Fréttir Greiningar

Spáum 0,6% lækkun VNV í janúar

12.01.2018 09:56

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,6% í janúar frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá hjaðnar 12 mánaða verðbólga úr 1,9% í 1,8%.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað lítillega á heildina litið frá síðustu spá. Ástæðurnar eru grunnáhrif og heldur hægari hækkun íbúðaverðs á spátímanum. Eftir sem áður eru horfur á að verðbólga verði í grennd við markmið Seðlabankans út árið 2019. Hagstofan birtir VNV fyrir janúar kl.9 þann 29. þessa mánaðar. 

Útsöluáhrif vega þyngra en áramótahækkanir

Í janúarmælingu VNV vegast ávallt á tveir þættir: Annars vegar koma fram lækkunaráhrif vegna útsala. Hins vegar eru í ársbyrjun hækkunaráhrif vegna hækkunar gjaldskráa veitna, hækkunar krónutöluskatta og endurskoðunar á verðskrám ýmissa þjónustuaðila. Við teljum að fyrrnefndu áhrifin vegi töluvert þyngra að þessu sinni, enda var hækkun veitugjalda og krónutölugjalda með hóflegra móti um nýliðin áramót.

Janúarútsölur eru nú í fullum gangi, og virðist okkur sem dýpt þeirra sé ámóta og undanfarin ár. Áhrifin eru mest í fata- og skólið VNV (-0,35% í VNV), en þau eru einnig talsverð í liðnum Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. (-0,28%) og tómstundir og menning (-0,08% í VNV).

Að útsöluáhrifunum slepptum vegur árviss janúarlækkun á flugfargjöldum þyngst til lækkunar VNV í janúar (-0,20%).

Fremur fáir liðir vega að ráði til hækkunar VNV í janúar skv. spá okkar. Húsnæðisliðurinn vegur þar þyngst (0,10% í VNV) vegna hækkunar veitugjalda, greiddrar húsaleigu og viðhaldskostnaðar. Hins vegar er útlit fyrir að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni lækka lítillega í janúar (-0,04% í VNV). Sem kunnugt er hefur sá liður að stórum hluta haldið uppi verðbólgu í mælingu Hagstofunnar undanfarin misseri, og því saga til næsta bæjar ef hann lækkar annan mánuðinn í röð.

Aðrir liðir sem vega til hækkunar í janúar eru t.d. eldsneytisverð (0,05% í VNV), áfengi og tóbak (0,04% í VNV) og matur og drykkur (0,04% í VNV). Í fyrrnefndu liðunum tveimur kemur hækkunin að mestu til vegna hærri krónutölugjalda. Þá gerum við ráð fyrir að verðhækkun á þjónustu hótela og veitingahúsa, sem og hækkun á liðnum Aðrar vörur og þjónusta vegi til 0,03% hækkunar VNV hvor liður.

Verðbólga stefnir í verðbólgumarkmið á komandi fjórðungum

Útlit er fyrir að verðbólga muni aukast lítillega næstu mánuðina. Við spáum 0,7% hækkun í febrúar nk., 0,4% hækkun í mars og 0,3% hækkun VNV í apríl. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,0% í apríl næstkomandi.
Húsnæðisliðurinn leggur mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,12% í mánuði hverjum að jafnaði. Við höfum þó dregið úr hækkunartakti íbúðaverðs í skammtímaspá okkar í ljósi nýlegrar þróunar á þeim markaði. Útsölulok munu að vanda setja svip sinn á mælingu febrúar og mars. Ekki eru vísbendingar um afgerandi áhrif annarra liða á VNV á allra næstu mánuðum að mati okkar, þótt væntanlega muni undirliggjandi þróun verða til hóflegrar hækkunar almennt.

Verðbólga nærri markmiði næstu ár

Útlit er fyrir hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði í stórum dráttum á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að jafnaði síðustu mánuði. Þá gerum við ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann.

Við teljum að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 3. fjórðungi ársins, en aukist nokkuð í kjölfarið og verði 2,8% í árslok 2018. Árið 2019 spáum við 2,8% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga að jafnaði í næsta nágrenni við markmið Seðlabankans fram til ársloka 2019.

Nokkur óvissa er um þróun íbúðaverðs næstu fjórðunga í ljósi breytinga á íbúðamarkaði undanfarið. Liggur þar helsti óvissuþáttur til lækkunar frá spánni að okkar mati. Á móti gæti hröð hækkun launakostnaðar reynst þrálátari þegar frá líður en við gerum ráð fyrir. Þróun krónu er svo óvissuþáttur líkt og ávallt er raunin. Í ljósi þess að þróun utanríkisviðskipta hefur verið öllu óhagstæðari upp á síðkastið hefur óvissan um gengi krónu hnikast nokkuð í átt að auknum líkum á veikingu, þótt horfurnar séu ekki verulega breyttar að mati okkar. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall