Fréttir Greiningar

Fremur lítill vöruskiptaafgangur í ágúst

05.09.2013 10:35

nullAfgangur af vöruskiptum gæti orðið nokkru minni í ár en raunin var í fyrra. Á móti minnkandi gjaldeyrisinnflæði vegna vöruviðskipta vegur að horfur eru á talsvert auknu innflæði vegna þjónustujafnaðar þetta árið.

Afgangur af vöruskiptum var með minna móti í ágúst, ef miðað er við meðaltal 12 mánaða á undan. Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar nam vöruútflutningur í  mánuðinum 44,2 mö.kr. en vöruinnflutningur nam 41,2 mö.kr. Afgangurinn var því 3,0 ma.kr. í ágústmánuði. Til samanburðar nam vöruskiptaafgangur 4,5 mö.kr.  í júlí.

Vöruútflutningurinn í  ágúst var í minna lagi, og skrifast það að mestu leyti á lítinn útflutning iðnaðarvara, væntanlega áls að stærstum hluta. Nokkur sveifla getur verið milli mánaða í álútflutningi eftir því hvernig stendur á skipaferðum, en auk þess hefur álverð haldist lágt á erlendum mörkuðum. Útflutningur sjávarafurða var hins vegar í meðallagi miðað við undanfarna mánuði.

Vöruinnflutningur var raunar einnig lítill í ágúst, og þarf að fara aftur um ár til að finna jafn lítinn innflutning í einum mánuði. Innflutningur á öllum helstu vöruflokkum var með minna móti, en sér í lagi var lítið flutt inn af hrá- og rekstrarvörum. Þá var innflutningur bæði fjárfestingarvara og flutningatækja sá minnsti frá því í fyrrahaust.

Horfur á minni vöruskiptaafgangi í ár

Vöruskiptaafgangur það sem af er ári nemur 31,1 ma.kr. Til samanburðar var afgangurinn í janúar-ágúst í fyrra 40,2 ma.kr. Minni afgangur þetta árið skýrist alfarið af mun minni útflutningstekjum. Þær hafa dregist saman um 5% á milli ára en kostnaður vegna vöruinnflutnings hefur minnkað um rúm 3% á sama tíma. Minni útflutningstekjur skýrast af verðlækkun á sjávarafurðum og áli á milli ára. Álver hefur til að mynda verið 6,7% lægra það sem af er ári en á sama tímabili í fyrra. Þá tók verð þorsks og fleiri botnfisktegunda dýfu síðastliðinn vetur vegna stóraukins framboðs á Evrópumarkaði af þorski úr Barentshafi og dræmrar eftirspurnar í ýmsum ríkjum S-Evrópu.

Vöruskiptaafgangur mun væntanlega sækja nokkuð í síg veðrið á seinustu mánuðum ársins. Fiskverð hefur heldur verið að hækka erlendis og aukinn kvóti ætti að skila talsvert meira útfluttu magni í vetur en á síðasta fiskveiðiári. Á móti gæti innflutningur aukist nokkuð, ekki síst innflutningur fjárfestingarvara sem hefur verið lítill undanfarið auk þess sem innflutningur neysluvara mun líklega vaxa. Vöruskiptaafgangur verður þó líklega minni í ár en í fyrra og vöruskiptin skila því væntanlega minna gjaldeyrisinnflæði. Á móti vegur að þjónustuafgangur verður líklega talsvert meiri en í fyrra og gjaldeyrisinnflæði vegna hans að sama skapi meira.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall