Fréttir Greiningar

Áhugaverð þróun á innlendum eignum lífeyrissjóðanna á 1F

22.05.2014 10:18

nullHrein eign lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris jókst um 17,5 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt tölum Seðlabankans. Yfir það tímabil jókst innlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna um 34,3 ma.kr. Á sama tíma lækkaði verð skráðra hlutabréfa um 5,9% skv. K-90 hlutabréfavísitölu Greiningar á meðan skuldabréfavísitala Kauphallarinnar, sem mælir verðþróun ríkistryggðra bréfa (NOMXIBB), lækkaði um 1%.

Lífeyrissjóðirnir fjárfestu líklega mikið í samlagshlutafélögum á 1F

Innlend hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna jókst um 14,2 ma.kr. á fjórðungnum þrátt fyrir fyrrgreinda markaðslækkun. Miðað við lista yfir eignarhald 20 stærstu hluthafa skráðra félaga má raunar draga þá ályktun að markaðsvirði skráðra eigna lífeyrissjóðanna hafi lækkað um tæplega 5,7 ma.kr. á fjórðungnum. Það eru því allar líkur á að lífeyrissjóðirnir hafi fyrst og fremst verið í kaupum á óskráðum eignum á þessu tímabili, en slíkar eignir eru ekki sérgreindar í gögnum Seðlabankans.

nullÁ fjórðungnum var lokið við nokkur stór óskráð viðskipti sem líkur eru á að standi að baki aukinni hlutafjáreign lífeyrissjóðanna. Þessi viðskipti eru kaup í Ursus I slhf (HS Veitur), SF V slhf. (Norvik og Smáragarður) og Fast-1 slhf. (Höfðatorg). Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um heildar umfang viðskiptanna sem og þátttöku lífeyrissjóðanna í þeim, en út frá því litla sem liggur fyrir má draga þá ályktun að þarna megi finna það hlutafé er lífeyrissjóðirnir keyptu á fjórðungnum. Á skráðum hlutafjármarkaði voru lífeyrissjóðirnir bæði meðal kaupenda og seljenda í einstökum félögum en eins og fyrr sagði lækkaði markaðsvirði eigna þeirra nokkuð.

Skuldabréfafjárfestingar í sjóðum og fyrirtækjum

Á fyrsta ársfjórðungi minnkaði hlutdeild lífeyrissjóðanna í ríkisskuldabréfum og skuldabréfum bæjar- og sveitafélaga en jókst í íbúðabréfum. Yfir sama tímabil jókst verulega eign lífeyrissjóðanna í fjárfestinga- og fagfjárfestingasjóðum með föstum tekjum og fyrirtækjabréfum. Í tilfelli fjárfestinga í sjóðum er að öllum líkindum að mestu leyti um að ræða skuldafjármögnun tengt samlagshlutafélögunum sem fjallað var um hér að ofan. Kaup fyrirtækjabréfa eru aftur væntanlega að mestu leyti vegna endurfjármögnunar Regins.

Miklar fjárfestingar á óskráðum eða óvirkum markaði

Tölur yfir fjárfestingar á hlutabréfum og í fjárfestingasjóðum með föstum tekjum  benda til töluverðra fjárfestinga lífeyrissjóðanna á óskráðum eða óvirkum markaði á fjórðungnum. Hvað fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum varðar er eðlilegt að eitthvað fjármagn leiti í slík viðskipti á sama tíma og óskráðar eignir verða skráðar, en þannig var N1 t.d. skráð í lok síðasta árs og fyrir lá að Sjóvá yrði skráð snemma á þessu ári. Lífeyrissjóðirnir áttu töluverðan hlut í báðum félögunum.

Virði erlendra eigna lækkaði

nullVerðmæti erlendra eign lífeyrissjóðanna dróst nokkuð saman á fjórðungnum. Ástæðan liggur væntanlega að mestu í styrkingu krónunnar á sama tíma og erlendir eignamarkaðir hækkuðu lítið. Þegar verðmætalækkunin er skoðuð innbyrðis verður að hafa í  huga að meirihluti erlendra eigna er í hlutabréfum. Þannig voru erlend skuldabréf í eigu sjóðanna einungis 4,5 ma.kr. í mars á meðan erlend hlutabréf voru 107,2 ma.kr. og erlendir hlutabréfasjóðir 438,1 ma.kr.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall