takti og verið hefur undanfarið, krónan veikist lítillega að jafnaði en fylgi sólarganginum nokkuð hvað styrk varðar, og að íbúðaverð hækki að raungildi um u.þ.b. 1,7% að jafnaði á næsta ári. Talsverð óvissa er innbyggð í spána, enda óljóst á hvaða nótum kjarasamningar verða afgreiddir og þróun krónu mikilli óvissu háð eins og fyrri daginn.

Verðbólguspá fyrir október

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall