Fréttir Greiningar

Væntingar neytenda lækka

30.04.2014 12:15

nullTalsvert slær á væntingar íslenskra neytenda til efnahags- og atvinnulífsins nú í apríl frá fyrri mánuði samkvæmt Væntingavísitölu Gallup sem birt var í gærmorgun. Þannig lækkar VVG um rúm 12 stig í apríl frá fyrri mánuði, og mælist hún nú 82,7 stig. Kemur lækkunin á hæla talsverðrar hækkunar á vísitölunni undanfarna mánuði, og var hún komin upp í 94,8 stig í mars. Þessi hreyfing hennar nú í aprílmánuði kemur okkur nokkuð á óvart enda stingur hún í stúf við nýlega þróun annarra hagvísa er varða stöðu heimila.

Allar undirvísitölur lækka

Allar undirvísitölur VVG lækka á milli mælinga í mars og apríl. Mest lækkar mat neytenda á atvinnuástandi, um tæp 20 stig, og mælist sú vísitala nú 80,2 stig. Einnig er talsverð lækkun á væntingum neytenda til ástandsins eftir 6 mánuði, en sú undirvísitala lækkar um rúm 14 stig og mælist nú 107,2 stig. Þá er einnig nokkur lækkun á undirvísitölunum fyrir mat neytenda á núverandi ástandi (tæp 9 stig) og efnahagslífinu (tæp 6 stig), og mælist sú fyrrnefnda nú 46,1 stig en sú síðarnefnda 75,1 stig.

Mikil umskipti hjá tekjulágum

nullAthyglisvert er að líta á niðurstöður mælinga Gallup á væntingum neytenda eftir tekjuhópum. Almennt eru neytendur svartsýnni eftir því sem tekjur þeirra eru lægri, og á sama hátt eru meiri sveiflur í væntingum þeirra til efnahags- og atvinnuástandsins með lægri tekjum. Þessi þróun er vel sýnileg nú í apríl, og virðist sem svartsýnin hafi aukist all verulega hjá tekjulægsta hópnum. Þannig mældist undirvísitala fyrir svarendur með tekjur undir 250 þúsund krónum á mánuði 48,0 stig nú apríl samanborið við 93,4 stig í mars, og lækkar því vísitalan um rúm 45 stig á milli mánaða. Á sama tíma lækkar undirvísitala þeirra sem hafa tekjur yfir 550 þúsund krónum á mánuði um tæp 14 stig, og fer niður í 98,9 stig.
 

Stingur í stúf við aðra hagvísa

nullEins og áður segir kemur þróun VVG nú í apríl okkur talsvert á óvart þar sem flestir hagvísar er varða heimilin hafa frekar bent til þess að staðan hjá þeim hafi haldið áfram að batna. Má hér nefna að talsverð fylgni hefur oft verið á milli VVG og einkaneyslu sem virðist hafa verið að sækja verulega í sig veðrið nú að undanförnu. Þetta má t.a.m. ráða af tölum um kortaveltu einstaklinga, sem óx um 6,9% að raungildi á fyrsta fjórðungi í ár frá sama tímabili í fyrra. Einnig hefur nýskráningum bifreiða fjölgað um fjórðung á sama tímabili, en bifreiðakaup eru stór hluti þeirrar einkaneyslu sem ekki er greidd með greiðslukortum. Mikil fylgni hefur jafnframt oft á tíðum verið milli gengishreyfinga krónu og breytinga á VVG, en það samband átti ekki við að þessu sinni enda urðu litlar breytingar á gengi krónu í apríl, og styrktist hún raunar fremur en hitt.

nullAð auki er athyglisvert að sjá að vísitalan sem mælir mat neytenda á atvinnuástandinu lækkar mest, enda benda nýjustu tölur af vinnumarkaðnum til þess að staðan þar hafi haldið áfram að batna. Má t.d. sjá það í tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sem birtar voru í morgun fyrir mars. Þar kemur fram að atvinnuleysi leitar áfram hægt og rólega niður, en að jafnaði mældist það 5,7% nú á fyrstu þremur mánuðum þessa árs samanborið við 5,8% á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma hefur fjöldi starfandi farið úr 167.900 í 171.500, og hlutfall starfandi úr 74,3% í 74,8,%. Þessi fjölgun starfandi hefur jafnframt leitt til þess að heildarvinnustundum hefur fjölgað töluvert á milli ára en minni breyting hefur orðið á fjölda meðalvinnustunda í viku hverri. Hefur heildarvinnustundum í hagkerfinu fjölgað um 3,0% á milli ára sé tekið mið af fyrsta fjórðungi ársins. Óhætt er að segja að það sé dágóð aukning og bendir til þess að umsvifin í hagkerfinu hafi haldið áfram að aukast.

Tímabundið bakslag?

Lækkunin á VVG nú í apríl gæti verið tímabundið bakslag eftir hraða hækkun í mánuðinum á undan. Í öllu falli er ekki margt í undanfarinni efnahagsþróun eða fréttum sem skýrt gæti umtalsvert meiri svartsýni neytenda um þessar mundir. Af öllu samanlögðu teljum við lækkun VVG nú í apríl vera undantekningu, og að hún komi frekar til með að hækka en hitt á næstu mánuðum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall