Fréttir Greiningar

Spáum 0,6% hækkun neysluverðs í febrúar, verðbólga hjaðnar í 2,2%

09.02.2018 10:21

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,6% í febrúar frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá hjaðnar 12 mánaða verðbólga úr 2,4% í 2,2%.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru áþekkar og í síðustu spá. Á móti grunnáhrifum af meiri verðbólgu í upphafi ársins en við væntum vegur að við gerum nú ráð fyrir heldur hægari hækkun íbúðaverðs og launa en áður. Er það í samræmi við forsendur í nýlegri þjóðhagsspá. Eftir sem áður eru horfur á að verðbólga verði í grennd við markmið Seðlabankans út árið 2019. Hagstofan birtir VNV fyrir febrúar kl.9:00 þann 27. þessa mánaðar. 

Útsölulok og flugfargjöld vega gegn íbúðaverði

Líkt og jafnan í febrúarmánuði vega útsölulok talsvert þungt til hækkunar VNV í spá okkar nú, enda höfðu útsölur í janúar umtalsverð áhrif til lækkunar VNV að vanda. Mest eru áhrifin á verð á húsgögnum, raftækjum og heimilisbúnaði (0,20% áhrif í VNV) og fötum og skóm (0,15% í VNV). 

Þá bendir könnun okkar til þess að verð á flugfargjöldum til útlanda muni hækka talsvert eftir tæplega 9% lækkun í janúar (0,13% í VNV).

Ofangreindir liðir skýra bróðurpartinn af þeirri hækkun VNV sem við spáum í febrúar. Þó má einnig nefna til sögu greidda húsaleigu (0,02% í VNV), eldsneytisverð (0,02% í VNV) sem og verð á ýmsum tómstundum og menningarstarfsemi (0,07% í VNV).

Sá liður sem helst vegur til lækkunar í spá okkar nú er, aldrei slíku vant, íbúðaverð. Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem byggir að mestu á verði íbúðarhúsnæðis, muni lækka í febrúarmælingunni (-0,05% í VNV). Rétt er að halda til haga að þessi liður hefur reynst nokkurt ólíkindatól undanfarna mánuði, og hafa síðustu mælingar Hagstofunnar á íbúðaverði farið á allt annan veg en kannanir okkar og spár almennt bentu til. Því er óvissa um áhrif reiknaðrar húsaleigu með meira móti í þessari spá. 

Auk lækkunar reiknaðrar húsaleigu gerum við ráð fyrir lítilsháttar lækkun á verði bifreiða (-0,02% í VNV). Fátt er um lækkunarliði í spá okkar að þessum liðum slepptum, en þess má geta að við gerum ráð fyrir nánast óbreyttu matar- og drykkjarverði eftir nokkra hækkun síðustu mánuði.

Verðbólga við markmið Seðlabankans á næstunni

Útlit er fyrir svipaða verðbólgu næstu mánuðina. Við spáum 0,4% hækkun VNV í mars, 0,3% hækkun í apríl og 0,2% hækkun VNV í maí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,4% í maí næstkomandi.

Húsnæðisliðurinn leggur mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,11% í mánuði hverjum að jafnaði. Hér er þó um mun hægari hækkun þessa liðar að ræða heldur en raunin var fyrir ári síðan. Útsölulok munu að vanda setja svip sinn á mælingu marsmánaðar. Þá mun verð á gistingu og þjónustu veitingahúsa væntanlega hækka eftir því sem líður á vorið. Ekki eru vísbendingar um afgerandi áhrif annarra liða á VNV á allra næstu mánuðum að mati okkar, þótt væntanlega muni undirliggjandi þróun verða til hóflegrar hækkunar almennt.

Verðbólga rétt yfir markmiði næstu ár

Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði  á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að jafnaði síðustu mánuði. Þá gerum við ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann, líkt og sjá má í töflunni.

Við teljum að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fram á haustið, en aukist nokkuð í kjölfarið og verði 2,9% í árslok 2018. Árið 2019 spáum við 2,7% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga að jafnaði í næsta nágrenni við markmið Seðlabankans fram til ársloka 2019.

Talsverð óvissa er um þróun íbúðaverðs næstu fjórðunga í ljósi breytinga á íbúðamarkaði undanfarið. Liggur þar helsti óvissuþáttur til lækkunar frá spánni að okkar mati. Á móti gæti hröð hækkun launakostnaðar reynst þrálátari þegar frá líður en við gerum ráð fyrir. Þróun krónu er svo óvissuþáttur líkt og ávallt er raunin. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall