Fréttir Greiningar

Hversu góð er greiningin á greiðslujafnaðarvandanum?

24.10.2014 10:31

Einn helsti áhættuþáttur í þjóðarbúinu um þessar mundir er hvernig greiðslujöfnuður við útlönd muni þróast á komandi misserum, og sér í lagi hvort hætta er á umtalsverðu gjaldeyrisútflæði með tilheyrandi gengisfalli og verðbólguskoti, og í kjölfarið margháttuðum afleiðingum fyrir fjármálastöðugleika sem og hag fyrirtækja og heimila. Fyrirsjáanlegt virðist að undirliggjandi viðskiptaafgangur hagkerfisins á næstu árum verði ekki nægur til að standa undir samningsbundnum afborgunum innlendra aðila á erlendum lánum, hvað þá að hleypa út krónueignum erlendra aðila. Samkvæmt flestum hagspám mun afgangur af undirliggjandi viðskiptajöfnuði hverfa á næstu árum samhliða hratt vaxandi innlendri eftirspurn og fremur litlum vexti í útflutningi. Á sama tíma munu samningsbundnar afborganir innlendra aðila af erlendum lánum verða þungar, þó að nokkuð dragi úr þeim þegar fram í sækir. Hefur ójafnvægi á milli undirliggjandi viðskiptajafnaðar og afborgana af erlendum lánum af ýmsum verið túlkað sem ógn við stöðugleika krónunnar, þ.e. að lækkun krónunnar þyrfti til að skapa meiri afgang af utanríkisviðskiptum og þannig jöfnuð milli ofangreindra þátta. 

Sagan gefur greiningunni ekki háa einkunn

Sagan gefur þessari greiningu ekki háa einkunn. Nærtækasta dæmið í þeim efnum er þróunin á þessu ári þar sem krónan hefur verið að styrkjast á sama tíma og undirliggjandi viðskiptaafgangur hefur verið mun minni en afborganir innlendra aðila á erlendum lánum. Á þetta er bent í nýjasta hefti Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Þar segir að undirliggjandi viðskiptajöfnuður hafi verið jákvæður um 7 ma. kr. á fyrri árshelmingi og áætlar Seðlabankinn að í ár verði undirliggjandi viðskiptaafgangur um 15 ma. kr. Á fyrstu níu mánuðum ársins greiddu innlendir aðilar hins vegar niður erlend lán fyrir tæpa 70 ma. kr. Þess má svo geta að til viðbótar við lánaútflæðið keypti Seðlabankinn gjaldeyri fyrir 85 ma. kr. á fyrstu níu mánuðum ársins og hefur heildarútflæðið því verið 155 ma. kr. vegna þessara tveggja liða. Ýmsir hefðu nú spáð nær hruni krónunnar á árinu ef áætlanir hefðu fyrirfram legið fyrir um slíkt útflæði. Raunin er hins vegar sú að krónan hefur styrkst um 1,6% frá áramótum.

Greining á greiðslujafnaðarvandanum með þessum hætti er á sandi byggð þar sem jafnvel innan fjármagnshaftanna hefur fjöldi annarra þátta áhrif á flæðið á gjaldeyrismarkaði en undirliggjandi viðskiptajöfnuður og lánaflæði. Á þetta bendir Seðlabankinn í ofangreindu fjármálastöðugleikariti. Segir bankinn þar að til viðbótar við undirliggjandi viðskiptajöfnuð megi skýra um 60 ma. kr. innflæði með gjaldeyrisútboðum Seðlabankans, auknum viðskiptaskuldum, erlendri endurfjármögnun og breytingu á gjaldeyrisjöfnuði viðskiptabankanna. En það nægir ekki til að skýra muninn á milli lánaafborgananna og undirliggjandi viðskiptajafnaðar. Eftir standa 88 ma. kr. af óútskýrðu flæði sem er nánast gatið í bókhaldinu ágiskun ein hvað standi að baki því. 

Leitað að óútskýrðu gjaldeyrisflæði

Í fjármálastöðugleikaritinu segir Seðlabankinn að hugsanlega megi rekja þetta óútskýrða flæði til mæliskekkju í þjónustujöfnuðinum eða þess að hann endurspegli illa gjaldeyrisflæðið. Segir bankinn að þjónustuútflutningur vegna ferðaþjónustu kunni að vera vanmetinn og/eða að þjónustuinnflutningi stórra innlendra fyrirtækja fylgi mögulega ekki gjaldeyrisflæði heldur kann að vera um bókhaldslegt atriðið innan samstæðu fyrirtækja að ræða. Gat þetta í bókhaldinu og upptalning bankans á hugsanlegum skýringum á því er ekki til þess fallið að auka trúverðugleika greiningarinnar heldur frekar til marks um hversu götótt bókhaldið er sem greiningin á greiðslujafnaðarvandanum byggir á. 

Undirliggjandi viðskiptaafgangur árið 2013 var 93 ma. kr., en afborganir erlendra lána innlendra aðila námu 141 mö. kr. Talsverður munur var því einnig þá á milli þessara afborgana og viðskiptajafnaðar sem hefði átt að leiða til lækkunar krónunnar ef greiningin væri rétt. Samt styrktist krónan um ríflega 10% yfir árið.  Þróunin á síðasta ári er því annað dæmi um það hversu illa þessi aðferðafræði við að spá lækkun krónunnar heldur vatni. 

Segir ekkert til um hvert krónan er að fara

Niðurstaðan er sú að áætlun sem segir að væntar afborganir af erlendum lánum verði meiri en undirliggjandi viðskiptajöfnuður á næstu árum segi ekkert til um hvert krónan mun þróast á tímabilinu.  Um er að ræða allt of einfalda bókhaldslega nálgun á hagfræðilegt viðfangsefni, þar sem gengi krónunnar ræðst að sjálfsögðu af miklu flóknara samspili efnahaglegra þátta. Niðurstaðan er einnig að bókhaldið sem á að lýsa flæðinu á gjaldeyrismarkaði er mjög götótt og allt of stórir óútskýrðir liðir þar til þess að hægt sé að byggja á því bókhaldi greinargóða mynd af áhrifaþáttum gengisþróunar krónunnar. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall