Fréttir Greiningar

Verðbólga komin undir verðbólgumarkmið

27.02.2014 11:45

nullHækkun vísitölu neysluverðs (VNV) nú í febrúar er sú langminnsta í febrúarmánuði í fimm ár. Verðbólga hjaðnar því umtalsvert, mælist nú 2,1% og hefur ekki mælst minni síðan í febrúar árið 2011. Fara þarf mun lengra aftur í tímann til þess að finna minni verðbólgu sé húsnæði undanskilið í vísitölunni, en á þann kvarða mælist verðbólga 0,8% og hefur ekki verið minni síðan í ágúst árið 2007.Verðbólgumarkmið Seðlabankans er þar með í höfn, og er útlit fyrir að verðbólga haldist við markmiðið út árið. Gangi spá okkar eftir má Seðlabankinn vel við una, enda hefur verðbólgumarkmiðið ekki náðst í jafn langan tíma undanfarinn áratug. 

Hækkun vísitölunnar var aðeins minni í febrúar en við áttum von á. Skýrist munurinn fyrst og fremst af lækkun markaðsverðs á íbúðarhúsnæði og verðlækkun matvara, en við gerðum ráð fyrir lítilsháttar hækkun beggja liða. Opinberar spár hljóðuðu ýmist upp á 0,7% eða 0,8% hækkun VNV, og spáðum við 0,8% hækkun.

Mun minni áhrif útsöluloka

nullLíkt og jafnan í febrúar höfðu útsölulok talsverð hækkunaráhrif á VNV. Alls vógu útsölulok til 0,42% hækkunar. Þar af hækkaði verð á fötum og skóm um 7,1% og húsgögnum og heimilisbúnaði um 2,2%. Áhrif útsöluloka nú voru hins vegar mun vægari en í fyrra og í raun hafa þau ekki verið vægari í fimm ár. Er skýringin væntanlega styrking krónu undanfarna mánuði.

Að útsölulokum slepptum var hækkun VNV að miklu leyti til komin vegna hækkunar á ferða- og flutningalið vísitölunnar (0,22% í VNV). Þar vóg þyngst 11% hækkun á flugfargjöldum til útlanda (0,14% í VNV) og 1,6% hækkun eldsneytisverðs (0,09% í VNV). Bifreiðaverð lækkaði hins vegar lítillega, annan mánuðinn í röð.

Íbúðaverð lækkar en vegur þó þungt í ársverðbólgu

Reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð íbúðarhúsnæðis, lækkaði um 0,2% á milli janúar og febrúar. Skýrist það af 2,8% lækkun húnæðisverðs á landsbyggðinni, en talsverðar sveiflur hafa verið í þeirri mælingu undanfarið. Húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækkaði hins vegar í verði, þótt sú hækkun væri með minna móti miðað við undanfarna mánuði. Húsnæðisverð hefur nú hækkað um 9,1% yfir síðustu tólf mánuði og skýrir það um 1,3 prósentustig af þeirri 2,1% verðbólgu sem mælst hefur á tímabilinu, enda mælist verðbólga ekki nema 0,8% sé sá liður undanskilinn eins og áður segir.  Á heildina litið hækkaði hins vegar húsnæðisliður VNV um 0,05% að þessu sinni, sem að mestu leyti skýrist af tæplega 0,7% hækkun á greiddri húsaleigu.

Vertu á verði hjálpar til

Matur og drykkjarvörur lækkuðu í verði um 0,7% í febrúar (-0,11% í VNV) og hefur þessi liður ekki lækkað jafn mikið milli mánaða síðan í ágúst 2012. Greinilegt er að styrking krónu kemur nú nokkuð sterkt fram í matvöruverði, og hjálpar þar væntanlega til það átak sem farið var í við að fylgja því eftir að lækkun innflutningsverðs kæmi fram í verðlækkun innfluttrar dagvöru.

Óvenju góðar verðbólguhorfur út þetta ár

nullHorfur eru á að verðbólga haldist við verðbólgumarkmið Seðlabankans fram eftir ári. Við gerum ráð fyrir að VNV hækki um 0,3% í mars, önnur 0,3% í apríl og 0,2% í maí. Gangi sú bráðabirgðaspá eftir mun verðbólga mælast 2,6% í maímánuði. Horfur eru svo á svipaðri verðbólgu það sem eftir lifir árs, en óvissan eykst vitaskuld eftir því sem lengra líður á árið. Óhætt er að segja að verðbólguhorfur hafa batnað mikið undanfarið hálft ár, enda hljóðuðu ýmsar verðbólguspár í fyrrahaust upp á vaxandi verðbólgu í vetur. Þess í stað hefur verðbólga hjaðnað úr 4,3% í ágúst 2013 niður í 2,1% nú.

Má segja að nú sé dýrmætt tækifæri til þess að fylgja eftir hagstæðri verðbólguþróun vegna styrkingar krónu með því að freista þess að halda aftur af innlendum kostnaðarhækkunum. Þar hjálpa hóflegir kjarasamningar á hluta af almennum vinnumarkaði talsvert til, en miðað við verðbólguhorfur munu samningarnir væntanlega skila nokkurri hækkun raunlauna yfir þetta ár, sér í lagi hjá þeim sem eru á lægstu töxtunum og fengu ríflegustu prósentuhækkunina.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall