Fréttir Greiningar

Peningastefnunefndin sátt við núverandi raungengi næstu misseri

26.06.2014 12:10

Fundargerð peningastefnunefndar vegna síðasta vaxtaákvörðunarfundar hennar 11. júní sl. sem birt var í gær er í stórum dráttum tíðindalaus. Flest þar er endurtekning frá fundargerð nefndarinnar vegna fundar hennar í maí sl., enda afar stutt á milli funda og fátt nýtt komið fram í millitíðinni sem kallar á breytta afstöðu nefndarinnar til hæfilegs aðhaldsstigs stýrivaxta bankans um þessar mundir.

Tíðindi í orðum um raungengið

Það eina sem má túlka sem tíðindi í þessari fundargerð er umræðu nefndarmanna um gengisþróun krónunnar og aðgerðir bankans á nullgjaldeyrismarkaði undanfarna mánuði. Í fundargerðinni segir að það sé afstaða nefndarmanna að raungengi krónunnar sé um þessar mundir ekki fjarri þeim stað sem nefndin teldi ásættanlegt næstu misserin.

Til eru nokkrir mælikvarðar á raungengi. Sýna þeir allir viðlíka þróun yfir lengri tíma þó að nokkur munur kunni að vera til skemmri tíma. Sá sem er oftast notaður er raungengi krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs neysluverðs, sem má skilgreina sem neysluverð á Íslandi samanborið við neysluverð erlendis, reiknað í sömu mynt.

Raungengi krónunnar hefur hækkað

Raungengi krónunnar á mælikvarða verðlags var 5,1% hærra í maí sl. en það var í sama mánuði í fyrra. Hækkunin skýrist að mestu af hækkun á nafngengi krónunnar á tímabilinu, en m.v. viðskiptavegna gengisvísitölu krónunnar var það 3,8% hærra núna í maí en í sama mánuði í fyrra. Hinn hluti hækkunar raungengisins skýrist af því að verðbólgan hefur á tímabilinu verið meiri hér á landi en í viðskiptalöndunum, og þá þrátt fyrir að verðbólga hér á landi hafi verið nálægt verðbólgumarkmiði og  lág í sögulegu samhengi.

Peningastefnunefndin sáttari við nafngengislækkun en -hækkun

Lesa má úr ofangreindum orðum peningastefnunefndar að hún sé sátt við að nafngengi krónunnar lækki á næstunni til samræmis við þann mun sem er á innlendri og erlendri verðbólgu. Reiknum við með því, líkt og Seðlabankinn, að verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði bankans út þetta ár en fari síðan að aukast á næsta ári samhliða því að slakinn hverfi úr efnahagslífinu. Á sama tíma er spáð lítilli verðbólgu í helstu nullviðskiptalöndunum og þá minni verðbólgu en spáð er hér. Er okkar spá líkt og Seðlabankans byggð á því að gengi krónunnar haldist óbreytt út spátímabilið. Ljóst er að lækkun krónunnar mun valda því að verðbólgan verður eitthvað meiri en við spáum, að öðru óbreyttu.

Ofangreind orð peningastefnunefndarinnar endurspegla einnig það sem hefur mátt lesa út úr aðgerðum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undanfarið, þ.e. að hann vill ekki sjá nafngengi krónunnar hækka. Það má því segja að bankinn hafi sett ákveðið gólf í gengisþróun krónunnar sem má reikna með að verði til staðar á næstu misserum. Mun bankinn því áfram nýta allt það hreina innflæði gjaldeyris sem ellegar hefði farið í að styrkja krónuna á því tímabili til að efla gjaldeyrisvarasjóð bankans. Tækifærið til að styrkja gjaldeyrisforðann með þessum hætti er kærkomið í ljósi þess hvað óskuldsettur gjaldeyrisforði bankans er lítill, og að framundan eru boðuð skref í rýmkun gjaldeyrishafta.

Eðlilegt að raungengið hækki samhliða auknum umsvifum í efnahagslífinu

Raungengi krónunnar hefur frá hruni lengst af verið mun lægra en það jafnvægisgengi sem reikna má með til lengdar. Því hefur verið vitað að raungengi krónunnar myndi hækka samhliða því að slakinn myndi hvera nullúr efnahagslífinu. Hækkun raungengisins frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér kemur okkur því ekki á óvart. Hins vegar hefur verið óvíst í hvaða mæli raungengishækkunin yrði fyrir atbeina hærra nafngengis krónunnar, og hversu miklu leyti vegna meiri verðbólgu en í viðskiptalöndum.

Seðlabankinn getur með aðgerðum sínum tafið þessa hækkun raungengisins eitthvað en ekki komið í veg fyrir hana til lengri tíma. Hann getur hins vegar haft talsverð áhrif á það hvort hækkunin á sér stað fyrir tilstuðlan verðbólgu eða nafngengishækkunar. Þar er ljóst að bankinn vill frekar nafngengishækkunina og út frá þjóðarhag er sú þróun heppilegust.

Hröð hækkun raungengisins óhentug

Þegar kemur að hækkun raungengisins um þessar mundir er sígandi lukka best. Hröð hækkun raungengisins er óhentug á meðan enn eru gjaldeyrishöft og ekki hefur verið rekið smiðshöggið á uppgjör þrotabúa gömlu bankanna, endurfjármögnun skuldabréfa Landsbankans og fleiri mál sem talin eru forsenda þess að hægt sé að aflétta höftunum. Segja má að hækkun raungengisins undanfarið hafi þannig verið nokkuð hröð og ekki sé í bráð innistæða fyrir mikið meiri hækkun. Orð peningastefnunefndar Seðlabankans um að hún sé sátt við núverandi raungengi næstu misseri er því  skiljanleg í þessu ljósi. Aðgerðir bankans á gjaldeyrismarkaði eru þannig einnig heppileg, en með þeim slær hann í raun tvær flugur í einu höggi. Stuðlar hann að því að ekki dragi um of úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum og safnar einnig í sarpinn fyrir áhættusamari tíma í gjaldeyrisflæðinu.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall