Fréttir Greiningar

Lygileg lækkun olíuverðs

16.12.2014 09:38

Verð á hráolíu hefur lækkað lygilega síðustu mánuði, en frá miðju ári hefur olíuverðið lækkað í kringum 49%. Þegar þetta er skrifað stendur verð á Brent hráolíu í 59,3 USD tunnan og hefur það ekki verið lægra síðan á miðju ári 2009. Síðustu ár virðist olíuverð hafa átt sér ákveðið gólf í kringum 100 USD tunnan. Ef marka má erlendar fréttir virðast hins vegar margir sérfræðingar þessa dagana álíta að hið nýja gólf verði í kringum 60 USD tunnan. Verðið gæti þó leitað enn lengra niður, náist ekki samstaða meðal OPEC ríkjanna um að draga úr framboði. Þannig kom fram í fréttum Bloomberg í síðustu viku að starfsmaður olíumálaráðuneytisins í Íran hefði sagt verðið geta farið niður í 40 USD tunnan við óbreytt ástand.

Dregur úr eftirspurn í efnahagssamdrætti...

Nokkrar kenningar eru um ástæður lækkunar olíuverðs. Þeir sem hrifnir eru af samsæriskenningum voru fljótir til og sögðu ástæðuna þá að lækkun olíuverðs væri fljótlegasta leiðin til að setja þrýsting á Rússland, sem er mjög háð háu olíuverði hvað varðar ríkisrekstur og gjaldeyristekjur. Flestir gáfu þó lítið fyrir slíkar kenningar og sögðu Bandaríkin einnig tapa á svo mikilli olíuverðslækkun, og það væri því ekki líkleg skýring. Á hinn bóginn hefur hagvöxtur verið mjög lítill síðustu ár í Evrópu og víðar með tilheyrandi samdrætti í eftirspurn á eldsneyti, og hafa spár um eftirspurn eldsneytis verið endurskoðaðar niður á við undanfarið.

...á sama tíma og framboð eykst

Á sama tíma hefur framboð aukist verulega í kjölfar nýrra aðferða við að bora eftir eldsneyti. Annars vegar hafa menn hafið að bora eftir olíu á hlið, og hins vegar er búið að taka upp nýja vinnsluaðferð. Þessi aðferð gengur á ensku undir heitinu fracking (hydraulic fracturing) en á íslensku hefur verið talað um háþrýstivökvabrotun. Í stuttu máli er eldsneyti unnið upp úr jarðlögum þannig að sandi og öðrum efnum er sprautað inn í berglög til að losa olíu sem ekki var hægt að sækja áður. Hafa menn litið til framleiðslukostnaðar með  þessari aðferð sem líklegt gólf í olíuverði. Af vinnslustöðum sem stunda háþrýstivökvabrotun berast hins vegar ólíkar fréttir af því hvar sá botn kann að liggja. Alþjóðlega orkumálastofnunin (International Energy Agency) telur að 4% af þessari framleiðslu verði óarðbær við 80 USD tunnan. Á hinn boginn er sagt að stærsta olíuvinnslusvæði Bandaríkjanna þar sem þessi aðferð er notuð verði arðbær niður að 42 USD tunnan. 

Lítil samstaða hjá OPEC – Saudi Arabia ver markaðshlutdeild sína

Í fréttum Bloomberg kemur fram að lækkun olíu nú svipi til olíuverðslækkunarinnar árið 1980 þegar olíuverð fór niður í 12 USD tunnan eftir að Saudi Arabia ákvað að verja markaðshlutdeild sína. Saudi Arabia er sagt leiða lækkunina nú af sömu ástæðu þar sem þeir vilji setja þrýsting á hina nýju framleiðslu í Bandaríkjunum. Saudi Arabia þolir töluverða lækkun enn, en samkvæmt fréttum gæti framleiðsla þeirra verið arðbær allt niður í 10-20 USD tunnan. Haldist verðið á þessum slóðum í einhvern tíma er ljóst að verulegur halli verður á ríkisfjármálum ýmissa olíuþjóða þ.á.m. í Rússlandi. Saudi-Arabia er þó sagt hafa litlar áhyggjur af því, enda séu þau ríki sem verst verði úti ekki lönd sem þeir telja til vinaríkja sinna. 

Nýr veruleiki á olíumarkaði – ítök OPEC minnka

Breska tímaritið The Economist var með áhugaverða greiningu á breyttum veruleika á olíumarkaði snemma í þessum mánuði. Í grein þeirra kemur fram að hefðbundnar olíulindir séu flestar hverjar undir íshellu eða liggi djúpt í sjó. Það sé verulega kostnaðarsamt að  bora eftir þessari olíu og það taki langan tíma. Á hinn boginn taki mjög stuttan tíma að bora með hinni nýju aðferð. Það taki ekki nema um viku að gera hverja holu notkunarhæfa, borunin sé ódýr en holurnar tæmist þó frekar hratt. The Economist segir því að þessi framleiðsla sé í raun eins og drykkjarverksmiðja, ef heimurinn verður þyrstur þá geti þeir tappað á flöskur. Telur tímaritið að þetta leiði til þess að markaðurinn verði mun stöðugri í framtíðinni þar sem þessi nýja framleiðsla í Bandaríkjunum muni veita ákveðna viðspyrnu þegar verð hækkar um of. Sé mat The Economist rétt gætum við því verið á leið inn í nýjan veruleika á olíumarkaði þar sem ítök OPEC til stjórnunar á olíuverði minnka. 

Horfur á næstunni og þýðingin fyrir Ísland

Verð olíu á framvirkum markaði hefur haldið áfram að lækka á síðustu vikum. Framvirkt verð í desember á næsta ári er nú um 10% lægra en fyrir viku síðan og um 14% lægra en fyrir tveim vikum síðan. Það er því allt útlit fyrir að olíuverð haldist lágt áfram, í  það minnsta hlýtur að teljast ólíklegt að það fari aftur yfir 100 USD tunnan alveg á næstunni. 

Verðlækkanir á innfluttri hrávöru hafa alla jafnan svipuð áhrif á hagkerfið og skattalækkanir þar sem lægra verð á nauðsynjavöru eykur rými til kaupa á annarri vöru. Áhrifin geta því orðið til aukinnar einkaneyslu. Erfitt er að spá fyrir um áhrifin hér heima. Markaðsverð eldsneytis hefur lækkað töluvert á síðustu vikum en þó ekki jafn mikið og við sjáum erlendis. Lækkað verðlag til neytenda verður hins vegar aldrei í prósentutölum jafn mikið og verðlækkun á hráolíu. Í fyrsta lagi er auðvitað krónutöluskattur á eldsneyti og hins vegar þurfa olíufélögin að standa undir ákveðnum föstum kostnaði sem breytist ekki þó olíuverð lækki. Það má þó leiða líkur að því að enn sé töluvert svigrúm til lækkunar eldsneytis hér heima.

Hver verða áhrifin á ferðaþjónustu?

Á sama tíma er ferðaþjónusta mikilvægasta gjaldeyrisskapandi grein þjóðarbúsins, en búast má við að lækkun eldsneytisverðs geti haft þó nokkur áhrif á afkomu þessarar greinar. Í fyrsta lagi má  búast við því að verð á flugi lækki þar sem dragi úr sérstöku eldsneytisgjaldi. Í annan stað þá getur eldsneytisverð haft áhrif á mat félaga á arðsemi einstakra flugleiða. Með öðrum orðum má segja að hugsanlega verði einhverjar flugleiðir héðan og hingað arðsamar sem voru það ekki áður með tilheyrandi áhrifum á ferðamannafjölda. Áhrif vegna þessa, verði þau einhver, koma í ljós snemma á næsta ári þegar stæðaúthlutun á Keflavíkurflugvelli liggur fyrir. Í þessu tilliti er þó vert að benda á að í spám sínum fyrir næsta ár gerir IATA ráð fyrir að verð á Brent hráolíu verði að meðaltali í kringum 85 USD tunnan, sem er talsvert yfir verðlagi olíu í dag. Lágt olíuverð hefur væntanlega jafnframt einhver jákvæð áhrif á afþreyingarfyrirtæki í ferðaþjónustu sem nota mikið eldsneyti, svo sem jeppa og snjósleðaferðir, þar sem eldsneytiskostnaður er væntanlega stærsti kostnaðarliður þeirra ásamt rekstrarkostnaði í formi afskrifta vegna árlegrar notkunar tækja.

Í það heila verður áhugavert að fylgjast með olíuverðsþróun næstu misserin, enda getur olíuverð haft töluverð efnahagsleg áhrif ásamt því sem það getur haft töluverð áhrif í heimspólitísku tilliti.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall