Fréttir Greiningar

Verðbólga meiri en vænst var

27.06.2018 11:11

Verðbólga mældist meiri í júní en vænst var, og er ástæðan ekki hvað síst fjörkippur í þróun fasteignaverðs. Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,62% í júní skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,6% en var 2,0% í maí. VNV án húsnæðis hækkaði um 0,46% í júní og hefur sú vísitala hækkað um 1,1% undanfarna 12 mánuði.

 

Mæling júnímánaðar er yfir öllum birtum spám. Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,3% – 0,4% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að stórum hluta í mikilli hækkun reiknaðrar húsaleigu um 1,1% (0,23% áhrif í VNV), en hún endurspeglar íbúðaverð að mestu. Einnig hækka matur og drykkjavörur í verði um 0,39% (0,04%) en við höfðum spáð lækkun í þeim lið.

 

 

 

Húsnæðisliðurinn til hækkunar

Húsnæðisliðurinn lagði mest til hækkunar VNV að þessu sinni. Í júní hækkaði liðurinn í heild um 0,84% (0,29 í VNV). Greidd húsaleiga hækkaði um 0,56 (0,02 í VNV). Mestu munar þó um 1,08% hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,23% í VNV) en sá liður byggir að mestu á þróun íbúðaverðs.

Undirvísitölur Hagstofunnar fyrir markaðsverð íbúðarhúsnæðis sýna þróunina eftir tegund og staðsetningu húsnæðis. Verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,7% og á fjölbýli um 0,6%. Verð á landsbyggðinni hækkaði þó mest eða um 2,3% milli mánaða og ef skoðuð er verðþróun undanfarna 12 mánuði er það landsbyggðin sem hefur hækkað mest eða um 14,4%. Hins vegar hefur íbúðaverð fyrir allt landið hækkað um 8% undanfarna 12 mánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar og hefur því dregið úr hækkunartaktinum sem fór hæst síðasta sumar þegar hann var ríflega 24%.

 

 

Fleira hækkaði þó en íbúðaverð í júní, enda hækkaði vísitala neysluverðs um 0,46% á milli mánaða. Annað sem vó einnig til hækkunar í júnímánuði var til að mynda eldsneytisverð sem hækkaði um 2,81% (0,09% í VNV) og flutningar í lofti sem hækkuðu um 13,96% (0,19% í VNV).

Þjónusta hótela og veitingastaða hækkaði auk þess um 0,89% í verði (0,05% í VNV) og matvörur og drykkjarföng um 0,36% (0,04 í VNV).

Ekki voru margir liðir sem lækkuðu í júní mánuði en helst má nefna að heimilisbúnaður lækkaði í verði um 1,37% (-0,05% í VNV).

 

 

Horfur næstu mánuði

Við spáum 0,2% lækkun VNV í júlí, 0,5% hækkun í ágúst og 0,4% hækkun í september. Verðbólga mun samkvæmt því vera yfir markmiði Seðlabankans í september og mælast 2,8%.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall