Fréttir Greiningar

Meiri töggur í hagsveiflunni en útlit var fyrir?

07.12.2018 11:29

Útlit er fyrir að hagvöxtur í ár verði meiri en við áttum von á. Meiri þróttur hefur reynst í einkaneyslu það sem af er ári en útlit var fyrir, auk þess sem utanríkisviðskipti hafa þróast með fremur hagfelldum hætti upp á síðkastið. Hagvöxtur gæti því reynst svipaður í ár en hann var í fyrra.

Hagvöxtur á 3. fjórðungi yfirstandandi árs var 2,6% ef miðað er við sama fjórðung fyrir ári samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Var þetta meiri vöxtur en við höfðum vænst. Helstu drifkraftar vaxtar á fjórðungnum voru einkaneysla og utanríkisviðskipti. Endurspeglast síðarnefndi þátturinn í því að þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust aðeins um 0,5%. Hefur vöxtur þeirra ekki verið minni frá 1F 2013.

Hvaðan kom einkaneysluvöxturinn á þriðja fjórðungi?

Myndarlegur vöxtur einkaneyslu á 3F kemur okkur verulega á óvart, enda er hann þvert á alla hagvísa sem jafnan gefa hvað gleggsta mynd af þróun einkaneyslu. Einkaneysla jókst um 5,3% á 3F frá sama tíma í fyrra, sem var heldur hraðari vöxtur en á 2F. Á sama tíma hægði verulega á raunvexti kortaveltu einstaklinga, nokkuð dró úr kaupmáttaraukningu og Væntingavísitala Gallup lækkaði umtalsvert. Eins og sjá má af myndinni er óvenjulegt að þessir mælikvarðar segi svo ólíka sögu og verður fróðlegt að sjá hvernig einkaneysla þróast á lokafjórðungi ársins. Þá er ekki útilokað að einkaneyslutölurnar verði endurskoðaðar síðar meir, enda um bráðabirgðatölur að ræða.

Það er seigt í hagsveiflunni

Hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins var 5,0% miðað við sama tímabil í fyrra. Vöxturinn það sem af er ári er því nokkuð hraðari en hann mældist á síðasta ári í heild, en þá var hagvöxtur 4,0%. Framlag einkaneyslu til vaxtarins var einna drýgst, en hún óx um 5,4% á tímabilinu miðað við sama tíma í fyrra. Samneysla jókst um um 3,5% á tímabilinu. Virðist meiri gangur í neysluvexti hins opinbera um þessar mundir en var í fyrra, en þá nam vöxtur samneyslunnar 3,1%.

Fjárfesting jókst um 2,7% á fyrstu þremur fjórðungum ársins borið saman við fyrstu níu mánuði síðasta árs. Ólíkur gangur var hins vegar í mismunandi tegundum fjárfestingar. Þannig dróst fjárfesting atvinnuvega saman um 0,5% milli ára á meðan íbúðafjárfesting jókst um tæplega 14% og fjárfesting hins opinbera um nærri 6%. Má segja að heimilin og hið opinbera hafi í þeim skilningi tekið við fjárfestingarkyndlinum af fyrirtækjum landsins, en framan af hagsveiflunni vó vaxandi atvinnuvegafjárfesting þyngst til heildaraukningar í fjármunamyndun.

Athyglisverð breyting hefur orðið á samsetningu framlags útflutnings og innflutnings til hagvaxtar undanfarin misseri. Árin 2015-2016 mátti segja að útflutningur þjónustu og vöruinnflutningur toguðust á í framlagi utanríkisviðskipta til vaxtar. Síðustu fjórðunga hefur þróunin hins vegar færst í þá átt að framlag vöruútflutnings hefur haldist nokkuð stöðugt á meðan dregið hefur úr framlagi þjónustuútflutnings samfara hægari vexti ferðaþjónustu. Að sama skapi hefur þjónustuinnflutningur fengið stærra hlutverk í heildarinnflutningi og er nú svo komið að hann vegur þyngra í heildarfrádragi frá hagvexti en vöruinnflutningur. Þetta endurspeglar að verulegu leyti breytta þróun í fjárfestingu, en líkt og minnst var á hér að framan virðist vera ósamræmi í þróun innfluttra neysluvara annars vegar, og þróun einkaneyslu hins vegar. 

Við eigum von á því að vöxtur á lokafjórðungi ársins mælist lítill ef nokkur, þar sem horfur eru á litlum vexti einkaneyslu og fjárfestingar auk þess sem framlag utanríkisviðskipta verður væntanlega ekki jafn jákvætt og var á þriðja fjórðungi.

Þrátt fyrir það eru horfur á að hagvöxtur á árinu 2018 í heild verði áþekkur og í fyrra. Á móti talsvert minna framlagi útflutnings og fjármunamyndunar til vaxtar vegur að frádrag vegna vaxtar innflutnings verður væntanlega mun minna en í fyrra. Auk þess verður samanlagt framlag neyslu (þ.e. einkaneyslu og samneyslu) til vaxtar öllu meira en við gerðum ráð fyrir í hagspá okkar á haustdögum þótt nokkuð dragi úr þætti neyslu í hagvexti á milli ára.

Á næsta ári eru hins vegar horfur á að hagvöxtur verði hægur. Vísbendingar um hvert stefnir í einkaneyslu hljóta á endanum að endurspeglast í þróun einkaneyslunnar sjálfrar. Auk þess er útlit fyrir að atvinnuvegafjárfesting minnki nokkuð á næsta ári og útflutningsvöxtur verði hægur. Í hagspá okkar í september spáðum við 1,5% hagvexti fyrir árið 2019 og teljum við þá spá enn nærri lagi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall