Fréttir Greiningar

Allir sammála í peningastefnunefndinni

04.09.2014 10:20

Allir nefndarmenn peningastefnunefndar Seðlabankans studdu tillögu seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti á fundi nefndarinnar vegna vaxtaákvörðunarinnar sem kynnt var 20. ágúst sl. samkvæmt nýbirtri fundargerð. Kemur það ekki á óvart, en eining hefur verið innan nefndarinnar um óbreytta vexti á öllum fundum nefndarinnar síðan í febrúar á þessu ári. Óvissan var lítil sem engin um þessa ákvörðun nefndarinnar og voru allar opinberar spár, þ.m.t. okkar, á sömu nótum, þ.e. að nefndin myndi halda stýrivöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni.

 

Stóru tíðindin í yfirlýsingu peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar var að tónninn varðandi næstu skref í peningamálum og hugsanlega vaxtahækkun var mildaður verulega. Í yfirlýsingunni kom fram að miðað við grunnspá bankans væri útlit fyrir að núverandi vaxtastig dygði til að halda verðbólgu í markmiði. Var þetta til þess að draga úr væntingum um vaxtahækkun að hálfu bankans á næstunni og hafði t.d. umtalsverð áhrif á skuldabréfamarkaði.  

Það sem kemur á óvart í fundargerðinni sem birt var í gær er að samstaða var á meðal nefndarmanna um að milda tóninn varðandi næstu skref í peningamálum. Þannig stendur öll nefndin að því er virðist að baki ofangreindri setningu í yfirlýsingu nefndarinnar. Ekki kemur fram í fundargerðinni að nein skoðanaskipti hafi verið á fundi nefndarinnar um þennan breytta tón, þrátt fyrir að nefndarmenn teldu hættu á að verðbólgu væri vanspáð næstu misserin vegna aukinnar spennu á vinnumarkaði í aðdraganda komandi kjarasamninga. Má túlka þessa samstöðu sem svo að minni líkur en ella séu á því að peningastefnunefndin ráðist í vaxtahækkanir á næstunni.  

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall