Fréttir Greiningar

Spáum 0,7% lækkun neysluverðs í janúar

15.01.2016 10:26

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,7% í janúar frá desembermánuði. Gangi spáin eftir verður verðbólga óbreytt í 2,0%. Verðbólga verður því miðað við spána áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa lítið breyst frá síðustu spá okkar. Horfur eru á að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram yfir mitt ár. Með haustinu stígur verðbólgan hins vegar yfir markmiðið, og mun verða í grennd við efri þolmörk þess árin 2017 og 2018. Hagstofan birtir VNV fyrir janúar kl. 09:00 þann 28. janúar næstkomandi.

Útsöluáhrif og ferðaliður helstu lækkunarvaldar

Að vanda togast í janúar á allsterkir áhrifavaldar til hækkunar og lækkunar verðlags. Að þessu sinni hafa lækkunaráhrifin vinninginn líkt og raunin var tvö síðastliðin ár. Útsölur hafa jafnan veruleg áhrif til tímabundinnar lækkunar verðlags á ýmsum varanlegum og hálfvaranlegum neysluvörum í janúarmánuði. Að mati okkar mun verðlækkun á fötum og skóm vega til 0,68% lækkunar VNV í janúar, verðlækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði til 0,12% lækkunar og verðlækkun á öðrum dæmigerðum útsöluvöruflokkum til u.þ.b. 0,05% lækkunar VNV. 

Að útsölum slepptum eru helstu lækkunarliðir að þessu sinni innan ferða- og flutninga. Þar vegur þyngst lækkun á flugfargjöldum (-0,23% í VNV), en könnun okkar bendir til þess að þau hafi lækkað umtalsvert eftir tæplega 18% hækkun í desember. Þá hefur eldsneyti lækkað um 3,4% frá desembermælingu VNV (-0,11% í VNV) í kjölfar verulegrar verðlækkunar á heimsmörkuðum.

Á móti þessum lækkunarþáttum vega árviss hækkun á gjaldskrám í upphafi árs og ýmsir aðrir þættir. Gjaldskrárhækkanir eru þó með hóflegra móti þennan janúarmánuðinn miðað við það sem gjarnan hefur verið síðustu ár. Má þar nefna að hækkun á veitu- og þjónustugjöldum vegna rekstrar íbúðarhúsnæðis vega til 0,16% hækkunar í spá okkar, og hafa áhrif af þessum lið oft verið talsvert meiri. Þá gefur könnun okkar til kynna fremur litla breytingu á íbúðaverði. Í heild áætlum við að húsnæðisliður VNV vegi til 0,22% hækkunar að þessu sinni. 

Við áætlum að hækkun á mat- og drykkjarvörum vegi til 0,09% hækkunar VNV í janúar, og koma tveir þriðju hlutar þeirrar hækkunar til vegna árstíðabundinnar verðhækkunar á grænmeti. Einnig eigum við von á að verðbreytingar á áfengi tengdar breyttri samsetningu opinberra gjalda skili sér í um 0,03% hækkun á VNV, og liðurinn áfengi og tóbak í heild vegi til 0,05% hækkunar. Þá gerum við ráð fyrir að verðhækkun á þjónustu veitingahúsa hafi áhrif til 0,04% hækkunar VNV. Aðrir liðir vega minna í spá okkar, en hafa samanlagt áhrif til tæplega 0,1% hækkunar VNV að þessu sinni.

Hófleg verðbólga fram á vor

Á fyrsta fjórðungi ársins gerum við ráð fyrir samtals 0,6% hækkun VNV. Spáum við 0,7% hækkun í febrúar og 0,6% hækkun í mars. Í apríl gerum við svo ráð fyrir 0,2% hækkun VNV.

Febrúar og mars eru jafnan talsvert litaðir af útsölulokum, og svo er einnig í spá okkar nú. Einnig mun húsnæðisliður hækka jafnt og þétt samkvæmt spánni, og hefur svipuð áhrif til hækkunar og verið hefur undanfarið að jafnaði. Auk þess munu flugfargjöld væntanlega hækka að nýju á komandi mánuðum. Verðbólga mun samkvæmt spánni hjaðna á 1. ársfjórðungi og ná lágmarki í 1,6% í mars, en reynast 1,7% í aprílmánuði.

Vaxandi verðbólga þegar frá líður

Verðbólga færist jafnt og þétt í aukana eftir því sem líður á árið að mati okkar. Gerum við ráð fyrir að verðbólgutakturinn verði kominn í 1,9% um mitt ár og fari yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans í september. Er þar með á enda ríflega 2½ árs samfleytt tímabil verðbólgu undir markmiði ef spáin gengur eftir, en svo lengi hefur verðbólga aldrei mælst undir verðbólgumarkmiðinu frá því það var tekið upp árið 2001. Í árslok spáum við 3,4% verðbólgu. Á næsta ári er útlit fyrir að verðbólgan verði að jafnaði 3,7% og árið 2018 gerum við ráð fyrir 3,5% meðalverðbólgu. Aukinn verðbólguþrýstingur skýrist af áframhaldandi hraðri hækkun á innlendum launakostnaði, viðvarandi raunhækkun á íbúðaverði og því að áhrif innfluttrar verðhjöðnunar fjara út, svo nokkuð sé nefnt.

Krónan er, líkt og jafnan, einn helsti óvissuþátturinn í spá okkar. Til skamms tíma virðast meiri líkur á styrkingu hennar en veikingu, enda hefur innflæði gjaldeyris verið viðvarandi síðustu misserin og er nú svo komið að nægt svigrúm virðist vera til að mæta hugsanlegu útflæði vegna aflandskrónaútboðs, aukinna heimilda lífeyrissjóða til erlendrar fjárfestingar og uppgjörs slitabúa. Frekari styrking krónu gæti þó reynst skammgóður vermir, þar sem frekari hækkun raungengisins grefur að okkar mati undan samkeppnishæfni þjóðarbúsins og eykur að sama skapi hættu á gengisfalli síðar meir. Einnig gæti hækkun launa reynst hraðari næsta kastið en við gerum ráð fyrir, sem vegur þá til aukinnar verðbólgu á næstu misserum.

Verðbólguspá fyrir janúar

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall