Fréttir Greiningar

Stýrivextir óbreyttir enn um sinn

16.05.2018 12:20

Stýrivextir Seðlabankans verða óbreyttir enn um sinn líkt og vænst var. Ákvörðunin var fremur tíðindalítil og virðist sýn bankans og peningastefnunefndar á stöðu og horfur í hagkerfinu ekki hafa breyst ýkja mikið undanfarið. Bankinn telur horfur á að hagvöxtur verði að jafnaði 3,0% út áratuginn og að verðbólga verði nærri markmiði bankans en að jafnt og þétt dragi úr spennu í hagkerfinu.

Hlutlaus tónn

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum  óbreyttum við vaxtaákvörðun bankans í morgun. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25% en þeir hafa verið óbreyttir frá október síðastliðnum.  Ákvörðunin var í samræmi við almennar væntingar á markaði. Opinberar spár í aðdraganda ákvörðunarinnar voru samhljóða um óbreytta vexti og hafa viðbrögð á skuldabréfamarkaði verið lítil í morgun.

Tónninn í niðurlagi yfirlýsingar peningastefnunefndar er hlutlaus og í stórum dráttum áþekkur tóninum í síðustu yfirlýsingu:

Horfur eru á minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum. Eigi að síður er áfram þörf fyrir peningalegt aðhald til að halda aftur af örum vexti innlendrar eftirspurnar. Dregið hefur úr hættu á ósjálfbærum launahækkunum til skamms tíma litið en undirliggjandi spenna á vinnumarkaði er enn til staðar.

Ekki verður ráðið af þessum orðum að nefndin sjái fyrir sér breytingar á stýrivöxtum til hækkunar eða lækkunar  til skemmri tíma litið.

Minni spenna framundan í þjóðarbúinu

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir aðeins minni hagvexti í ár (3,3%) en í fyrra (3,6%) en spáin er að mörgu leyti áþekk febrúarspá Seðlabankans. Gert er ráð fyrir talsvert meiri opinberri fjárfestingu en í síðustu spá, en á móti minni vexti útflutnings. Þá spáir bankinn sem fyrr ört vaxandi fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og nokkuð myndarlegum vexti einkaneyslu þótt í báðum tilfellum hægi á vextinum þegar frá líður. Bankinn gerir ráð fyrir minnkandi viðskiptaafgangi, en að þó verði afgangur af utanríkisviðskiptum út spátímann.

Ný verðbólguspá Seðlabankans hljóðar upp á öllu meiri verðbólgu á næsta ári (2,6%) en fyrri spá (2,2%). Það stafar af því að ekki er lengur gert ráð fyrir lækkun skatthlutfalls í efra þrepi virðisaukaskatts um næstu áramót. Undirliggjandi verðbólguþróun er hins vegar lítið breytt frá síðustu spá bankans. Nýja verðbólguspáin er mjög áþekk okkar nýjustu verðbólguspá og hljóðar upp á verðbólgu rétt við 2,5% markmið bankans út áratuginn.

Miðað við spá bankans mun draga jafnt og þétt úr framleiðsluspennu á spátímabilinu. Áætlar hann að framleiðsluspenna hafi verið 2% umfram framleiðslugetu á síðasta ári en að hún verði komin niður í 0,3% af framleiðslugetu í lok áratugarins.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall