Fréttir Greiningar

K-90 niður um 2% frá ársbyrjun

21.02.2014 12:27

nullFrá áramótunum síðustu hefur K-90 vísitalan lækkað um 2% en K-90 lýsir  gengisþróun skráðra hlutafélaga á Aðallista Kauphallarinnar. Einstök félög hafa misjöfn áhrif til hækkunar/lækkunar á vísitölunni. Áhrifin eru í samræmi við samsetningu vísitölunnar en hún stjórnast af veltu félaganna í þrjá mánuði fyrir þann mánuð sem vísitalan tekur til og er samsetning hennar endurmetin 12 sinnum á ári. Hér til hliðar má sjá samsetningu hennar í janúar og febrúar sl.

Marel helsti lækkunarvaldurinn

nullVísitalan fór inn í nýtt ár í 167,3 stigum en stóð í lok viðskipta þann 17. febrúar sl. í 163,9 stigum.  Breytingin á vísitölunni er því á þessu tímabili 3,3 stig. Marel lækkaði vísitöluna samtals um 5,6 stig en markaðsvirði félagsins lækkaði um 12,4% á tímabilinu. Eins og sést í skífuritinu hér að ofan er vægi félagsins í vísitölunni töluvert. Eimskip lækkaði um 4,6% á tímabilinu sem skilar 1,2 stigi til lækkunar vísitölunnar. Hagar og Icelandair skiluðu aftur samtals 4 stigum til hækkunar vísitölunnar. Önnur félag höfðu minni áhrif.

Allt önnur þróun en í byrjun árs 2013

nullSamanburður við sama tímabil á árinu 2013 sýnir vægast sagt aðra mynd. Þá hóf K-90 vísitalan árið í 124,9 stigum en var komin í 148 stig þann 18. febrúar. Þetta jafngildir 18,9% hækkun. Icelandair hækkaði umtalsvert yfir þetta tímabil eða um 33% en á sama tíma hækkuðu Marel um 14% og Hagar um 13%. Markaðsvelta yfir þessi tvö tímabil var ekki ósvipuð, eða um 38 ma.kr. 2013 (jan. til 18 feb.) og 42 ma.kr. 2014.

Minni eftirspurnarþrýstingur í ár

Hvað gæti hugsanlega skýrt það að K-90 hækkaði um tæplega 19% á u.þ.b. fyrstu 45 dögunum árið 2013 en lækkað um 2% á sama tímabili 2014? Eina ástæðu er að finna í minni eftirspurnarþrýstingi. Á síðasta ári bættust þrjú félög á markað, samanlagt markaðsvirði þeirra í dag er um 70 ma.kr. Á þessu ári er hins vegar allt útlit fyrir að félög að samanlögðu markaðsvirði um 200 ma.kr. verði skráð á árinu. Við vekjum þó athygli á því að töluverður munur getur verið á heildarvirði hlutabréfa þess félag sem skráð er, og þeim hluta sem raunverulega er fleytt inn á hlutabréfamarkaðinn.

Það er okkar mat að sex félög séu mjög  líkleg til skráningar á þessu ári. HB Grandi hyggur á flutning á Aðallista Kauphallarinnar í vor. Reitir hafa gefið það út að þeir hyggist skrá sig á ársuppgjöri félagsins í vor eða eftir sumarið. Þá hafa Promens og Eik gefið það út að þau ætli sér að ná skráningu fyrir árslok en Sjóvá hyggur á skráningu á árinu án þess að nánari tímasetning liggi fyrir. Við teljum einnig líklegt að Skipti hafi hyggi á skráningu á árinu en örlítið meiri óvissa virðist vera með það félag en hin fimm.

Ekki liggur fyrir hver útboðsstærðin verður í markaðsútboðum þessara félaga. Við teljum þó litlar líkur á seljendur stuðli að því að umfram framboði myndist. Við teljum seljendur í góðri stöðu til að fresta útboðum til skamms tíma eða þar til eftirspurnin er fyrir hendi. Mestur þrýstingur er þó líklega á sölu þeirra félaga sem bankar fara beint eða óbeint enn með stóran eignarhlut í.

Eftirspurnarþrýstingur gæti snúið aftur 2015

Verði af skráningu  ofangreindra félaga og ef skráning þeirra raðist nokkuð jafnt yfir árið, má gera ráð fyrir að nokkuð létti af eftirspurnarþrýstingi á hlutabréfamarkaði þetta ár. Miðað við vænt framboð á árinu 2015 má hins vegar búast við að þrýstingurinn gæti aukist aftur það ár. Er hér litið framhjá áhrifum af mögulegum skrefum í afléttingu fjármagnshafta enda liggur mest lítið fyrir um tímasetningarnar í þeim skrefum.  

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall