Fréttir Greiningar

VNV hækkar um 0,6% og verðbólga hjaðnar í 2,3%

27.02.2018 13:39

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,6% í febrúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,3 en var 2,4% í janúar. VNV án húsnæðis hækkaði einnig, eða um 0,6% í febrúar og m.v. þá vísitölu mælist 0,9% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Útlit er fyrir að verðbólga verði áfram við 2,5% markmið Seðlabankans næstu mánuði.

Mæling febrúarmánaðar er í neðri kantinum af öllum birtum spám, við spáðum 0,6% hækkun VNV milli mánaða. Fátt kom á óvart í mælingu hagstofunnar og voru flestir undirliðir í samræmi við spá okkar. Þeir undirliðir sem helst þróuðust með öðrum hætti í spá okkar og niðurstöðu Hagstofu var hækkun reiknaðrar húsaleigu og lækkun í flutningum í lofti í ferða- og flutningaliðnum.

Húsnæðisliðurinn til hækkunar

Húsnæðisliðurinn leggur mest til hækkunar VNV. Undanfarna mánuði hefur þessi liður verið óútreiknanlegur og hafa síðustu mælingar Hagstofunnar á íbúðaverði farið á allt annan veg en kannanir okkar og spár almennt bentu til. Í febrúarmælingunni hækkaði liðurinn í heild um 0,54% (0,19% hækkunaráhrif í VNV). Greidd húsaleiga hækkaði um 0,26% (0,02% í VNV) en mestu munar um 0,73% hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,15% í VNV) en sá liður byggir að mestu á þróun íbúðaverðs. Einnig hækkuðu veitugjöld lítillega eða um 0,16% (0,01% í VNV).

Undirvísitölur Hagstofunnar fyrir markaðsverð íbúðarhúsnæðis sýnir þróunina eftir tegund og staðsetningu húsnæðis. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% og á sérbýli um 0,9%. Verð á landsbyggðinni hækkaði þó mest eða um 1,6% milli mánaða og hefur hækkað mikið fyrstu tvo mánuði ársins en hækkunin í janúar nam 5,4%. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur íbúðaverð hækkað um 13,4% undanfarna 12 mánuði. Hefur því aðeins dregið úr hækkunartaktinum sem fór hæst síðasta sumar þegar hann var ríflega 24%.

Áhrif útsöluloka umtalsverð

Áhrif útsöluloka á VNV er ávallt veruleg í febrúar, og var engin breyting nú á. Húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði um 5,8% milli mánaða og vó einna þyngst til hækkunar VNV í febrúar (0,21%). Einnig hækkuðu föt og skór um 4,9% (0,16%) líkt og spá okkar gaf til kynna.

Að öðrum liðum sem hækkuðu var áfengi og tóbak um 0,86% milli mánaða (0,02% í VNV) og tómstundir og menning um 0,16% (0,02% í VNV).

Þeir liðir sem lækkuðu í mælingunni voru flutningar í lofti sem lækkuðu um 3,6% (-0,04% í VNV) en lækkunin vakti sérstaka athygli okkar þar sem við spáðum því að þessi liður myndi hækka í mánuðinum. Matar og drykkjarvörur voru nokkuð ódýrari í febrúar en í mánuðinum á undan en lækkunin nam 0,06% (-0,01 í VNV) í mælingunni. Ásamt því lækkaði póstur og sími um 0,5% milli mánaða (-0,01% í VNV).

Horfur fyrir næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólga muni aukast lítillega næstu mánuði en verði þó við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Við spáum 0,4% hækkun í mars nk., 0,3% hækkun í apríl og 0,2% hækkun VNV í maí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,5% í maí næstkomandi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall