Fréttir Greiningar

Væntingar aukast hóflega eftir skuldalækkun

25.11.2014 11:21

Áhrif skuldalækkunar ríkisstjórnarinnar á væntingar neytenda virðast hófleg, ef marka má nýjustu mælingu Capacent Gallup á Væntingavísitölunni (VVG) sem birt var rétt í þessu. VVG hækkaði um 4 stig í nóvember eftir snarpa lækkun milli mánaða í október. Vísitalan mælist nú 80,2 stig, sem þýðir að svartsýni hefur enn yfirhöndina í svörum neytenda þar sem jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni er við 100 stig í framsetningu VVG.

Væntingar til aðstæðna í efnahags- og atvinnumálum eftir sex mánuði hækkuðu raunar um 7,7 stig milli mánaða og eru nú við 100 stiga jafnvægið. Þá hækkaði undirvísitala fyrir mat á efnahagslífinu um 15 stig frá síðasta mánuði og stendur hún nú í tæplega 70 stigum. Hins vegar lækkaði mat á atvinnuástandinu um nærri 8 stig milli mánaða og mælist viðkomandi undirvísitala nú rúmlega 81 stig.

Meiri bjartsýni á horfur eftir hálft ár

Capacent tekur sérstaklega fram að mælingin hafi farið fram eftir að niðurstöður skuldalækkunarinnar voru kynntar. Því má hugsanlega líta á hana sem fyrstu mælingu á áhrifum aðgerða stjórnvalda á íslenska neytendur, þar sem tiltölulega litlar breytingar urðu á aðstæðum þeirra að öðru leyti. Þó ber að hafa í huga að ákveðnar væntingar um skuldaleiðréttinguna voru þegar komnar fram, og að talsverðar sveiflur geta verið milli mánaða í VVG án þess að augljósar orsakir séu fyrir þeim. Í öllu falli má leiða að því líkur að jákvæðara mat á efnahagslífinu nú, svo og á aðstæðum að hálfu ári liðnu, tengist skuldalækkuninni. Áhrif hennar á greiðslubyrði og höfuðstól íbúðalána þeirra sem hana fá verða einmitt að stærstum hluta komin fram eftir sex mánuði ef áform stjórnvalda ganga eftir.  

Svartsýni þrátt fyrir efnahagsbata

Það er athyglisvert að mati okkar hversu þungt hljóðið er enn í íslenskum neytendum þrátt fyrir umtalsverðan bata í efnahagsumhverfinu, stöðugleika í gengi krónu, litla verðbólgu, tiltölulega hraðan kaupmáttarvöxt, og nú síðast lækkun á verðtryggðum íbúðaskuldum, svo nokkuð sé nefnt. Gildi VVG er til að mynda svipað og það var um mitt ár 2012, þegar framangreindar aðstæður voru töluvert lakari en nú. Líklegt er að viðvarandi órói á vinnumarkaði leggist illa í neytendur, ekki síst yfirstandandi verkfall lækna sem ekki eru fordæmi fyrir undanfarna áratugi. 

Þá er einnig áhugavert hversu mismunandi þróunin hefur verið milli mats á núverandi ástandi annars vegar, og 6 mánaða væntingum hins vegar, undanfarna 18 mánuði. Frá vordögum 2013 hefur mat á núverandi ástandi hækkað jafnt og þétt í takti við bata efnahagslífsins, en væntingar um frekari bata tóku hins vegar skarpan kipp niður á við um mitt ár 2013 og hafa ekki náð fyrri hæðum eftir það. Þetta er raunar ekki ósvipuð þróun og sjá mátti framan af hagsveiflunni 3003-2007, en á sér hins vegar stað fyrr í sveiflunni, og við mun lægri gildi nú en þá. Kann að vera að hrunið og eftirleikur þess hafi valdið einhvers konar langvinnri breytingu á viðhorfi neytenda til efnahags- og atvinnulífsins. Það er þó alls ekki útilokað að væntingar landsmanna takið við sér að nýju á komandi fjórðungum ef meiri ró færist yfir vinnumarkað og væntingar um hóflega verðbólgu, áframhaldandi kaupmáttaraukningu og stöðugra efnahagsumhverfi festast í sessi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall