Fréttir Greiningar

Mikil breyting á áhrifum gengislækkunar á hagkerfið

17.09.2013 11:20

Frá hruninu 2008 hafa orðið breytingar á hagkerfinu sem hafa dregið verulega úr neikvæðum áhrifum gengislækkunar á efnahagslífið. Einnig hafa jákvæð áhrif slíkrar gengislækkunar aukist. Áhrifin á gjaldeyrisöflun hagkerfisins yrðu jákvæðari og á skuldastöðu hagkerfisins yrðu þau ekki jafn neikvæð og áður.  Munar þar mestu um minni skuldsetningu í erlendri mynt annars vegar og hins vegar um mikinn vöxt í ferðaþjónustu, þ.e. þeim hluta gjaldeyrisöflunar hagkerfisins sem er næmari fyrir sveiflum í raungengi krónunnar en þær greinar sem áður sköpuðu nær alfarið gjaldeyristekjur þjóðarbúsins.

 
Segja má að með þessum breytingum hafi hagkerfið verið búið undir afnám gjaldeyrishaftanna og þá lækkun krónunnar, hvort sem er tímabundna eða varanlega, sem í kjölfarið gæti fylgt. Hagkerfið er þannig mun betur í stakk búið að takast á við slíkar breytingar en það var þegar gjaldeyris- og bankaáfallið varð á árinu 2008. Gera þessar kerfisbreytingar afnám hafta bæði auðveldara og líklegra í náinni framtíð. 

Hlutfall erlendra lána mun minna

nullAfleiðingar gjaldeyrisáfallsins 2008 sýndu vel hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft í för með sér þegar aðilar sem eru ekki með erlendar tekjur eru skuldsettir í erlendri mynt. Við gengisfallið hækkuðu gengisbundnar skuldir í krónum talið í takti við lækkun gengis krónunnar en tekjurnar gerðu það ekki.  Frá hruninu hefur verið tekið á þessu vandamáli bæði með því að hætta slíkum lánveitingum til einstaklinga og með dómum sem fallið hafa um ólögmæti stærsta hluta slíkra einstaklingslána. Hefur hlutdeild þeirra í heildarskuldsetningu aðila sem ekki eru með erlendar tekjur því minnkað mikið. Má sem dæmi taka að af heildarskuldum heimilanna vógu gengisbundin lán 14,9%, og 18,1% af landsframleiðslu um mitt ár 2008 samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Í upphafi þessa árs voru þau komin niður í 3,3% af heildarskuldum heimilanna og 3,6% af landsframleiðslu.

 
Samhliða þessari þróun hefur skuldsetning íslenskra heimila minnkað, sem einnig gerir þau betur í stakk búin til að takast á við áföll á borð við snarpa gengislækkun. Námu heildarskuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu 133,5% um mitt ár 2008, þ.e. þegar þær fóru hæst í aðdraganda hrunsins. Nú í upphafi þessa árs stóðu þær í 109,4% af landsframleiðslu.

 

Stefnan að draga úr verðtryggingunni

Eftir stendur að stærsti hluti skulda íslenskra heimila er bundinn vísitölu neysluverðs. Eru skuldirnar þar með tengdar gengisþróuninni með óbeinum hætti þar sem talsverður hluti neyslunnar er innfluttur. Námu verðtryggðar skuldir heimilanna 86,9% af landsframleiðslu í upphafi þessa árs. Voru þær þá 79,4% af heildarskuldum heimilanna. Nái stefna nýrrar ríkisstjórnar fram að ganga varðandi skuldavanda heimila ættu verðtryggðar skuldir heimilanna að lækka bæði í krónutölu, sem hlutfall af heildarskuldum og sem hlutfall af landsframleiðslu. Á sama tíma ætti hlutdeild óvertryggðra lána að aukast. Takist það mun það enn frekar draga úr tengingu gengis krónunnar við skuldir heimilanna og milda áhrif gengislækkunar. 

Á tímabilinu eftir hrun hafa óverðtryggð lán leyst gengisbundin lán af hólmi að stórum hluta, en hlutdeild þeirra í heildarskuldum heimilanna hefur farið úr því að vera 1,6% um mitt ár 2008 í að vera 9,4% í upphafi þessa árs. Sem hlutfall af landsframleiðslu hafa slík lán farið úr 2,7% í 12,4% á sama tíma. Óverðtryggð lán eru hins vegar ekki án gengisáhrifa, en viðbúið er að Seðlabankinn muni bregðast við snarpri gengislækkun með m.a. hækkun stýrivaxta sem síðan aftur hefur áhrif á vexti óverðtryggðra lána og afborganir. Tengslin hafa því ekki alveg verið rofin þó svo að innbyrðis hlutföllum lánanna hafi verið breytt til muna.   

Aukinn hluti gjaldeyristekna háður raungenginu

Sérstaða útflutningsgreina Íslendinga var lengi vel m.a. sú að sveiflur í raungengi krónunnar höfðu afar lítil áhrif á magn útflutnings. Var ástæðan annars vegar sú að kvótinn var óháður hreyfingum á gengi krónunnar. Gengislækkun eykur ekki aflamark í þorski, ýsu eða ufsa svo dæmi sé tekið af nokkrum fisktegundum. Hins vegar var magn álútflutnings einnig óháð gengisbreytingum krónunnar a.m.k. til skemmri tíma, en í þeim stóru fjárfestingum sem ráðist hefur verið í í þeirri grein hafa menn leitast við að horfa framyfir skammtímahreyfingar í raungengi krónunnar.

Sá mikli vöxtur sem verið hefur í ferðmannaþjónustunni hefur breytt þessari sérstöðu íslenskra útflutningsgreina umtalsvert. Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar árið 2012 voru 239 milljarðar og var ferðaþjónusta með 23,7% gjaldeyristekna þjóðarinnar af vöru- og þjónustuviðskiptum það árið samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Víst þykir að hlutfallið verði enn hærra í ár. Hlutfall þetta hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum. Væri hlutur ferðaþjónustunnar að öllu líkindum enn stærri nú ef svört atvinnustarfsemi yrði talin með, þar sem margt bendir til þess að hluta gjaldeyristekna í ferðaþjónustu sé aflað með slíkri starfsemi.

Viðbúið er að raungengislækkun krónunnar myndi auka enn við vöxt ferðaþjónustunnar, en ætla má að ferðamannastraumurinn til landsins sé nokkuð næmur fyrir slíkum breytingum eða a.m.k. næmari en kvótinn og álútflutningurinn. Raungengislækkun nú hefur því mun meiri og jákvæðari áhrif en áður á magn útflutnings og þar með gjaldeyristekjur. Er þetta líkt og áður var nefnt annar þáttur sem ætti að gera það auðveldara og áhættuminna að afnema gjaldeyrishöftin. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall