Fréttir Greiningar

Allir sammála um óbreytta stýrivexti

17.10.2013 10:47

nullAllir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans studdu tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta vexti við vaxtaákvörðunina 2. október. Enginn hefði heldur kosið aðra niðurstöðu, en einn nefndarmaður lýsti þó yfir áhyggjum af því hversu þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar væru. Þessi nefndarmaður taldi hins vegar ekki ástæðu til að bregðast við að sinni. Eitthvað virðist vaxtahaukur nefndarinnar því hafa rumskað, en hann hefur kosið með tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta vexti á síðustu fjórum vaxtaákvörðunarfundum nefndarinnar. Á öllum vaxtaákvörðunarfundum sínum á þessu ári hefur nefndin ákveðið að halda vöxtum óbreyttum, en á fundinum í mars sl. vildi vaxtahaukurinn hækka vexti um 0,25 prósentur. 

Sparnaðartillaga í fjárlagafrumvarpi hugsanlega ólögmæt
Áhugavert er að í fundargerðinni er fjallað um ákveðna sparnaðartillögu í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjárlaga. Í fundargerðinni segir: „Nefndarmenn höfðu nokkrar áhyggjur af því að svo virtist sem gert væri ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu að uppgjör skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út til Seðlabanka Íslands um áramótin 2008 og 2009 í því skyni að styrkja eiginfjárstöðu bankans færi fram með afhendingu nýs og verðminna bréfs. Slíkt gæti stangast á við lög um Seðlabanka Íslands sem leggja bann við beinum lánveitingum til ríkissjóðs og gera ráð fyrir að hlutdeild ríkissjóðs í hagnaði bankans sé í formi arðgreiðslna. Þessi áform gætu auk þess talist peningaleg fjármögnun ríkissjóðs og fælu þar með í sér peningalega slökun sem nefndin gæti þurft að vinna á móti með þéttara peningalegu taumhaldi en ella.“ Með öðrum orðum telja nefndarmenn það ígildi peningaprentunar að fella niður vexti af verðtryggða skuldabréfinu. Hins vegar segir í fundargerðinni að nú stæðu yfir viðræður um fjárhagsleg samskipti ríkissjóðs og Seðlabanka og þar með talið umrætt skuldabréf, og því ótímabært að fullyrða að þetta verði niðurstaðan. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall