Fréttir Greiningar

Viðskiptajöfnuður: Næstmesti afgangur frá upphafi

03.12.2014 11:01

Afgangur upp á 57,4 ma. kr. mældist af undirliggjandi viðskiptajöfnuði (án gömlu bankanna) við útlönd nú á 3. ársfjórðungi. Er hér um næstmesta afgang að ræða á undirliggjandi viðskiptajöfnuði á einum fjórðungi frá upphafi, sem má að öllu leyti þakka 80,2 ma. kr. afgangi af þjónustuviðskiptum. Vöruskipti voru óhagstæð um 9,9 ma. kr., 8,4 ma. kr. halli var á þáttatekjum að gömlu bönkunum undanskildum og rekstrarframlög voru óhagstæð um 4,5 ma. kr. Á 3. ársfjórðungi í fyrra var um metafgang að ræða af undirliggjandi viðskiptajöfnuði, en þá hljóðaði hann upp a 72,1 ma. kr. 

Óhagstæðari vöruskipti og meiri halli á þáttatekjum skýra minni afgang nú en í fyrra, en um metafgang var aftur á móti að ræða af þjónustuviðskiptum. Séu gömlu bankarnir teknir með í reikninginn þá var viðskiptajöfnuður hagstæður um 48,0 ma. kr. á 3. ársfjórðungi en 63,5 ma. kr. á sama tímabili í fyrra. Að okkar mati gefur það hins vegar betri mynd af gjaldeyrisflæði til og frá landinu að undanskilja þá. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær um greiðslujöfnuð við útlönd. 

Meiri afgangur en við reiknuðum með

Sé litið á fyrstu þrjá fjórðunga ársins er undirliggjandi afgangur kominn upp í 77,2 ma. kr. Er afgangurinn um 5,5% af áætlaðri vergri landsframleiðslu á fyrstu 9 mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra var afgangurinn 114,2 ma. kr., sem jafngildir um 8,2% af VLF á tímabilinu. Líkt og í tölunum fyrir 3. ársfjórðung eru óhagstæðari vöruskipti aðalástæðan fyrir minni afgangi nú, sem og meiri undirliggjandi þáttatekjuhalli. Að gömlu bönkunum meðtöldum nemur afgangur af viðskiptajöfnuði 49,3 mö. kr. á fyrstu níu mánuðum ársins en hafði verið 82,2 ma. kr. á sama tímabili í fyrra. Í spánni okkar frá því í októberbyrjun höfðum við reiknað með afgangi af undirliggjandi viðskiptajöfnuði upp á 2,1% af VLF, en miðað við þá þróun sem verið hefur á árinu bendir allt til þess að afgangurinn verði talsvert meiri.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall