Fréttir Greiningar

Hægir á aukningu kaupmáttar

24.03.2017 10:11

Verulega hefur dregið úr kaupmáttaraukningu launa frá því hún var hvað hröðust fyrir tæpu ári síðan. Kaupmáttur mun þó aukast talsvert á yfirstandandi ári að mati okkar, þar sem nafnlaunahækkun verður veruleg á sama tíma og verðbólga helst hófleg. Vaxandi kaupmáttur mun því ýta undir einkaneysluvöxt í ár líkt og í fyrra, þótt vöxturinn verði væntanlega heldur hóflegri í ár.


Samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitala um 0,4% í febrúar sl. Undanfarna 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 5,5%. Það er talsvert hægari taktur en var í janúar (8,7%) og skýrist af því að áhrif af kjarasamningum ASÍ og SA í ársbyrjun 2016 detta nú út úr 12 mánaða taktinum. Takturinn hefur raunar ekki verið hægari frá maí 2015, enda hafa kjarasamningshækkanir verið örar frá þeim tíma, bæði á almennum markaði og í opinbera geiranum.

Stund milli stríða

Það má þó segja að 12 mánaða takturinn nú endurspegli stund milli stríða. Stór hluti launþega á almennum markaði mun fá 4,5% samningsbundna launahækkun í maí nk. Þá losna samningar ýmissa stétta opinberra starfsmanna þegar líður á árið. Við gerum því ráð fyrir að 12 mánaða taktur launavísitölunnar hækki á nýjan leik í vor og verði út árið að jafnaði nokkuð hærri en febrúarmælingin gaf til kynna.

Kaupmáttur launa minnkaði um 0,3% í febrúar, enda hækkaði vísitala neysluverðs um 0,7% í mánuðinum. Líkt og í launavísitölunni lækkaði 12 mánaða taktur kaupmáttaraukningar talsvert í febrúar. Mældist 12 mánaða takturinn 3,5% í febrúar, en hafði verið 6,7% í janúarmánuði. Aukning kaupmáttar hefur ekki verið hægari síðan í júní 2014. 

Hér er rétt að hafa tvennt í huga: Í fyrsta lagi er 3,5% kaupmáttaraukning á ársvísu dágóð, bæði á sögulegan og alþjóðlegan mælikvarða. Í öðru lagi teljum við, líkt og að ofan er sagt um launavísitöluna, að horfur séu á að kaupmáttaraukningin verði hraðari þegar kemur fram á árið enda fer þá saman talsverð kjarasamningsbundin hækkun launa og áframhaldandi lítil verðbólga. Á árinu í heild gerum við þannig ráð fyrir að kaupmáttur launa aukist að jafnaði um 4,5% frá síðasta ári. Til samanburðar jókst kaupmátturinn um 9,5% á síðasta ári að jafnaði, en þar var um afar óvenjulega þróun að ræða. Næstu 20 árin þar á undan nam árleg kaupmáttaraukning ríflega 2,1% að jafnaði, og er það í stórum dráttum í takti við algenga þróun í öðrum þróuðum ríkjum. Það má því heita harla gott ef kaupmáttur launa vex um 15% samanlagt á aðeins tveimur árum.

Neyslugleði landsmanna hóflegri nú 

Allsterk fylgni hefur verið síðustu misserin milli aukningar kaupmáttar launa annars vegar, og þróunar einkaneyslu hins vegar. Kaupmáttur launa jókst raunar talsvert hraðar en einkaneysla á síðasta ári m.v. bráðabirgðatölur Hagstofunnar um síðarnefnda liðinn. Munurinn er enn meiri ef miðað er við einkaneyslu á mann, en landsmönnum fjölgaði um 1,7% í fyrra og fólki á vinnumarkaði um 2,7% á sama tíma. Virðast heimilin því hafa lagt fyrir einhvern hluta af auknum kaupmætti í fyrra. Eins og sjá má af myndinni hér að ofan var þessu hins vegar öfugt farið þegar hæst hóaði í neyslugleði landsmanna fyrir rúmum áratug síðan. Á árunum 2004-2008 jókst einkaneysla að jafnaði mun hraðar en sem nam kaupmáttarvexti, og var neyslan þá í sívaxandi mæli fjármögnuð með lánsfé. Engin merki eru hins vegar um slíka aukningu í lánsfjármagnaðri neyslu nú.

Við teljum að einkaneysla muni vaxa myndarlega í ár, þótt vöxturinn verði líklega heldur hægari en sá 6,9% vöxtur sem mældist í fyrra. Kemur þar til talsverð kaupmáttaraukning launa, fjölgun landsmanna og sú staðreynd að fjárhagsleg staða heimilanna er að jafnaði nokkuð sterk. Í þjóðhagsspá okkar síðastliðið haust gerðum við ráð fyrir 5,5% vexti einkaneyslu í ár, en í ljósi ofangreindrar þróunar er spá okkar líklega hófleg fremur en hitt.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall