Fréttir Greiningar

Allt að 20 mö.kr. meiri ríkisbréfaútgáfa

01.10.2013 10:59

nullÚtgáfa ríkisbréfa verður aukin um allt að 20 ma.kr. að söluverði frá upphaflegri ársáætlun á síðasta fjórðungi ársins. Er þetta gert til þess að mæta hugsanlegri minni útgáfu ríkisvíxla á árinu en stefnt var að. Eftirspurn eftir víxlum hefur verið fremur dræm á undanförnum mánuðum og lítur ekki út fyrir að hún verði mikið umfram þá fjárhæð sem er á gjalddaga til ársloka. Jafnframt hefur sala ríkisbréfa gengið mjög vel á árinu og var 90 ma.kr. markmið um útgáfu á árinu í heild í höfn í lok september. Nýr flokkur kann að líta dagsins ljós á fjórðungnum, en útgáfa á honum er háð því hvernig eftirspurn mun reynast eftir ríkisvíxlum á tímabilinu. Þetta má lesa úr ársfjórðungsáætlun í lánamálum ríkissjóðs sem Lánamál birtu í gær fyrir fjórða ársfjórðung.

Nýr ríkisbréfaflokkur lítur dagsins ljós

nullOfangreind breyting á útgáfuáætlun hjá Lánamálum er í takti við væntingar okkar, eins og við höfum fjallað nýlega um Morgunkorninu. Áætluð heildarútgáfa ríkisbréfa á fjórða ársfjórðungi er 20 ma.kr., og er áætluð hámarksútgáfa í einstökum flokkum 10 ma.kr. að nafnverði. Heildarútgáfa ríkisbréfa þetta ár gæti því orðið 110 ma.kr. Eins og á undan er getið fer útgáfa á nýja flokknum, RIKB20, eftir sölu ríkisvíxla á fjórða ársfjórðungi, en tekið er fram að fresta þurfi útgáfu á flokknum fram yfir áramót ef sala ríkisvíxla eykst umfram það sem nú er. Í lok september var staða ríkisvíxla 18,3 ma.kr., sem er 21,7 mö.kr. undir því sem áætlað er að útistandandi víxlar verði um næstu áramót. Með hliðsjón af þessu teljum við ólíklegt að nýi flokkurinn líti dagsins ljós fyrr en í seinni hluta nóvembermánaðar, en í nóvember er stór víxlaflokkur á gjalddaga og verður komin skýrari mynd af víxlastöðunni eftir hann. Byggja á RIKB20 á næstu árum sem 5 ára markflokk, og síðar sem 2ja ára markflokk.

Haldið verður áfram að byggja upp RIKB15-flokkinn sem hleypt var af stokkunum í marsmánuði á yfirstandandi ársfjórðungi, en sá flokkur er orðinn 22,3 ma.kr. að stærð. Einnig er ráðgert að gefa út í löngu ríkisbréfaflokkunum RIKB22 og RIKB31, sem er sömuleiðis framhald af útgáfu á fyrri fjórðungum ársins. Flokkurinn RIKB22 er orðinn 58,6 ma.kr. að nafnverði að stærð og RIKB31 er 63,3 ma.kr.

Erlendir aðilar og lífeyrissjóðir áhugasamir

nullLíkt og fyrri daginn má eiga von á að erlendir aðilar verði atkvæðamiklir í kaupum á stutta flokknum, þ.e. RIKB15, ef ekki í útboðum þá á eftirmarkaði. Erlendir fjárfestar áttu í lok ágúst sl. 69% útistandandi bréfa í RIKB15. Hins vegar eru lífeyrissjóðir stærstu eigendur lengri flokkanna tveggja sem boðið verður upp á í útboðum fjórðungsins, og má búast við að þeir muni verða atkvæðamiklir í útboðum á þeim flokkum. Í lok ágúst áttu lífeyrissjóðirnir 51% útistandandi bréfa í RIKB22 en 83% í RIKB31.

Nú þegar hafa verið gefin út ríkisbréf fyrir 90,4 ma.kr. á árinu. Þar af nemur sala í almennum útboðum 83,7 mö.kr. og í gjaldeyrisútboðum hafa verið seld verðtryggð RIKS33-bréf fyrir 6,7 ma.kr. Samkvæmt útgáfudagatali Lánamála eru alls sex ríkisbréfaútboð fyrirhuguð til ársloka. Þar að auki hefur Seðlabanki Íslands tilkynnt um tvö gjaldeyrisútboð á tímabilinu, þ.e. þann 15. október og 3. desember.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall