Fréttir Greiningar

Styrking krónu þrátt fyrir viðskiptahalla

04.06.2014 12:16

nullHalli mældist á undirliggjandi viðskiptajöfnuði á fyrsta fjórðungi ársins, og er það í fyrsta sinn frá ársbyrjun 2013 sem undirliggjandi viðskiptahalli mælist. Hallinn reyndist 3,5 ma.kr. miðað við nýbirtar bráðabirgðatölur frá Seðlabankanum. Undirliggjandi viðskiptahalli nú er til kominn vegna lítils vöruskiptaafgangs, árstíðarsveiflu í þjónustujöfnuði og fremur mikils halla á undirliggjandi þáttatekjum. Í ljósi hallans á 1. fjórðungi má teljast markvert að krónan hafi styrkst gagnvart erlendum gjaldmiðlum á tímabilinu, og er það væntanlega til marks um annað gjaldeyrisinnflæði á tímabilinu. Horfur eru hins vegar á afgangi á undirliggjandi viðskiptajöfnuði á komandi ársfjórðungum.

Vörur og þjónusta skiluðu 10 milljörðum

Þegar lá fyrir að afgangur af vöruskiptajöfnuði var með rýrara móti á 1. ársfjórðungi. Afgangurinn var 9,3 ma.kr., en til samanburðar var vöruskiptaafgangur 26,6 ma.kr. á 1. fjórðungi ársins 2013. Léleg loðnuvertíð, tiltölulega lágt afurðaverð bæði í sjávarútvegi og áliðnaði, bakslag í álframleiðslu vegna rafmagnsskömmtunar og aukinn innflutningur neyslu- og fjárfestingarvara skýra þessa þróun að mestu.

Þá birti Hagstofan tölur um þjónustujöfnuð 1. ársfjórðungs síðastliðinn mánudag. Þar kom raunar í ljós að afgangur var á þjónustujöfnuði á 1. fjórðungi í fyrsta sinn svo langt aftur sem tölur ná, og reyndist afgangurinn 845 m.kr. Fyrsti fjórðungur ársins er jafnan slakur hvað þjónustuviðskipti varðar, þar sem ferðamannastraumur hingað til lands er þá í lágmarki, og var afgangurinn nú til marks um hversu hratt vetrarkomum ferðamanna hingað til lands hefur fjölgað síðustu ár.

Þáttatekjuhalli með meira móti

nullÍ gær birti Seðlabankinn svo tölur fyrir þriðja undirjöfnuð viðskiptajafnaðar, en það eru þáttatekjur og framlög nettó. Þáttatekjur samanstanda af fjárflæði vegna launa, ávöxtunar hlutafjár og vaxtagreiðslna af skuldum milli landa. Vegna þess hversu tölurnar hafa síðustu ár verið litaðar af reiknuðum vaxtagjöldum banka í slitameðferð, sem að stærstum hluta verða aldrei greiddar, birtir Seðlabankinn einnig tölur um þáttatekjur og –gjöld að gömlu bönkunum undanskildum. Halli á þessum undirliggjandi þáttatekjujöfnuði reyndist 13,7 ma.kr. á 1. ársfjórðungi, sem er öllu meiri halli en mælst hefur að jafnaði undanfarna ársfjórðunga. Hafa ber í huga að miklar sveiflur eru í þáttatekjunum frá einum fjórðungi til annars, og litast þær meðal annars af afkomu álvera hér á landi og þróun erlendra hlutabréfamarkaða. Að gömlu bönkunum meðtöldum mældist 22,2 ma.kr. halli á þáttatekjum og framlögum nettó, og 12,1 ma.kr. halli á viðskiptajöfnuði á 1. ársfjórðungi. Af framangreindum ástæðum gefa þær tölur hins vegar takmarkaða mynd af raunverulegu greiðsluflæði tengdu utanríkisviðskiptum.

Styrking krónu í hallafjórðungi

nullÁ 1. ársfjórðungi styrktist krónan um tæp 2% gagnvart helstu viðskiptamyntum. Er það athyglisvert í ljósi þess að undirliggjandi viðskiptahalli bendir til nettó gjaldeyrisútflæðis vegna utanríkisviðskipta og bráðabirgðatölur um fjármagnsjöfnuð eru raunar einnig með þeim formerkjum að kalla á gjaldeyrisútflæði. Hins vegar ber að nefna að liðurinn „skekkjur og vantalið“ sem endurspeglar muninn á fjármagnsjöfnuði og viðskiptajöfnuði að teknu tilliti til breytinga á gjaldeyrisforða, er nærri 73 ma.kr. fyrir þetta tímabil. Því er ljóst að ofangreindar bráðabirgðatölur gætu breyst verulega við endurskoðun og þarf því að taka með verulegum fyrirvara.

Betri tíð þegar líður á árið

nullHorfur eru á betri niðurstöðu hvað undirliggjandi viðskiptajöfnuð varðar eftir því sem líður á árið. Þjónustujöfnuður mun væntanlega reynast býsna hagstæður á 2. og 3. ársfjórðungi þegar straumur ferðamanna hingað til lands nær nýjum hæðum. Þá hefur afurðaverð hækkað nokkuð erlendis, áhrif af slæmri loðnuvertíð fara þverrandi og álframleiðsla færist væntanlega í fyrra horf. ´

Nýbirtar bráðabirgðatölur Hagstofunnar fyrir vöruskipti í maímánuði sýna 2,4 ma.kr. afgang. Afganginn má að mestu þakka myndarlegum útflutningi sjávarafurða og sér í lagi iðnaðarvara í mánuðinum eftir óvenju lítinn útflutning í apríl þegar 6,9 ma.kr. halli mældist á vöruskiptum. Það sem af er 2. ársfjórðungi er 4,5 ma.kr. halli á vöruskiptum við útlönd, og virðist því sem vöruskiptin muni litlu skila til viðskiptajafnaðar á ársfjórðungnum. Á móti má búast við ágætum afgangi af þjónustujöfnuði á tímabilinu, en til samanburðar var 19,5 ma.kr. afgangur af þjónustuviðskiptum á 2. fjórðungi ársins 2013.

Á seinni hluta ársins gerum við svo ráð fyrir talsverðum afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum, en á heildina litið er líklegt að þjónustuviðskipti dragi vagninn hvað varðar afgang af utanríkisviðskiptum í ár. Er það viðsnúningur frá síðustu árum, þar sem afgangur af viðskiptajöfnuði hefur verið drifinn að mestu af hagstæðum vöruskiptum.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall